22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í utanrmn. vil ég fara örfáum orðum um till. og það sem henni tengist. Ég tel að með henni sé haft mjög verðugt frumkvæði til að taka á máli sem snertir Ísland, öryggishagsmuni okkar og efnahagslega hagsmuni eins og fram kom hjá flm. Það er ánægjuefni að hér hafa komið fram í umræðunni svo jákvæð viðbrögð við þetta mál eins og menn hafa heyrt frá þeim sem hér hafa talað á undan mér.

Ég heyrði á máli hæstv. utanrrh. að honum þætti kannski helst til skammt gengið með till. þar sem með henni væri lagt til að fjallað yrði á þeirri ráðstefnu, sem gert er þar ráð fyrir, um hvernig komið verði á formlegum samningaviðræðum um afvopnun á norðurhöfum og síðan vikið að því hverjir ættu heima á slíkri ráðstefnu. Hæstv. ráðherra virtist telja að það væri ástæða til að stíga jafnvel stærra skref í þeim efnum. Ég hygg að af hálfu flm., hv. 5. þm. Reykn., sé lagt til þetta skref að vandlega athuguðu máli og það eitt út af fyrir sig væri auðvitað stórfelldur árangur ef það tækist að koma á samkomulagi um ráðstefnu sem tæki á efnisatriðum. Okkur er ljóst að það verður ekki náð landi í svo stóru máli sem þessu nema á mörgum fundum. Hitt er svo annað mál að ef unnt er með frumkvæði Íslands m.a. að undirbúa ráðstefnuhald sem gæti tekið á efnislegum þáttum málsins sýnist mér að við gætum sannarlega ekki haft á móti því að slíkur fundur yrði hér haldinn, en það mundi þá reyna mjög verulega á íslenska utanrrn. í þeim efnum að hreyfa við málinu, taka það upp við þá fjöldamörgu aðila sem þarna eiga hlut að máli og með það að markmiði að koma hér á fundi. Þetta vildi ég segja vegna þess sem fram kom hjá hæstv. utanrrh., en flm. mun eflaust víkja frekar að því hér við framhald umræðunnar.

Hér hefur mikið verið rætt um þau breyttu viðhorf sem nú eru í sambandi við afvopnunarmál og þá miklu hreyfingu sem á þeim er og þar á meðal vegna frumkvæðis af hálfu annars risaveldanna. Múrmansk-ræða Gorbatsjoffs hefur komið hér mikið inn í umræðu og það er mjög ánægjulegt að heyra það viðhorf frá utanrrh. ekki aðeins Íslands, eins og hér liggur fyrir, heldur einnig Noregs, eins og það kemur fram í Morgunblaðinu í dag í ítarlegu viðtali við hann, að þeir meta þær hugmyndir mikils sem fram hafa komið af hálfu Sovétríkjanna í þessum efnum.

Nú skal ég ekki vera að gera meira úr þeim tillögum en efni standa til. Menn verða að líta á þær eins og þær liggja fyrir og láta á það reyna hvaða hugur liggur að baki. Það tekst hins vegar ekki nema menn setjist að borði til að taka á þeim þáttum sem þar er að vikið.

Ég held, virðulegur forseti, að það væri ómaksins vert á tveimur mínútum að vitna til þess kafla í ræðu Gorbatsjoffs frá Múrmansk sem mest snertir þessi mál þannig að það liggi fyrir í þingtíðindum og þá tek ég það sem mér virðist að skipti einna mestu varðandi þennan þátt og sem tengist þessari till. sem hér er flutt, en þar segir:

„Þess vegna langar mig þegar ég er staddur hér í Múrmansk á þröskuldi heimskautsins og Norður-Atlantshafsins til að bjóða þeim sem yfir þessum svæðum ríkja til viðræðna um öryggismál, sem löngu eru tímabærar.

Hvernig gerum við okkur þetta í hugarlund? Það má vera einhliða og tvíhliða og marghliða samstarf. Ég hef oftar en einu sinni orðið að ræða um „hið sameiginlega heimili okkar, Evrópu“. Styrkur nútímasiðmenningar gerir kleift að byggja heimskautssvæðið í þágu þjóðarbúskaparins og annarra hagsmuna í löndunum sem ríkja á heimskautinu og Evrópu og samfélagsins alls. Til þess verður fyrst og fremst að leysa þau öryggismál sem hafa skapast. Sovétríkin eru fylgjandi því að verulega sé dregið úr fjandskap á þessum slóðum. Megi norðurhjari plánetunnar verða að friðarsvæði. Megi norðurpóllinn verða að friðarpól. Við leggjum til við öll ríki, sem áhuga hafa, að hefja viðræður um takmörkun og samdrátt hernaðaraðgerða í norðri í heild, svo og á austurhveli og vesturhveli jarðar.

Hvað skyldum við eiga hér við nákvæmlega?

1. Um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu. Ef tekin væri slík ákvörðun væru Sovétríkin, eins og þegar hefur verið lýst yfir, tilbúin til að bera ábyrgð. Það er komið undir ríkjunum sem eru þarna aðilar að hversu markvisst þessi ábyrgð verður formuð: Með marghliða sáttmálum eða einhliða, með yfirlýsingum ríkisstjórna eða á annan máta.

Jafnframt lýsa Sovétríkin yfir að þau eru tilbúin til að ræða við öll ríki, sem hlut eiga að máli, um þau vandamál er varða kjarnorkuvopnalaust svæði og tilurð þess, þar á meðal mögulegar ráðstafanir varðandi sovéskt landsvæði. Við gætum gengið enn lengra, m.a. flutt kafbáta á brott frá Eystrasalti sem eru með ballistískum eldflaugum.

Eins og kunnugt er hafa Sovétríkin einhliða tekið niður skotpalla fyrir meðaldrægar eldflaugar á Kolaskaga og stóran hluta skotpalla fyrir slíkar eldflaugar á Leningrad-hersvæðinu og Eystrasaltshersvæðinu. Mikið af skammdrægum eldflaugum var flutt á brott frá þessum héruðum. Á svæðum sem eru í nágrenni við landamæri skandinavísku landanna hafa heræfingar verið takmarkaðar. Eftir að gert var samkomulag um tvöfalda núll-lausn hafa opnast viðbótarmöguleikar á því að koma á hernaðarlegri slökun á þessum slóðum.

2. Við fögnum tillögu Finnlandsforseta, Mauno Koivisto, um takmörkun hernaðarframkvæmda á hafi í höfunum við Norður-Evrópu.“ Og hér er vikið beint að því sem hér er til umræðu. „Fyrir sitt leyti hafa Sovétríkin lagt til að hefja umræður milli Varsjárbandalagslandanna og NATO um minnkandi hernaðaraðgerðir og takmarkaða starfsemi flota og flughers á Eystrasalti, Norðursjó og Grænlandshafi og einnig um útbreiðslu ráðstafana til að efla traust.

Meðal slíkra ráðstafana gætu verið sáttmálar um takmörkun samkeppni í kafbátavopnum, tilkynningar um umfangsmiklar æfingar flota og flughers, að fulltrúum frá öllum ríkjum í Samtökunum um samvinnu og öryggi í Evrópu verði boðið að fylgjast með umfangsmiklum æfingum flota og flughers. Þetta gæti verið fyrsta skrefið til að útbreiða traust á heimskautssvæðinu og í norðurhéruðunum beggja vegna.

Auk þess leggjum við til að skoðuð verði þau mál er lúta að starfsemi flota og flughers á þeim svæðum sem eru alþjóðleg hafsvæði og yfirleitt skipaferðir. Í þessu markmiði mætti halda fund þeirra aðila, sem áhuga hafa, t.d. í Leningrad.“

Þetta er aðeins einn þáttur í þessari ræðu sem talin hefur verið svo athyglisverð af íslenska utanrrh. og þeim norska, svo að dæmi séu tekin, og ég tek undir það að hér er hreyft við mörgum þáttum sem skipta hagsmuni þessara svæða afar miklu. En það er aðeins með viðræðum sem hægt er að láta á reyna hvaða alvara býr að baki.

Hér var sérstakur sendimaður sovétstjórnarinnar á ferð fyrir nokkrum dögum og ræddi við íslensk stjórnvöld og fulltrúa úr utanrmn. og þar var komið að ýmsum þýðingarmiklum þáttum, m.a. að því er snertir umhverfismál og verndun auðlinda á norðurslóð. Ég held að það sé, fyrir utan hinn hernaðarlega þátt og umferð kjarnorkuknúinna skipa sem hv. 10. þm. Reykv. vék að sérstaklega, eitt af þeim sviðum þar sem sé afar þýðingarmikið að þjóðirnar á norðlægum slóðum taki saman höndum. Einn þáttur þess máls felst í till. sem hér var lögð fram í Sþ. í dag, tengt kjarnorkuendurvinnslustöð í norðanverðu Skotlandi.

Það skiptir miklu þegar fulltrúar kjarnorkuvelda lýsa því skorinort yfir að þarna sé hættuástand á ferðinni, ekki aðeins hernaðarlegt heldur einnig vistfræðilegt, og Íslendingum er í rauninni skylt, þar eð við byggjum á sjávarauðlindum fyrst og fremst og munum gera það í fyrirsjáanlegri framtíð, að taka undir og taka menn á orðinu í þeim efnum og láta á það reyna og líta á þessi mál í víðu samhengi.

Ég þakka hv. flm. þessa máls fyrir að færa það hér inn á vettvang Alþingis í þessari þáltill. og mun að sjálfsögðu taka þátt í umræðum um hana í utanrmn. og vænti að hún leiði til þess sem að er stefnt með tillögunni.