05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3591 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

196. mál, söluskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er trú mín að þessi matarskattur muni lengi loða við þá menn sem standa að því að samþykkja hann og verða í sögunni bæði frægasta og jafnframt talið versta verk þessarar hæstv. ríkisstjórnar og væri þá við hæfi að hún tæki nafn af þessari gjörð og yrði framvegis kölluð matarskattastjórnin. Ég vil, herra forseti, við lokaatkvæðagreiðslu um matarskattafrv. í hv. deild undirstrika algera andstöðu Alþb. við þessar óheyrilegu álögur á lífsnauðsynjar sem stendur til að taka upp. Allar brtt. stjórnarandstæðinga um að taka til baka að einhverju eða öllu leyti álögur á matvörur hafa nú verið felldar. Þessi skattur kemur til með að bitna verst á þeim sem lægst hafa launin. Hér stendur til að setja heimsmet í álögum á matvörur og voru matvörur þó fyrir með því dýrasta sem þekktist hér á landi. 25% skattlagning á matvörur er köld kveðja til almennings í þessu landi í upphafi nýs árs, en verst högg mun þessi gjörð þó er til lengdar lætur reynast íslenskum landbúnaði og, matvælaframleiðslu og má þó síst við slíku þar. Ég segi nei.