07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

181. mál, stjórn fiskveiða

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Nú gætu ýmsir haldið að við mundum upphefja hér mikið málþóf. Okkur þm. Borgarafl. hefur hvort eð er verið kennt um allt sem aflaga fer hér í þinghaldinu og það er búið að upplýsa alþjóð um það að við okkur eina sé að sakast. Úr því að það er orðin staðreynd að okkur er kennt um það sem aflaga fer í þingstörfunum þá væri kannski eðlilegast að við tækjum okkur þá til og ég héldi svona eins og sjö klukkutíma ræðu hérna. En ég ætla nú að kæta hv. þm. deildarinnar með því að ég ætla aðeins að segja hér nokkur orð að lokum.

Ég vil fyrir það fyrsta þakka fyrir afar fróðlegar og málefnalegar umræður. Ég vil leyfa mér að vísa algjörlega til föðurhúsanna ummælum hv. þm. Eiðs Guðnasonar um að hér hafi verið röflað fram og aftur, það sama tuggið upp aftur og aftur. Ég vil algjörlega vísa þessum staðhæfingum til föðurhúsanna. Hér hefur þvert á móti verið talað á mjög málefnalegan og skynsamlegan hátt og ég fyrir mitt leyti vil sem nýr þm. fá að þakka öllum sem hér hafa tekið til máls fyrir þann fróðleik sem hér hefur verið fluttur. Ég tel að ég hafi lært meira um sjávarútvegsmál á þessum tíma sem við höfum verið að fjalla um fiskveiðistefnuna en á allri ævinni fram til þessa.

Eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í kvöld er ekki nokkur vafi á því að þessar löngu og miklu umræður hafa skilað árangri. Það hafa komið fram brtt. sem hafa verið samþykktar þannig að frv. hefur tekið á sig mildilegri mynd þó svo að eftir sem áður sé það ósamþykkjanlegt af hálfu okkar þm. Borgarafl.

Ég vil þá enn fremur þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans þó svo að mér sé ekki ljóst að með því frv., sem hér verður að lögum eftir örstutta stund, sé séð fyrir því að sú verndun fiskistofna sem ég var að lýsa eftir muni eiga sér stað. Ég er hræddur um eftir sem áður að það stefni í ofveiði, sérstaklega á þorskstofninum og ég lýsi áhyggjum mínum yfir því hvert muni leiða þegar þetta frv. er orðið að lögum og fiskveiðistefnan verður með þeim hætti sem það gerir ráð fyrir.

Hér er um það að ræða að við erum að staðfesta skömmtunarkerfi fyrir hagsmunaaðila sem hafa haslað sér völl í sjávarútvegi og þannig mun þetta verða næstu árin. Eins og hv. 8. þm. Reykv. benti réttilega á getur það að sjálfsögðu komið til kasta Alþingis að breyta þessum lögum á nýjan leik jafnvel áður en gildistíminn er útrunninn, þannig að það er út af fyrir sig ekki alveg vonlaust að mönnum snúist hugur á næstu árum og reyni að koma með nýtt frv. til laga þar sem ný fiskveiðistefna megi sjá dagsins ljós, skynsamlegri en þetta frv. ber með sér.

Að lokum ætla ég að ítreka það að við þm. Borgarafl. erum andvígir þessu frv. í heild sinni og munum greiða atkvæði gegn því.