14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4048 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

170. mál, veiting atvinnurekstrarleyfa til erlendra ferðaskrifstofa

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir að taka upp þetta mál. Ég tel að það hafi komið fram í svörum hæstv. ráðherra að það sé langt í frá að þessi mál séu í nógu góðum skorðum hjá okkur. Mín skoðun er sú að það eigi að vera ófrávíkjanlegt að allar skipulagðar hópferðir hafi íslenska leiðsögumenn eða þá að veittar séu frá því sérstakar undanþágur með tilliti til rökstuðnings og aðstæðna í hverju einstöku tilfelli. Annars sé það undanþágulaust.

Með tilliti til þeirra naumt skömmtuðu fjárveitinga sem eru til þessara mála er nauðsynlegt að taka þessi mál upp og taka þau fastari tökum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þessi mál upp og bæta úr þessu ástandi fyrir ferðamannavertíðina á komandi sumri og greina Alþingi frá því áður en það fer heim fyrir vorið til hvaða ráðstafana þeir hyggist grípa í þessu skyni.