30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

197. mál, vörugjald

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., formanni hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar, að það er mikilvægt fyrir alla og ekki síður stjórnarflokkana að koma þeim þrem málum sem hann minntist á í gegn fyrir áramótin, en vegna vinnubragða fram að þessu hefur frá upphafi, frá því að þessi mál öll komu fyrir Alþingi, verið tímapressa og fyrirsjáanlegt að þessi mál kæmust ekki í gegnum báðar deildir Alþingis og yrðu að lögum nema með mjög góðu samstarfi við minni hl., sem ekki hefur verið vegna þess að meiri hl. hefur ekki talið sig þurfa á neinu samkomulagi að halda við minni hl. Það er stærilæti sem kemur fram hjá hv. formanni fjh.- og viðskn. þegar hann storkar minni hl. með því að segja orðrétt: „Það er ásetningur stjórnarinnar að þessi mál fari í gegn.“ (PP: Að stuðla að því að þessi mál fari í gegn.) Ég skrifaði orðrétt niður. Það getur verið að ég hafi heyrt vitlaust. En ég skrifaði niður það, sem ég hélt að væri orðrétt, að það væri ásetningur stjórnarinnar að svo verði. Samkomulag er ekkert nauðsynlegt vegna þess að hér er hv. formaður að fara í sama farveginn og aðrir í stjórnarmeirihlutanum hafa gert hingað til við afgreiðslu mála, að hnefarétturinn skal vera þingræðinu yfirsterkari. Er ekki meiri hl. farinn að skilja að hann ræður ekki við minni hl. sem fer eftir þingræðislegum reglum og gefur ekkert fyrir hótanir eða þann hnefarétt sem meiri hl. er að taka sér?

Stjórnarflokkarnir hafa legið yfir kerfisbreytingum í langan tíma, sagði virðulegur formaður fjh.- og viðskn., sem ég skildi þannig að vegna þess hve þeir hafa sín á milli vandað sín vinnubrögð og legið yfir þeim málum sem hér liggja fyrir til afgreiðslu í langan tíma komi minni hl. ekkert við hvernig þessi mál líta út. Hann á bara að þegja og ekkert að taka þátt í afgreiðslu þeirra. Hann á bara að átta sig á því að meiri hl. hefur í langan tíma legið yfir málum. Ég kallaði það einu sinni að þeir hefðu sofið á verðinum. Hvar þeir hafa legið er mér ráðgáta. (HG: Þeir sváfu fram í desember.) Þeir hafa ekki verið að vinna að málunum því að þau eru illa unnin og þarf að senda á milli deilda í stórum málum til að leiðrétta misskilning eða slæm vinnubrögð sem átt hafa sér stað.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði að ekki væri hann eða meiri hl. að „kássast“ í því hvernig minni hl. gerir sín nál. Þakka skyldi honum. En þingsköp ætlast til þess að minni hl. hafi tíma til að vinna. Þingsköp ætlast til þess að nefndarmenn hafi hugmynd um hvenær mál koma á dagskrá nefnda og hvenær þau fara af dagskrá nefndar og til afgreiðslu þingdeilda. Minni hl. hlýtur að vera búinn að koma þeim skilaboðum yfir til meiri hl. fyrir löngu á þessu þingi að meiri hl. tekst ekki að nota hnefaréttinn. Við erum að verða eins konar krossberar réttlætis í þingsköpum, þó fáir séum miðað við þann aukna meiri hl. sem stjórnin styðst við. Og við látum ekki troða á okkur. Við erum ekki bara að verja okkar rétt. Við erum að verja vinnubrögð Alþingis í langan tíma. Við erum að byggja okkar vinnubrögð á þeirri hefð sem hefur skapast frá upphafi til þessa dags. Það er engin ríkisstjórn ólíkra flokka, ríkisstjórn andstæðinga í gegnum tíðina frá upphafi þessara þriggja flokka, sem mynda ríkisstjórnina, sem kemur til með að brjóta niður þá hefð og þær reglur, þau lög sem um Alþingi gilda. Ef meiri hl. heldur augnablik að þeir hafi tíma sem vinnur með þeim skulu þeir átta sig á því að tíminn eins og almenningsálitið vinnur með minni hl. Það verður engin afgreiðsla á Alþingi með hnefarétti fyrir þessi áramót. Það verður engin afgreiðsla á neinu í dag ef utandagskrárumræður, að gefnu tilefni frá stjórnarliðinu, taka allan tímann. Það þýðir ekkert fyrir hvorki fjmrh. né aðra óvandaða menn, sem koma með ósannindi frá Alþingi í sjónvarp og útvarp, í ríkisfjölmiðlana, að segja að minni hl. sé um að kenna að mál komist ekki í gegn.

Ef þessar kerfisbreytingar verða til þess, nái þær ekki fram að ganga, að eitthvert ástand skapast í þjóðfélaginu er það vegna þess að meiri hl. með sínu hringli, sem hefur verið á öllum málum, breytingar á öllu, allt það sem var er ekki nýtanlegt, í staðinn skal koma eitthvað sem Alþfl. býr til og teymir hina stjórnarflokkana með sér út í það fen, skapi það óreiðu í þjóðfélaginu lýsi ég allri ábyrgð á þessar andstæður í flokkum, andstæður í hugsjónum sem standa að þeirri ríkisstjórn sem við verðum að þola í dag og ætlast til að ráðherrar komi ekki í ríkisfjölmiðlana til að kenna stjórnarandstöðunni um hvernig verður þegar það ástand hefur skapast af þeirra völdum.

Virðulegi formaður fjh.- og viðskn. og ágætu vinir í meiri hl. Ég ætla að biðja ykkur um að átta ykkur á því að við sem erum í minni hl. látum ekki nokkurn mann troða á þeim þinglega rétti sem okkur tilheyrir. Það getið þið ekki þó þið viljið. Það verður ekki þó þið reynið.

Við virðulegan hæstv. forseta vil ég segja að forseti þessarar deildar, forseti Ed. og að sjálfsögðu fyrst og fremst forseti sameinaðs Alþingis eru forsetar minni hl. ekki síður en meiri hl. og mega aldrei verða verkfæri meiri hl. Forseti verður að gæta þess öryggis sem minnihlutaréttur okkar gefur okkur. Og við treystum á réttlæti forseta hér eftir sem hingað til. Ég ítreka að við munum líka standa að því að forseti þessarar deildar, forseti Ed. og forseti sameinaðs Alþingis skuli aldrei verða starfsmenn meiri hl.