03.02.1988
Efri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4163 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

212. mál, fangelsi og fangavist

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta misskilning sem ég tel að hafi komið fram hjá hæstv. dómsmrh. Ég ræddi um fíkniefnaneyslu og áfengisneyslu um leið og minntist á að mér hafi verið sagt og áætlað væri að 80–90% af þeim sem væru í fangelsum væru þar vegna þeirra vandamála sem tengdust vímu- og áfengisneyslu, þ.e. utan fangelsanna. Óminnishegrinn, sem oft gerir vart við sig þegar menn eru í þessu ástandi, gerir það að verkum að oft vita menn ekki hvað þeir gjöra. Það er fullyrt í mín eyru að einhverjir gisti fangelsin sem einmitt hafi framið sín afbrot í þvílíku ástandi og sýnir það hversu skelfileg aðstaða þeirra einstaklinga er.

Ég þakka þau svör sem komu fram hjá hæstv. dómsmrh. og ítreka að ég tel afar mikils virði að gert sé betur í málefnum geðsjúkra fanga og þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða og tel ég reyndar nauðsynlegt að skipuleg meðferðarþjónusta fari fram, ráðuneytið hafi frumkvæði í þessum efnum þannig að mönnum verði hjálpað til að komast frá því ástandi sem neyslu vímuefna fylgir.