04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4215 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

184. mál, frárennslis- og sorpmál

Flm. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 507, 226. máli, sem er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela iðnrh. að láta gera áætlun um úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu.“

Flm. ásamt mér eru fjórir aðrir þm. Norðurl. e., þau Árni Gunnarsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Halldór Blöndal.

Eins og hv. þm. er eflaust enn í fersku minni áttu Norður-Þingeyingar við alvarlega erfiðleika að etja í raforkumálum nú í upphafi þessa árs og eiga reyndar enn. Ástandið var verst austan Öxarfjarðarheiðar, en rafmagn er leitt þangað yfir heiðina um háspennulínu sem er orðin mjög veikburða en segja má að norðausturhorn landsins sé nokkurs konar botnlangi út úr hinu hringtengda raforkukerfi landsins. Þess má geta að bilanatíðni háspennulínunnar hefur verið upp í fimm sinnum á ári ef skoðuð eru sjö síðustu ár. Það má því öllum vera ljóst að úrbóta er þörf í raforkumálum Norður-Þingeyinga.

Tveir kostir virðast koma til greina: Annars vegar virkjun Sandár í Þistilfirði og hins vegar lagning 66 kílóvolta línu út úr landsnetinu frá Kópaskeri til Brúarlands í Þistilfirði.

Hugmyndin um virkjun Sandár hefur verið til umræðu allt frá árinu 1949 þótt hún hafi ekki farið hátt í fjölmiðlum. Á síðasta ári vann Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns hf. frumhagkvæmniáætlun á 2 mw. virkjun í Sandá fyrir sýslunefnd Norður-Þingeyjarsýslu. Niðurstaða verkfræðistofunnar varð sú að virkjunin mundi standa undir sér þó svo að eftirfarandi atriði séu ekki metin virkjuninni til tekna:

1. Orkutöp í núverandi orkuflutningskerfi Landsvirkjunar og RARIK sem falla muni niður með tilkomu Sandárvirkjunar.

2. Með tilkomu Sandárvirkjunar yrði e.t.v. hægt að fresta endurbyggingu eða styrkingu núverandi. háspennulínu um einhver ár.

3. Aukið öryggi í afhendingu orku til kaupenda á umræddu veitusvæði.

4. Virkjunin nýtist að fullu á umræddu veitusvæði strax að lokinni gangsetningu.

Tekið er fram í niðurstöðum verkfræðistofunnar að virkjunin geti staðið undir sér þrátt fyrir lækkun orkuverðs um 3% á ári til næstu aldamóta, en þá yrði raforkuverð e.t.v. um 70% af orkuverði í janúar 1987, þ.e. ef áætlanir Landsvirkjunar í þeim efnum ná fram að ganga.

Á undanförnum árum hefur stofnkostnaður smávirkjana farið lækkandi erlendis. Vélaframleiðendur hafa þróað ódýrari og staðlaðar hverfilsamstæður sem hægt er að laga að mismunandi skilyrðum með hagkvæmum hætti. Virkjun Sandár byggist aðallega á því að virkja grunnrennsli árinnar þar sem illmögulegt virðist að búa til miðlunarlón. Rennslið hefur verið mælt í samfellt 19 ár, þ.e. frá ársbyrjun 1966 til ársloka 1984. Dagsmeðalrennsli yfir 99% heildartímans var meira en 5 rúmmetrar á sekúndu og meira en 8 rúmmetrar á sekúndu yfir 80% heildartímans. Ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á rennsli árinnar á vetrartíma, en þá truflar ís síritandi mælingu á vatnshæð árinnar. Þær mælingar sem gerðar hafa verið á vetrarrennsli benda þó til að vetrarrennsli sé ekki verulega minna en mælingar síritans gefa til kynna.

Það sem einkennir ána að öðru leyti eru þrepahlaup sem koma í hana nokkuð árvisst og skammvinn rennslisþurrð verður stundum að vetrarlagi. Það eru því líkur á að um rekstrartruflanir við virkjunina gæti orðið að ræða. Þrepahlaupin ættu þó ekki að valda vandræðum ef vel tekst til með hönnun yfirfalls.

Heppilegasti staður fyrir virkjun Sandár er Sandárfoss sem er um 15 metra hár. Nokkur stíflusvæði koma til greina fyrir virkjun á 300 metra kafla frá fossbrún og upp með ánni, en þar eykst fallhæðin um 5 metra. Æskilegt er talið að stífla um 250 metra ofan við fossbrún. Þar væri einnig hægt að búa til lón sem gæti jafnað dægursveiflur rennslis.

Eins og fram hefur komið virðast einkum tveir kostir koma til greina til úrbóta í raforkumálum þessa landsvæðis. Hinn kosturinn er lagning 66 kv. línu út úr landsnetinu frá Kópaskeri til Brúarlands í Þistilfirði. Á síðasta ári var lokið við að byggja þess konar línu frá Laxárvirkjun til Kópaskers. Flutningslínan sem liggur áfram frá Kópaskeri til spennistöðvar í Þistilfirði og notast er við í dag er 33 kv. og eru orkutöp umtalsverð á leiðinni. Flutningsgetan er um 5 megawött en þegar álagið verður meira en 4 mw. munu koma fram skekkjur á milli fasa.

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í grg. með tillögunni hafa Orkustofnun og Rafmagnsveitur ríkisins dregið niðurstöður verkfræðistofunnar um ágæti virkjunar Sandár í efa og telja að ekki sé útlit fyrir að þörf sé á nýrri virkjun inn á landskerfið á þeim árum sem nauðsynlegt væri að taka Sandárkerfið í notkun ef fresta ætti línulögn og því sé ekki útlit fyrir að hún sé þjóðhagslega hagkvæm. Hins vegar kemur fram í umsögn Rafmagnsveitnanna að út frá þeirra hagsmunum geti virkjunin orðið hagkvæm þar sem óbeinn hagnaður vinni upp það sem á vanti, að hún standi undir sér sem sjálfstæður rekstraraðili, þ.e. ef byggingarkostnaður yrði ekki hærri en áætlað er.

Mér er kunnugt um það að áhugi heimamanna er verulegur fyrir virkjun Sandár eins og sýnir sig í því að sýslunefnd hefur tekið málið í sínar hendur til þess að reyna að finna því framgang. Það er því mikils virði að niðurstaða fáist í þessu máli, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirra erfiðleika sem rafmagnstruflanir í Norður-Þingeyjarsýslu á nýbyrjuðu ári hafa haft í för með sér.