14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það er misskilningur sem ég veit ekki hvernig er til kominn hjá hv. 14. þm. Reykv. að ég hafi kennt bankakerfinu einu saman um háa vexti á Íslandi. Þvert á móti. Ég taldi hér upp a.m.k. átta eða níu þætti sem yrði að taka inn í þá mynd ef menn vildu ræða það í einhverju rökréttu samhengi.

Hitt er rétt sem fram kom í máli hv. þm. að háir vextir á spariskírteinum ríkisins og ríkisvíxlum staðfestir einmitt það sem fram kom í mínu máli hér áðan að meðan ríkissjóður fjármagnar verulegan hluta af sínum útgjöldum á lánsfjármarkaðnum, þá leiðir það hann við skilyrði mjög mikillar eftirspurnar en takmarkaðs framboðs til samkeppni við m.a. atvinnulíf í landinu og það hefur þau áhrif að hækka vexti. Þarna er um að ræða afleiðingar af gömlum vanda vegna þess að útgáfa spariskírteina hefur verið oft á tíðum ótæpileg á undanförnum árum. Og ef ekki eru gefin út ný spariskírteini á kjörum sem valda því að þau seljast þá gerir það þeim mun meiri kröfur til aukinnar skattlagningar af hálfu ríkissjóðs.

Að því er varðar athugasemd hv. þm. Svavars Gestssonar um það að í mínu máli hafi komið fram að það ætti ekkert að gera að því er varðaði vaxtastefnu hér og nú, þá vil ég aðeins leiðrétta það og taka fram að athugun, umfjöllun, skoðun, rannsókn og umræða um starfskjör atvinnuvega og um vaxtastefnu hefur verið innan ríkisstjórnar á vettvangi sérstakrar ráðherranefndar um efnahagsmál þannig að því fer fjarri að þessi atriði séu ekki til umfjöllunar þótt ekki hafi verið teknar endanlegar ákvarðanir um aðgerðir. (SvG: Er utanrrh. í þeirri nefnd?) Það held ég.