04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

196. mál, söluskattur

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Enn er til umræðu frv. til laga um söluskatt. Við höfum rætt þessi mál í þessari hv. deild aðallega á tíma sem ekki er venjulegur fundatími deildarinnar og einnig hefur málið verið tekið á og af dagskrá hér í deildinni án þess að alltaf lægi ljóst fyrir hvers vegna.

Það sýnir kannski best samstarfsvilja stjórnarandstöðunnar að hún skuli sætta sig við slíkt ráðslag og taka í mál að ræða þau mikilvægu mál sem hafa verið til umræðu í deildinni milli jóla og nýárs með þeirri tímapressu sem á okkur var sett. Það var auðvitað algjör neyð að þurfa að afgreiða frv. um vörugjald og frv. um tolla frá deildinni nánast órædd. Þm. deildarinnar hafa haft allt of lítinn tíma til að kynna sér þessi mikilvægu mál og þarf ekki annað en vísa til umræðu hér í deildinni um vinnubrögð í fjh.- og viðskn. deildarinnar. Vinnubrögð eins og þá var lýst eiga að sjálfsögðu alls ekki að geta átt sér stað.

Vegna þess hve mikið við í stjórnarandstöðunni höfum lagt á okkur kemur á óvart það nöldur sem heyrst hefur út í okkur vegna framgangs þeirra mála sem ríkisstjórnin taldi nauðsynlegt að afgreiða með forgangshraði. Þau mál sem hafa verið nefnd voru svo seint lögð fram hér á Alþingi að ekki var hægt að búast við að þau yrðu afgreidd fyrir áramót með eðlilegum hætti.

Í áramótaávarpi hæstv. forsrh., sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 3. janúar, stendur, með leyfiforseta:

„Lýðræðið tekur sinn tíma og Alþingi á rétt til eðlilegrar umfjöllunar um slík mál," segir hæstv. forsrh. þegar hann er að tala um þessi mál ríkisstjórnarinnar, „en það á ekkert skylt við lýðræði þegar mál eru tafin tafarinnar vegna. Meginmáli skiptir að það er ekkert hik á þeim sem ábyrgðina bera að koma þeim málum fram sem nauðsynlegt er.“

Hér er einkennilega að orði komist. Lýðræðið tekur sinn tíma, stendur þarna. Það var og. Og hvað skyldi lýðræðið hafa tekið langan tíma?

Eins og ég sagði áðan höfum við aðeins fáa daga til að fjalla um þessi mál. Það kom mér því mjög á óvart að heyra það í umræðuþætti í útvarpinu eftir hádegi á gamlársdag að við hefðum fengið að ræða frv. um söluskatt svo lengi að það samsvaraði einum og hálfum mánuði, eins og hæstv. forsrh. talaði um, ef um eðlilegt þinghald hefði verið að ræða, eða í sex vikur, eins og hæstv. fjmrh. taldi betra að orða það í þessum sama útvarpsþætti. Já, heilar sex vikur var sagt að við hefðum fengið að ræða söluskattsfrv. Ég veit ekki til að við höfum þurft til þess sérstakt leyfi að fá að tala um þetta mál. (Gripið fram í.) Ég varð t.d. ekkert vör við það að herra forseti hefði nokkuð við það að athuga þó að við töluðum um þessi mál þótt að vísu væri um mjög óvenjulegan þingtíma að ræða.

Mér finnst eðlilegt að þeir hinir sömu sem finna út hve margar vikur við höfum talað í þessu máli taki sig nú til og reikni út hvað það samsvarar mörgum vikum sem við í stjórnarandstöðunni höfum talað hvert yfir öðru og hve margar vikur stjórnarþm. hafa sofið heima og hve margar vikur ríkisstjórnin hefur setið og hlustað á það sem stjórnarandstaðan hefur haft fram að færa og hve margar vikur hafa verið notaðar hér í þessum þingsal við lestur á sögu- og ljóðabókum og tímaritum meðan á umræðum um frv. um söluskatt hefur staðið og hve mörgum vikum sá tími samsvarar sem notaður var til að fara yfir málið í þingnefnd. Ég held að þetta yrðu allt saman mjög fróðlegar upplýsingar.

Herra forseti. Ég hélt í barnaskap mínum þegar ég settist inn á Alþingi nú í haust að Alþingi væri annað og meira en stofnun sem setti stimpil á þau frv. sem ríkisstjórnin leggur fram. Það virðist sem umræður hér á þinginu skipti engu máli. Það telja sér ákaflega fáir stjórnarþm. skylt að hlýða á umræður og þá tel ég með þá þm. sem sitja í ríkisstjórninni. Skiptir þá engu máli hvaða álit stjórnarandstöðuþm. hafa á málum ríkisstjórnarinnar og eru allir þm. sem styðja stjórnina alltaf sammála öllu sem hún gerir? Og líti nú hver í sinn barm og spyrji sjálfan sig.

Hér fara ekki fram nein skoðanaskipti milli þm. Það er meira að segja svo að það eru ítrekað bornar fram fsp. til hæstv. ráðherra og einstakra þm. án þess að þeir telji sér skylt að svara þeim. Það má spyrja, herra forseti: Til hvers erum við hérna? Hvert er hlutverk Alþingis? Er ekki ætlast til annars af okkur en að samþykkja þegjandi og hljóðalaust það sem frá ríkisstjórninni kemur?

Í þeirri von að eitthvað heyrist af því sem hér er sagt og eitthvert mark sé á því tekið höfum við þingkonur Kvennalistans flutt brtt. við frv. sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur gert grein fyrir hér fyrr í dag.

Við höfum margbent á og ætti hæstv. ráðherra og reyndar ráðherrum öllum að vera orðið ljóst að við erum á móti matarskattinum illræmda. Við sem höfum barist gegn þessum matarskatti a Alþingi erum ekki ein um þá skoðun. Ég hef undir höndum fjölmargar ályktanir frá ýmsum félögum launafólks þar sem matarskattinum er mótmælt. Ég vil ekki tefja tímann með því að lesa upp þessar ályktanir en reikna með að hæstv. fjmrh. hafi einnig fengið þær og lesið vandlega.

Ein aðalástæðan og það eina sem ég hef heyrt sem rök fyrir matarskatti er einföldun. Mér þykir það ákaflega einkennileg aðferð til einföldunar að setja skatt á matvæli. Það má svo sem vel vera að það sé einfaldara að innheimta söluskattinn ef allar vörur eru með sömu söluskattsprósentu, en það er svo sannarlega ekki einfalt fyrir launafólk að greiða þennan skatt. Það eru margir með það lág laun að þá munar um þann matarskatt og þeir þurfa að kreppa enn frekar að sér en þeir hafa þurft að gera undanfarið.

Herra forseti. Í skýrslu fjmrh. um störf nefndar sem kannaði umfang skattsvika, sbr. ályktun Alþingis frá 3. maí 1984, og lögð var fyrir Alþingi 8. apríl 1986 kemur fram á bls. 9 í einni grein kafla sem nefndur er „Samandregnar niðurstöður“, með leyfi forseta:

„Samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar eru mestar líkur fyrir dulinni starfsemi og skattsvikum í eftirtöldum greinum raðað eftir áhættustigi: a. byggingarstarfsemi, b. persónuleg þjónustustarfsemi svo sem bílaþjónustugreinar, gúmmíviðgerðir, hjá hárgreiðslu- og snyrtistofum o.s.frv. og c. iðnaður, verslun, veitinga- og hótelrekstur.“ Greinilegt er því að verslun kemur aftarlega í röðinni þegar raðað er eftir áhættustigi. Það er því erfitt að skilja hvers vegna hæstv. fjmrh., ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar leggja áherslu á matarskattinn. Ekki virðist undandrátturinn sem svo mikið hefur verið leitað að vera falinn í versluninni eftir því sem hér kemur fram alla vega.

Það hefur lítið sem ekkert verið gert til að reyna að koma í veg fyrir þann mikla undandrátt á söluskatti sem talið er að sé verulegur eins og kemur þarna fram ítrekað en virðist eftir þessu ekki vera neitt að ráði í verslun, miklu frekar í öðrum greinum. Og það er ekki hægt að sjá af frv. sem liggur fyrir að neitt sé tekið á þeim.

Ástæða þess að ekki er hægt að samþykkja frv. eru því margar þótt söluskattur á matvæli séu okkur kvennalistakonum stærstur þyrnir í augum.

Það eru ýmis atriði varðandi þetta frv. sem ég gjarnan vildi ræða frekar en þar sem ríkisstjórnin og fylgismenn hennar virðast vera komnir í þegjandaleik tel ég tilgangslaust að vera að tala frekar um þetta mál. Ef þetta er það sem kalla á umræðu og málefnalega umfjöllun af hálfu stjórnarflokkanna um þetta mikilvæga mál get ég alls ekki verið sammála því. Ég vona svo sannarlega að þetta sé ekki forsmekkurinn að því hvernig umræður eiga eftir að fara hér fram um þau frumvörp sem ríkisstjórnin á eftir að leggja fyrir þingið.

Herra forseti. Ef svo á að vera tel ég þingræðinu illa komið og erfitt að sjá að það sem hér hefur verið viðhaft af hálfu stjórnarflokkanna eigi nokkuð skylt við lýðræði. Ef svo er þarf ég að fá sérstaklega skýringu á því.