05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3639 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

196. mál, söluskattur

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Enn einu sinni erum við komin með söluskattsfrv. á dagskrá hér í hv. deild. Við erum búin að láta mörg orð falla um það óréttlæti sem væntanleg lög um matarskattinn bera með sér og þarf ekki að fjölyrða öllu frekar um það. Það er hryggilegt að verða vitni að því þegar þm. stjórnarliðsins í hv. deild munu endanlega ganga frá því að það verði lagður 25% matarskattur á heimilin í landinu. Ummæli hæstv. fjmrh. eru þess efnis að með ýmsum hliðarráðstöfunum verði um niðurgreiðslur að ræða sem muni draga verulega úr þeim hækkunum sem matarskatturinn hefur í för með sér. Ég dreg mjög í efa að það standist sem hann hefur þar sagt. Það er ekki nokkur vafi á því og það hefur reyndar oft komið fram hér í umræðum að matarskatturinn mun leggjast mjög þungt á hina tekjulægri. Staðhæfingar þess efnis að framfærsluvísitala muni nánast standa í stað eða hækka lítið sem ekki neitt orka mjög tvímælis að standist í reynd, enda eru veður mjög válynd og fram undan eru óróatímar þar sem má búast við að verðbólga fari aftur á fullt skrið. Það er þegar farið að tala um gengisfellingu og reyndar mjög háværar raddir sem tala svo að það verði ekki umflúið að fella gengið fljótlega, a.m.k. þegar kemur fram á útmánuði. Allt stefnir þetta að því að það verði mjög vandlifað í þessu landi þegar komið verður fram á mitt ár.

Sem dæmi um þann flumbrugang sem hefur verið samfara allri þeirri málsmeðferð sem frv. hefur fengið má nefna að við umfjöllun í Nd. flutti þm. Borgarafl., hv. 11. þm. Reykn. Hreggviður Jónsson, brtt. við frv. þar sem hann hafði rekið sig á að hvergi í frv. er gert ráð fyrir að varahlutir, vélar og tæki fyrir skip og báta séu undanþegin söluskatti. Þessi brtt. var felld við endanlega atkvæðagreiðslu um allar till. í Nd., en þó kom greinilega fram að þm. stjórnarliðsins höfðu af þessu áhyggjur. Þarna hefði þeim yfirsést að laga þetta til. Hæstv. ráðherra svaraði þannig að með reglugerð gæti hann kippt þessu í liðinn. En það verður að segjast eins og er að það er ákaflega einkennilegt að verða vitni að því að meiri hl. alþm. stendur að því að fella brtt. um að varahlutir, vélar og tæki fyrir báta og skip verði undanþegið söluskatti, en ætla sér að treysta á að ráðherrann grípi til einhverra reglugerðarheimilda um að undanþiggja þessa hluti söluskatti. Spurt er hvort þetta stangist ekki á, hvort ráðherrann sé þá ekki að brjóta í bága við vilja þingsins. Vilji þingsins eða a.m.k. meiri hl. þingsins er ótvíræður. Meiri hl. þingsins vill ekki að varahlutir, vélar og tæki fyrir báta og skip verði undanþegnir söluskatti.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Við höfum flutt um þetta langar ræður og margt merkilegt komið fram í umfjöllun okkar um söluskattinn í hv. Ed. Ég læt orðum mínum lokið.