30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3400 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

54. mál, útflutningsleyfi

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Hæstv. forseti. Það hefur verið rætt um málið í síðustu ræðum nema stjórnarliðar rufu málefnalega umræðu með ótímabærum athugasemdum um þingsköp, látandi liggja að því að stjórnarandstaðan væri eitthvað treg til að ræða mál. Ég vil alveg frábiðja mér að það sé einhver sérstök tregða að við ræðum um málið. Það er nú eitthvað annað. Menn hafa verið ötulir að spjalla um hlutina. Ég held að það sé nauðsynlegt að halda þessari málefnalegu umræðu áfram þó það sé býsna freistandi að skjóta því inn í að það er skrýtið þegar leiðtogi Alþfl. í deildinni leggur alveg sérstaka áherslu á að kýla þetta mál áfram, langt umfram utanrrh. og óralangt umfram hv. 8. þm. Reykv. Eftir stendur það núna á þessu síðdegi, daginn fyrir gamlársdag, að að er Alþfl. sem er alveg ólmur í að koma málinu fram. Þetta sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann, mætti kannski segja af þessu tilefni, virðulegur forseti. En við skulum ekki eyða tíma í það heldur hitt að mig langar til að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau svör sem hann gaf við mínum spurningum og það innlegg sem hann kom með og sömuleiðis hæstv. sjútvrh. og einnig fyrir þær athugasemdir sem fram komu frá hv. 8. þm. Reykv.

Málið sem við erum að reyna að ræða heitir Útflutningsleyfi en í tengslum við það höfum við spurt þeirrar spurningar: Var eðlilega að verki staðið varðandi útgáfu reglugerðar nr. 64/1987 um breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands? Ég hygg að ég hafi rökstutt mál mitt allvel með tilvitnunum í fyrrverandi hæstv. forsrh. Bjarna Benediktsson sem mælti fyrir stjórnarráðsfrv. á sínum tíma. Ég var eins og að vonast til þess að hv. þingdeild, stjórnarliðar ekki síður en aðrir, vildi allra vinsamlegast leggja eyrun við og velta því fyrir sér hvort ekki væri efnisleg ástæða til að taka tillit til þessara athugasemda. Ég held að það geti verið góður siður að hlusta stundum á það sem menn segja, jafnvel úr stjórnarandstöðunni, og sérstaklega þegar menn eru að lesa upp úr efnislegum ræðum sem fluttar hafa verið af mönnum eins og Bjarna Benediktssyni og Ólafi Jóhannessyni. Ég hygg að að öðrum mönnum ólöstuðum á þessari öld liggur mér við að segja séu fáir menn sem standa þeim jafnfætis, hafa staðið þeim jafnfætis hvað þá heldur framar að því er varðar lög um stjórnskipun Íslands og stjórnarfar. Ég var satt að segja í barnaskap mínum, bláeygðum barnaskap mínum, sveitamennsku, að gera mér vonir um að það væri hægt að rökræða málið. Ég tel mig ekki hafa verið með málþóf og tel heldur ekki að mín ræða í dag hafi gefið neitt tilefni til þess að menn væru hér uppi með skæting og svigurmæli heldur reyndi ég að ræða málið efnislega. Þetta er mér mikið alvörumál. Mér finnst að það skipti miklu máli hvernig þingið tekur á svona máli, skipti miklu máli hvernig þingið og þingræðið stendur gagnvart framkvæmdarvaldinu, sérstaklega þegar um er að ræða lög eins og lög um Stjórnarráð Íslands, lög um Hæstarétt og lög um þingsköp Alþingis, svo ég nefni þrjú dæmi úr ræðu minni fyrr í dag. Þegar ég heyrði í hæstv. utanrrh. áðan hvarflaði að mér hvort ekki væri hugsanlegt að við tækjum til við og lykjum 2. umr., svo sem staðið hefur til, um málið, tækjum okkur síðan morgunfund á mánudaginn kemur, 4. janúar, þegar þingið kemur saman aftur, í fjh.- og viðskn. og færum aðeins yfir þessi atriði. Það er allt og sumt sem ég hef verið að nefna. Ég skírskota til sanngirni hæstv. utanrrh. í þessu efni. Ég vænti þess að hann hafi hlýtt á það sem ég sagði hér í dag og veit að hann gerði það. Ég skírskota til sanngirni hans í þessu efni því ég held að sum mál séu þannig, þó það séu harðar deilur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að þá sé óhjákvæmilegt að menn temji sér stundum a.m.k. sanngirni í meðferð mála eins og þessa því að það snertir grundvallaratriði.

Þessa frómu ósk vil ég bera hér fram, en síðan segja þetta út af því sem hæstv. utanrrh. sagði.

Í fyrsta lagi er það alveg rétt að utanrrn. hefur alltaf farið formlega með samninga fyrir Íslands hönd gagnvart erlendum þjóðum og ríkjabandalögum. Dæmi um það er að viðskrn. hefur unnið samninga gagnvart GATT og EFTA, Efnahagsbandalagi Evrópu, en hinn formlegi samningsaðili er utanrrn. Eins er það t.d. með landbrn., svo ég nefni dæmi. Landbrn. fer með samskipti Íslands við FAO, en utanrrn. er þó sá aðili sem tekur ákvarðanir þegar t.d. á þeim vettvangi koma upp formleg dellumál. Eins er það með Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Samskiptin við hana fara fram í gegnum heilbr.- og trmrn., en þegar þar koma upp pólitísk dellumál er það utanrrn. sem tekur ákvarðanir. Sama er að segja um Alþjóðavinnumálastofnunina. Samskiptin við hana heyra undir félmrn., en pólitísk álitamál heyra undir utanrrn. Ég man eftir því að þegar ég gegndi störfum félags- og heilbrmrh. kom það oft fyrir að á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar komu upp pólitísk mál sem ég hafði alveg ákveðna skoðun á, sem ég reyndar hafði grunsemdir um að hæstv. þáv. utanrrh. hefði aðra skoðun á, og þó það væri mér sárt lét ég það ævinlega ganga fram rétta boðleið að utanrrh. tæki ákvörðun um afstöðu Íslands til viðkvæmra pólitískra deilumála hjá þessum alþjóðastofnunum. Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt í þessu máli.

Það er líka rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að auðvitað eru þessi mál víða. Ég veit ekki betur en Síldarútvegsnefnd hafi einkaleyfi á útflutningi á síld og hún heyri að fullu og öllu undir sjútvrn. Þannig mætti lengi telja. Auðvitað er það þannig í okkar stjórnarráðslögum að þessi mál koma víða fyrir.

Varðandi EFTA-löndin, sem hæstv. ráðherra nefndi, er það þannig að þau eru öll, EFTA-löndin, til skamms tíma a.m.k., með sérstök utanríkisviðskiptaráðuneyti. Ég held að það hafi verið skynsamlegt af okkur að vera með fyrirkomulag í þessum efnum sem ekki er ólíkt því sem gerist í EFTA-löndunum.

Hæstv. utanrrh. svaraði því engu hvort þess væru dæmi að fráfarandi forsrh. hafi breytt verkaskiptingu verðandi eða viðtakandi ríkisstjórnar. Ég hygg að þess séu reyndar engin dæmi. Það gildir í raun og veru einu í þessu efni hvort hinir stjórnarflokkarnir voru sammála þessu eða ekki. Auðvitað voru þeir sammála. Ég var að spyrja hérna um fordæmi og ég heyrði ekki að ráðherrann nefndi dæmi, enda hygg ég að þau séu tæplega til.

Ég hygg að það sé umdeilanlegt að þessi reglugerð sé í samræmi við anda laganna. Það er ekki mitt hlutverk að benda ríkisstjórninni á eitt eða neitt, en auðvitað getur maður spurt sem 1/63 partur af löggjafarvaldinu hvort ekki væri skynsamlegra að taka þessi efnisatriði inn í sérstök lög, frv. til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, fremur en að ganga frá því í reglugerð.

Ég vil ekki, virðulegi forseti, vera að lengja þessa umræðu. Ég tel enga ástæðu til þess. Ég fór ekki í stólinn til þess heldur til að fara almennt yfir malið. Ég lýk máli mínu með því að segja að það sem hæstv. sjútvrh. benti á staðfestir það sem áður hafði komið fram varðandi afkomu útflutningsatvinnuveganna. Hann sagði að útkoman væri núna önnur en séð hefði verið fyrir þegar ríkisstjórnin var mynduð. Hvað hefur breyst síðan? Það er þrennt. Í fyrsta lagi hafa orðið launabreytingar. Í öðru lagi hafa vextir hækkað gífurlega. Og í þriðja lagi hefur dollarinn haldið áfram að lækka. Þetta er það sem hefur gerst. En ég hygg að það sé ómótmælanlegt að burt séð frá dollaralækkuninni sé myndin í sjávarútveginum núna miklu svartari en maður hefði mátt ætla ef maður hefði fest trúnað á það sem frambjóðendur stjórnarflokkanna sögðu fyrir síðustu alþingiskosningar.

Ég tók einnig eftir þeim tillögum sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram varðandi hag sjávarútvegsins, Verðjöfnunarsjóð o.fl. og ég tel að þær séu mjög góðra gjalda verðar og skynsamlegar í þeirri stöðu sem nú er uppi.