14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4040 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason sagði að stjórnarliðið ætlaði að bjarga málum. Og það geta verið orð að sönnu ef þeir fá að taka til máls hér í þessari umræðu eins og hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, kom hér inn á efni í sinni ræðu sem er víst ekki beint skylt lánsfjáráætlun, alla vega ekki þeirri umræðu sem hér hafði hafist í deildinni í gærkvöld. Og ég vil leyfa mér að mótmæla því að hann skuli með svo einföldum hætti sem hann gerði áðan ætla að kenna bankakerfinu um það hvernig komið er í vaxtamálum íslensku þjóðarinnar. Það vita auðvitað allir hv. þm. og þjóðin öll að orsakanna er að leita annars staðar og miklu víðar heldur en í bankakerfinu. Hins vegar er það atriði út af fyrir sig fyrir æfða stjórnmálamenn að finna eitthvert kerfi, finna einhverja aðila úti í bæ, kenna þeim um hvernig komið er í sambandi við vexti og leiða þannig athyglina frá því sem raunverulega er orsök hinna háu vaxta á Íslandi. Ég vil leyfa mér að vísa þess vegna ummælum ráðherrans á bug um það að bankakerfinu sé alfarið um að kenna hvernig komið er í vaxtamálunum. Einnig vil ég mótmæla því að þegar verið er að tala um einföldun bankakerfisins skuli sýknt og heilagt af hálfu ákveðinna valdamanna vera ráðist á þessa starfsemi með þeim hætti að henni er fyrst og fremst beint gegn minni einingum í þessari starfsemi, sem eru minni bankar og sparisjóðir landsmanna. Það er mjög rangt að kenna þessum stofnunum um það og ég er þess vegna alfarið á móti þeirri stefnu sem birtist í ræðum og álitum ýmissa þm. um að það beri að einfalda bankakerfið með þeim hætti að stofna hér til örfárra stórra banka og drepa þar með niður starfsemi hinna minni eininga. Minni einingarnar eru nefnilega oft og tíðum ódýrari og hagkvæmari fyrir utan það að í því felst meira frelsi fyrir fólk að snúa sér til aðila sem geta ráðið miklu í peninga- og fjármálum íslensku þjóðarinnar.

En það er annað sem ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á, ef hann hefur gleymt því. Hverjir skyldu vextir á ríkisvíxlum vera í dag? Ef ég veit rétt — ráðherrann getur væntanlega leiðrétt það þá hér í ræðu sinni á eftir, því hann einn mun geta talað að vild — ef ég hef réttar upplýsingar þá munu ríkisvíxlar vera núna í 9,5%. Þetta eru mjög háir vextir miðað við það að þetta er verðtryggt. Einnig veit ég ekki betur en að hér fyrir nokkrum mánuðum ef ekki enn þá var verið að bjóða upp á spariskírteini ríkisins fyrir 8,5% og upp í rúmlega 9%. Ráðherrann leiðréttir það ef þetta er rangt með farið. Ef þetta eru ekki háir vextir, ef þetta er ekki keppni um það að reyna að ná inn peningum með háum vöxtum, þá skil ég ekki hvernig vextir myndast í íslensku þjóðfélagi.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessa umræðu, en ég leyfi mér að mótmæla því að á síðasta stigi í umræðu um lánsfjáráætlun skuli hæstv. ráðherra og ríkisstjórn koma og fjalla um jafnalvarlegt og viðkvæmt mál eins og endurskipulagning bankakerfisins er með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerði hér áðan.