02.02.1988
Efri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4116 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég hlýt að þakka þær undirtektir sem frv. hefur fengið hér. Ég átti reyndar ekki von á öðru því að eins og ég sagði áðan er þetta sanngirnismál og skárra væri það nú að mál sem er grundvallað á slíkri forsendu fengi ekki góðar viðtökur.

Ég kannast vel við það, sem kom fram hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni, að ég kynnti það viðhorf fyrir landbúnaðarnefndarmönnum um það leyti sem ég var að koma þessu máli saman fyrir þinghléið að ég vildi gjarnan að meðnefndarmenn mínir, einn úr hverjum flokki, flyttu þetta mál með mér. Ég hafði talað um það við þrjá nefndarmenn, en svo vildi til að hv. 6. þm. Vesturl. var þá ekki í landinu og er það skýringin á því að ég hafði ekki samband við þann hv. þm.

Hins vegar kom í ljós að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir vildi ekki flytja frv. með mér og það atvikaðist þannig að Karvel Pálmason, varaformaður í nefndinni, var veikur þegar þessi umræða fór fram og gat þess vegna ekki kynnt sér málið. Þá var orðið nokkuð sjálfgefið að ég reri þarna einn á báti. Ég vona að það sé ekki misskilningur á milli mín og hv. þm. Skúla Alexanderssonar um það efni því við töluðum skýrt út um málið. Ég vona að þetta verði ekki til að spilla fyrir framgangi málsins, enda hafa mál verið unnin með þeim hætti í landbn. Ed. að ég sé ekki annað en þar hafi allir haft sóma af sem nærri hafa komið og langflest mál sem þar hafa verið unnin hafa verið afgreidd án tillits til þess hverjir væru í stjórn og stjórnarandstöðu. Svo vona ég að enn verði með þetta mál. Ég veit ekki heldur nema formaður nefndarinnar hefði alveg eins getað montað sig af því, ef menn hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af því í sambandi við flutning á þessu máli, að vera svo slyngur leiðtogi fyrir nefndinni að hann væri búinn að binda hana við afgreiðslu málsins um leið og frv. væri komið fram á Alþingi. Ég held að það megi nefnilega finna afskaplega margar leiðir til að gera hlut sinn góðan hér á Alþingi ef menn eru sérstaklega um það að hugsa. En fyrir mér er þetta mál og framgangur þess aðalatriði.

Hv. þm. hafði orð á því að ég hefði verið einn af aðalhöfundum búvörulaganna þegar þau voru samin og sett. Það var vissulega svo um tíma að það var æðimikið um það talað að ég væri aðalhöfundur búvörulaganna. Sérstaklega voru framsóknarmenn mikið að tala um að ég væri aðalhöfundur laganna rétt til að geta firrt sig ábyrgð af lögunum. En það hefur heyrst minna um þetta í seinni tíð eftir að menn hafa orðið varir við áhrif þessara laga í íslenskum landbúnaði og m.a. á kjör og afkomu bændanna í landinu. Þá hefur verið minna um það talað hver hafi verið aðalhöfundur þessara laga, og sem betur fer, því að það voru margir góðir menn sem unnu þar mikið og gott starf og þó að út af fyrir sig geti hólið verið hverjum og einum kærkomið eru til þau verk sem mönnum finnst svo vænt um að maður vill gjarnan að þeir eigi sem þeim hafa lagt lið. Þannig er það með afstöðu mína gagnvart þeim sem unnu að setningu búvörulaganna.

Auðvitað fer landbn. ítarlega yfir frv. og þá sérstaklega þær skýringar sem því fylgja sem eru reyndar annað mál. Ég vil ekki blanda þessu máli saman við þá umræðu og þær deilur sem hafa orðið á sl. hausti og nú á þessum vetri um greiðslu á afurðaverði til bænda. En ég get hins vegar ekki látið hjá líða, vegna þess að hér er verið að láta liggja að því að í þeim efnum hafi hlutur ríkisvaldsins verið bágur og ríkisvaldið hafi ekki staðið við sinn hlut, að ég hef fyrir því mjög margþætt rök að það hefur ríkisvaldið gert og a.m.k. alveg fullkomlega til móts við það sem eðlilegt er í þessum efnum.

Ég vil einungis minna á í þessu sambandi það sem kemur fram í fskj. I með frv. þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að sláturleyfishafar hafi fengið allt heildsöluverðið í afurða- og staðgreiðslulánum að frádregnu því sem þeir þurfa ekki að inna af hendi fyrr en við afhendingu vörunnar. Það er sjálfsagt best að það komi hér fram, þó að það standi einhvers staðar að stundum má satt kyrrt liggja, að staðgreiðslulánunum fyrir framleiðsluna árið 1986 var aldrei skilað aftur þannig að það var fyrst og fremst um að ræða útgáfu á nýjum skuldabréfum af hendi ríkisins og greiðslu á þeim mismun sem þar er á. Það mál sem ég flyt hér er að því leyti enn auðveldara viðfangs að það er verið að draga úr sauðfjárframleiðslunni. Þar af leiðandi minnkar fjármagnsþörfin, minnkar þörfin fyrir staðgreiðslulánin. Þar af leiðandi er auðveldara að fást við þetta af hendi ríkisvaldsins.

En það er líka kannski rétt til viðbótar við þetta að segja, og ég get ekki annað en vakið sérstaka athygli á því, að mér er alveg óskiljanlegt vegna hvers ekki á að standa við greiðslur til bænda eins og annarra aðila í þjóðfélaginu. Sú grg. sem hér er látin fylgja með og álit þriggja mjög þekktra lögmanna, sem þar er birt, tekur af öll tvímæli um að réttur bænda í þessum efnum er nákvæmlega sá sami og allra annarra. Hvað skyldi verða sagt við hv. þm. Skúla Alexandersson ef hann stæði ekki í skilum við þá sem skipta við hann? (SkA: Það hefur ýmislegt verið sagt um hann.) Það hefur ýmislegt verið sagt um hann, en ég hygg að honum hefði ekki verið hlíft við því að standa við greiðslur á afurðaverði eða launum. Auðvitað ekki. Og maður hefur heyrt býsna mikið talað um erfiðleika í ýmsum greinum. En ég held að það sé talið alveg sjálfsagt að inna lögboðnar greiðslur af hendi alveg fram í gjaldþrot. Ég kannast ekki við annað. Og það er ekki verið að tala um annað en að réttur bænda í þessum málum sé virtur sem annarra þjóðfélagsþegna. Ég legg enn fremur áherslu á að rekstrarskilyrði afurðastöðva sauðfjárafurða versnuðu ekki þótt greiðslum verði flýtt. Í grg. kemur fram að 98% af fjárþörfinni, sem þurfti að greiða framleiðendum, kom í gegnum afurða- og staðgreiðslulán. Það vantaði einungis 2% þar á og þá minni ég á að inni í þeim 2% er sá hluti af búnaðarmálasjóðsgjöldum sem dreginn er frá útborgun til bænda. Afurðastöðvarnar draga það frá útborgun til bænda og koma þau því ekki til greiðslu. Þessi greiðsla til bænda upp á hér um bil 100% í afurðalánum og staðgreiðslulánum þyngdi því ekkert á fyrir afurðastöðvunum, ekki undir nokkrum einustu kringumstæðum.

Það er hárrétt, og það kemur fram í grg., sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segir, að það geti verið umdeilanlegt með heildsölukostnaðinn að öðru leyti. Það sem ég bendi á er að 2/3 hlutar af heildsölukostnaðinum voru fjármagnaðir með afurðalánum og það er það sem talið er að almennt komi til greiðslu á þessum tíma. Eins og fram kemur í fskj. 1, sem ætti tæpast að vera umdeilanlegt, vantar einungis 5% á samkvæmt þeim viðmiðunum að ekki komi það fjármagn sem sláturleyfishafarnir þurfa að inna af hendi. Þetta kemur mér allt saman dálítið einkennilega fyrir sjónir vegna þess að ég hef spurst fyrir um það á tveimur stöðum í mínu kjördæmi hvernig niðurstaðan hafi verið á sláturreikningnum og þeim viðskiptum og ég fékk það svar að það lægi ekki fyrir vegna þess að það væri ekki búið að gera upp. Það er þá alveg nýbúið að gera upp þá reikninga. Hvernig geta menn vitað um þessa bágu útkomu þegar ekki er búið að loka bókhaldi? Ekki hafa menn fundið það í greiðslustöðunni nema peningarnir hafi lent eitthvað annað.

Ég vil hins vegar taka alveg skýrt fram í þessu efni að sú breyting á búvörulögunum sem frv. gerir ráð fyrir snertir ekki þessi deilumál. Ég tek það alveg jafnskýrt fram að þessi deilumál sem slík geta ekki undir nokkrum kringumstæðum orðið tilefni til að hindra framgang frv.

Mér þykir vert að minna á það hér, sem er ákaflega nauðsynlegt, að í mjólkurframleiðslunni hefur mjólkuriðnaðurinn náð gífurlega verðmætum árangri, bæði með tilliti til síns rekstrar og líka með tilliti til þess hversu fjölbreytni í vöruvali hefur mikið aukist. Ég tek sérstaklega undir það, sem hæstv. landbrh. sagði áðan, að afurðastöðvar í sauðfjárframleiðslu hafa haft svo mikinn annan vanda fyrir framan sig í birgðum og útflutningi að þær hafa ekki getað snúið sér eins að því að koma á meiri fjölbreytni í vöruvali og ekki getað haft sinn rekstur eins hnitmiðaðan m.a. að því leyti. Nú er þetta að breytast, birgðirnar eru að hverfa og þá er að taka til við önnur verkefni. Ég held að það sé alveg jafnnauðsynlegt fyrir afurðastöðvarnar að huga að því eins og að vera að berja sér yfir viðskiptunum við ríkisvaldið, m.a. á sl. hausti.

Herra forseti. Ég lýk nú máli mínu. Ég minni á það, sem ég sagði hér í upphafi, að ég vona að um þetta mál verði gott samkomulag í landbn. Ed. og á Alþingi. Það má líka til sanns vegar færa að það orki tvímælis fyrir stjórnarþm. að flytja mál sem snertir málaflokk þess ráðherra sem hann er í samstarfi við. Ég geri ráð fyrir því að það geti ýmsar hefðir gilt í þeim efnum. En þessu kveið ég ekki og allra síst eftir að hér hefur verið dreift þskj. sem er till. til þál. um innflutning loðdýra til kynbóta og tveir virðulegir samnefndarmenn mínir í landbn. Ed. flytja og felur í sér áskorun á landbrh. að hefja þegar undirbúning að árlegum innflutningi kynbótadýra til loðdýraræktar. Þessari þáltill. ætla ég að fylgja í Sþ. eins og vera ber og það getur ekki verið mikið við það að athuga hjá samstarfsflokknum þótt ég flytji jafnsjálfsagt mál og frv. á þskj. 516 þegar samflokksmenn ráðherrans, sem eiga að sjálfsögðu mjög innangengt með að koma sínum áhugamálum á framfæri, eru með þáltill. til að skora á ráðherra sinn að koma á innflutningi kynbótadýra í loðdýrarækt sem er hið þarfasta og ágætasta mál. Ég sé þess vegna ekki annað en það geti allir verið nokkuð vel sáttir í kringum þessa málafylgju og ég trúi ekki öðru en þetta mál fái greiða afgreiðslu á Alþingi.