07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér skilst að það hafi orðið að samkomulagi milli forsetanna að ég hefji a.m.k. mál mitt þó það standi víst til að gera eitthvað annað hér kl. 11 heldur en að halda áfram umræðu um lánsfjárlög.

Mig langar til að spyrja hæstv. forseta svona til gamans hvernig það sé með t.d. ráðherra Sjálfstfl. hvort þeir séu hættir þátttöku í ríkisstjórninni. Við ræðum hér dag eftir dag stórmál þar sem enginn hæstv. ráðherra Sjálfstfl. sést. Og hvernig er það með framsóknarráðherrana? Eru þeir e.t.v. hættir þátttöku líka í ríkisstjórninni? Er þetta orðin minnihlutastjórn Alþfl., virðulegur forseti, eða hvað er hér á ferðinni? Nei, kemur ekki hæstv. utanrrh., mikill fögnuður er oss að því. Þetta er e.t.v. meirihlutastjórn Alþfl.? Nei, það verður auðvitað að spyrja sjálfan sig að einhverju slíku og jafnvel fleiri þegar menn taka dag eftir dag þátt í umræðum hér daglangt um hin stærstu mál án þess að ráðherrar heilla stjórnarflokka sjáist.

Það er rétt að minna á það, herra forseti, að hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa þingskyldur í tvennum skilningi. Skv. 51. gr. stjórnarskrárinnar eiga ráðherrar sæti á Alþingi burt séð frá því hvort þeir eru þm. eður ei. Og þannig háttar til í þessari ríkisstjórn að allir hæstv. ráðherrar eru jafnframt kjörnir á Alþingi og bera þar af leiðandi að sjálfsögðu þingskyldur eins og aðrir hv. þm. Hafi mönnum gleymst þetta þá er ástæða til að rifja það upp því að hér koma stundum hæstv. ráðherrar dregnir í þingsali samkvæmt óskum þm. og væla þá yfir því að þeir hafi öðrum skyldum að gegna. Eins og það sé einhver afsökun fyrir fjarveru hér úr þingsölum! Auðvitað hafa allir hv. alþm. ýmsum skyldum að gegna, við kjördæmi sín og umbjóðendur og ýmsa aðila utan þingsala en menn eiga engu að síður að rækja þingskyldur sínar.

Ég fer því fram á það að þeir hæstv. fagráðherrar sem hér eiga undir í þessari umræðu, eru með mál í þessum lánsfjárlögum, ýmist lántökuheimildir eða skerðingarákvæði sem snerta þeirra málaflokka, að þeir geri svo vel og sitji hér í þingsölum þegar þessi mál eru rædd og sinni sínum þingskyldum. Ég gæti átt ýmislegt vantalað við ýmsa hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar um þessi efni. Ég tel einnig mjög óviðeigandi að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér, sem fer með yfirstjórn efnahagsmála í ríkisstjórninni, ekki síst með tilliti til aðstæðna í þessum efnum um þessar mundir. Ég tel það í raun og veru algjöra nauðsyn að hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur þessa umræðu þegar henni heldur fram og fer fram á það við hæstv. forseta að hann láti athuga hvort við megum vænta þess að halda hér áfram umræðum um mál af þessu tagi þannig að ráðherrar heilla stjórnarflokka — og eru þeir ekki færri en fjórir hæstv. ráðherrar bæði Sjálfstfl. og Framsfl. (Gripið fram í: Þeir eru miklu fleiri.) Þeir séu hér einhvers staðar nálægir. Það kann að vera en okkur er ekki ljóst að þeir séu fleiri en fjórir úr hvorum flokki, hv. þm. Það getur vel verið að einhverjir ráðherrar telji sig ráðherraígildi, einhverjir aðrir þm., en það er þá a.m.k. ekki opinbert.

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til að huga að tvennu alveg sérstaklega áður en farið er að ræða einstök efnisatriði þessa frv. til lánsfjárlaga. Það er í fyrsta lagi: Hvernig fór með lántökuheimildir og lánsfjárlög síðasta árs? Hvernig gengu þau upp hjá hæstvirtum ríkisstjórnum, þeirri sem lét af völdum og þeirri sem tók við, sem fóru með þessi mál á síðasta ári? (Gripið fram í.) Það er rétt. Hér upplýsir hæstv. fjmrh. að það voru litlir 4,2 milljarðar umfram, reyndar rúmir samkvæmt dagblaðinu Tímanum, þ.e. 4250 millj. kr. umfram heimildir eða áætlun lánsfjárlaga á síðasta ári. Og hvað bar þar til? Fyrst og fremst óhemjulegar erlendar lántökur ýmissa aðila sem nýta sér þetta margblessaða frelsi í peningamálum. — 4250 millj. kr. umfram upphaflega áætlun. Og að langmestu leyti er þar um að ræða aukningu á erlendum skuldum, þar af umtalsverða raunaukningu erlendra skulda sem stafar að stórum hluta til af þessum óheyrilegu lántökum umfram heimildir, umfram áætlun lánsfjárlaga síðasta árs.

Þetta er ástæða til að menn hafi í huga, að erlendar lántökur á síðasta ári urðu 12 400 millj. kr., eða 4250 millj. kr. umfram upphaflega áætlun. Þetta leiðir til þess að á síðasta ári, góðærisárinu mikla 1987, varð raunaukning á erlendum skuldum Íslendinga. Raunaukning á erlendum skuldum. Það er ástæða til að undirstrika að menn mega ekki láta villast af því þó að greiðslubyrði og upphæðir erlendra lána fari lækkandi í hlutfalli við þjóðarframleiðslu af þeirri einföldu ástæðu að þjóðarframleiðslan óx verulega og vextir lækka erlendis. Til viðbótar hækkar svo raungengi íslensku krónunnar þannig að allt leiðir þetta til þess að þessi hlutföll fara niður á við þó að á sama tíma séu erlendar skuldir þjóðarinnar í raun að vaxa. Þetta held ég að sé sérstök ástæða til að rifja upp og vekja athygli á í upphafi vegna þess að menn skjóta sér gjarnan á bak við það að þetta sé allt í fína lagi af því að greiðslubyrði erlendra lána sé að lækka. En það gerist í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Hvað gerðist ef gengið væri nú fellt? Ef gengið yrði fellt þó ekki væri nema um það sem raungengi íslensku krónunnar er nú hærra en það hefur lengst af áður verið? Þá auðvitað rýkur þetta hlutfall upp og greiðslubyrði erlendra skulda vex aftur.

Síðan er það annað, herra forseti, sem ástæða er að ræða hér sérstaklega við hæstv. ríkisstjórn — og fagna ég nú komu hæstv. forsrh. — áður en farið er í einstök efnisafriði þessa frv., og það eru efnahagshorfurnar. Það eru skilyrðin við þær aðstæður að rætt er hér frv. til lánsfjárlaga. Hvernig er ástandið? Hvar er nú verðbólga upp á eins stafs tölu sem hæstv. núv. utanrrh. lét kjósa sig út á hér á sl. vori? Fullyrðingar um það að verðbólgan yrði næstum því gufuð upp í lok ársins, hann hefði með efnahagssnilld sinni gengið af verðbólgunni dauðri. Staðan er sú í árslok, nokkrum mánuðum eftir að þessi hæstv. ráðherra lét af störfum sem forsrh. í ríkisstjórn að verðbólgan er yfir 30%. Yfir 30%. Verðbólga, sem þjóðinni var talin trú um að yrði eins stafs tala, er nú yfir 30%. Og verðbólguspár eru uppi á bilinu allt frá 16–18% fyrir næsta ár og upp í yfir 50%. Spár ábyrgra aðila í þjóðfélaginu leika á þessu bili. Þannig að allt hjal um lækkun verðbólgu og jafnvægi í efnahagsmálum, sem var síendurtekið hér á fyrri hluta sl. árs, verður harla broslegt, grátbroslegt, herra forseti, í þessu ljósi. (Forseti: Ég vil benda ræðumanni á að samkvæmt viðtali við hann áður en hann hóf ræðu sína var gert ráð fyrir að þessari umræðu yrði frestað kl. 11. Ég mælist til að hann geri hér þáttaskil í ræðunni.)

Herra forseti. Ræðumaður vill það gjarnan og er fús til þess. En ég ætla að leyfa mér að beina þeirri eindregnu ósk til hæstv. forseta að hann láti athuga með fjarvistir hæstv. ráðherra og upplýsi í upphafi þessa fundar, þegar fram verður haldið umræðu um lánsfjárlög, hverjir ráðherrar hafa beðið um fjarvist.