01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Borgarafl. hefur rætt till. til þál. sem er á þskj. 172 og lýsir yfir eindregnum stuðningi sínum við hana eins og hún liggur fyrir og komið hefur fram í máli hv. 11. þm. Reykn. hér á undan. En mér finnst þeir sem hafa tekið til máls, bæði hv. 6. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Austurl., tala um málið eins og það sé lagt fyrir til samþykktar á að koma upp því safni sem þar er fjallað um. Það er ekki. Það er verið að gera tillögu um að hér verði skipuð nefnd. Alþingi ályktar að fela menntmrh. að skipa í samráði við sjútvrh. nefnd til að gera áætlun um stofnun og rekstur haf- og fiskveiðasafns. Síðan skal nefndin gera fjárhagsáætlanir og tillögur um uppbyggingu á safninu og leggja fram skýrslu og fjárhagsáætlun fyrir Alþingi áður en ákvörðun er tekin. Mér finnst þetta vera óvenjulega vel unnið mál í hendurnar á Alþingi og liggja nokkuð skýrt fyrir hver vegferð þessa máls á að vera. Ég lýsi bæði eindregnum stuðningi við þau vinnubrögð sem koma fram, þau eru óvanaleg, og eins hugmyndina. Ég ætla ekki að tína til hvaða söfn ég hef skoðað erlendis í þessu sambandi, en vil þó geta þess að eitt það fullkomnasta og miklu skemmtilegra og betra en það sem vitnað var til í Noregi er í Bermúda og þætti mér gaman að hafa slíkt safn hér sem er mjög frábrugðið því sem ég hef séð annars staðar.

En ég vona að miklar umræðu þurfi ekki að fara fram um hvort það á að skipa nefnd til að kanna gott mál eða ekki.