04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

184. mál, frárennslis- og sorpmál

Þórður Skúlason:

Virðulegi forseti. Ég þakka flm. till. fyrir að hreyfa þessu máli hér í þinginu. Ég held að það sé full ástæða til þess. Þetta mál er þess eðlis að það brennur mjög á sveitarstjórnum vítt um landið. E.t.v. mætti álykta sem svo að vandi í sambandi við þennan málaflokk væri stærstur hér á höfuðborgarsvæðinu en ég held raunar að svo sé alls ekki. Þetta er ekki síður mikið vandamál víða úti um landið.

Hvers vegna er þetta vandamál ekki leyst? E.t.v. horfa ýmsir til þess að þar sé um að kenna áhugaleysi sveitarstjórnarmanna. Ég held hins vegar að það sé ekki það sem drepur þessu máli á dreif eða tefur framkvæmdir, heldur fyrst og fremst hitt og kannski sérstaklega það að sveitarfélögin vantar fé til þess að geta sinnt þessu verkefni sómasamlega, að eyða úrgangi og ganga frá sínum holræsamálum. Þetta vandamál er gríðarlega stórt t.d. þar sem ég þekki best til á Norðurl. v. Þar eru þessi mál í megnasta ólagi í öllum sveitarfélögum. Ég fullyrði það. Það er áhugi fyrir því hins vegar að leysa málið. Það hefur verið efnt til samstarfs um það að finna á því lausn. Ég hygg hins vegar að sökum fámennis og mikillar fjarlægðar milli sveitarfélaganna sé erfitt að finna viðunandi lausn og viðunandi samvinnugrundvöll í þessu efni.

Það er líka fleira sem kemur til. Víða í þessum sveitarfélögum vantar land. Þéttbýlisstaðirnir hafa ekki landrými til þess að koma sínu sorpi fyrir. Og þeir sem búa í nágrenninu og gætu e.t.v. tekið við því eru ekki sérlega ginnkeyptir fyrir því og lái ég þeim það ekki.

Það er tvennt til viðbótar sem mig langar til að nefna í þessu sambandi og hefur aukið verulega á þennan vanda að undanförnu. Þar á ég við í fyrsta lagi einnota umbúðir en notkun þeirra hefur farið mjög vaxandi. Ég held að fyllsta ástæða sé til þess fyrir Alþingi að huga að því hvort ekki er rétt að taka á þeim vanda sem slíkum umbúðum fylgir en hann eykur auðvitað mjög á vandann í sambandi við sorpeyðinguna.

Síðan er stórlega aukinn innflutningur á bílum sem auðvitað úreldast og verða ónýtir með tímanum. Ríkissjóður hefur verulega auknar tekjur af bílainnflutningi en því er öðruvísi varið með sveitarfélögin. Aukinn bílainnflutningur eykur einungis útgjöld sveitarfélaganna þar sem þau þurfa að sjá til þess að ónýtum bílum sé eytt og síðan þurfa þau auðvitað að sjá til þess að bílastæði séu næg. Aukinn bílainnflutningur og bílaeign landsmanna leiðir auðvitað líka til þess að götur og gatnakerfi þurfa meira viðhald og slitna meira en ella. Aukinn bílainnflutningur verkar því þannig að ríkissjóður hagnast á honum en sveitarfélögin bera af honum aukinn kostnað. Mér finnst að það gæti vel komið til álita í þessu sambandi að sveitarfélögin nytu í einhverju þeirra gjalda sem lögð eru á bíleigendur. Ég er ekki að mælast til þess að þau gjöld verði aukin heldur að hitt verði athugað, og mér finnst það koma vel til greina, að sveitarfélögin njóti í einhverju þeirra gjalda sem á bifreiðaeigendur eru lögð. Þá er ég sérstaklega með það í huga að sveitarfélögin bera kostnað af eyðingu ónýtra bíla. Síðan endurtek ég einungis þakkir mínar fyrir það að vakin var athygli á þessu brýna máli.