22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

Sala Útvegsbankans

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Kvennalistinn hefur ítrekað bent á það á síðasta kjörtímabili að nauðsyn væri fyrir hagræðingu í íslensku bankakerfi. Þjónusta þess er of dýr fyrir neytendur. Það ríkir nær engin samkeppni á milli þessara banka þótt þeir séu fjölmargir og einnig er brýn nauðsyn á því að styrkja bankana með því að sameina þá og stækka.

Þegar frv. til l. um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands var til umfjöllunar á síðasta þingi var skoðun Kvennalistans sú að eina raunhæfa leiðin í málinu væri sameining við annan ríkisbanka og nefndum við þá til Búnaðarbankann, þó að Landsbankinn kæmi til greina líka. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. viðskrh. nú: Hefur þessi hugmynd ekki komið til alvarlegrar umfjöllunar hjá ráðherra eða öðrum stjórnvöldum sem hafa fjallað um málefni Útvegsbankans nú? Vil ég biðja hann að lýsa skoðun sinni um þessa leið hér í ræðustól.