07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3777 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. sjútvn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hér hefur farið fram ágæt og ítarleg umræða um mörg atriði í því máli sem er til umfjöllunar eins og vera ber. En ýmsir hafa haft á orði í þessari umræðu að of lítið hafi verið fjallað um grundvallaratriði fiskveiðistefnunnar og þær forsendur sem hún byggir á, að þessi atriði hafi fallið í skuggann af ýmsum útfærsluatriðum. Ég get í sjálfu sér tekið undir það þó að það sé skiljanlegt að umræða um útfærsluatriði geti verið allmikil og tímafrek.

En sumir þeirra sem hafa minnst á þennan skort, ef ég má orða það svo, á umræðu um grundvallaratriði hafa jafnframt sérstaklega gagnrýnt sumar þær undirstöður sem stefnan er byggð á og þar á ég við þær hafrannsóknir sem hér eru framkvæmdar og þær álitsgerðir sem birtast frá þeirri stofnun. Ég ætla ekki að fjalla neitt sérstaklega um það atriði, enda getur sú stofnun gert grein fyrir sér sjálf. Ég vil engu að síður benda á að þótt fiskstofnarannsóknir séu ekki nákvæm vísindi er þó það sem þar birtist eitt af því skásta sem við höfum til þess að byggja stefnumörkun okkar á. Í því sambandi verða menn vitaskuld að hafa í huga að í skýrslum Hafrannsóknastofnunar birtast ekki einungis spár um framtíðina, og við höfum reyndar reynslu af því að ýmsar spár sem okkur eru birtar, hvort sem þær eru á sviði efnahagsmála eða annarra atriða, eru oft ekki mjög nákvæmar, heldur birtist líka í skýrslum þeirrar stofnunar yfirlit yfir liðinn tíma, yfir það sem hefur verið að gerast í raun, m.a. um samsetningu á afla, t.d. eftir aldri og þyngd. Þær staðreyndir höfum við þá í öllu falli fyrir okkur í skýrsluformi um leið og við höfum þær í raun fyrir augunum á degi hverjum í þeim afla sem berst á land og í þeim fregnum sem við höfum af miðunum. Þetta finnst mér nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar um þetta er fjallað.

Við megum aldrei gleyma því að markmið fiskveiðistjórnunarinnar er að tryggja eftir föngum hagkvæma nýtingu fiskstofnanna og þó að þessi markmið hafi ekki náðst eins og æskilegt hefði verið á undanförnum árum skulum við vona að betur takist til í framtíðinni. Það að ná ekki þessum markmiðum varðar ekki eingöngu það að heildaraflamagn hafi farið fram úr þeim mörkum sem menn settu sér. Það varðar ekki síður samsetningu aflans og vaxandi dráp á smáfiski sem að mínum dómi er mikið áhyggjuefni og mikið alvörumál.

Nú undir lok þessarar umræðu minni ég á í þessu sambandi að Alþfl. leggur ríka áherslu á örugga stjórnun fiskveiða og varúð í umgengni við þessa viðkvæmu auðlind. Til þess að tryggja bæði viðgang fiskistofnanna og hagkvæma nýtingu teljum við mjög mikilvægt að smáfiskur sé verndaður eftir mætti og dregið úr því smáfiskadrápi sem viðgengist hefur augljóslega á undangengnum árum í vaxandi mæli.

Að endingu, herra forseti, vil ég ítreka einmitt þessi sjónarmið og beina því sérstaklega til hæstv. ráðherra að hafa markmiðin í huga, hafa þau ríkulega í huga í framtíðinni, og nota þau tæki sem hann ræður yfir, og þau eru reyndar æðimörg, til þess að tryggja þessi grundvallarmarkmið svo mikilvæg sem þau eru.