04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. iðnrh. um það að ég held að það geti naumast orðið til annars en góðs að Alþingi sinni þessu máli og sýni því áhuga, enda er ég meðflutningsmaður að þessari till. um gerð áætlunar um úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu. Hér er m.a. til umræðu heimasveit mín og kæmi nú úr hörðustu átt ef ég væri ekki hlynntur því og jákvæður í því að leita úrlausnar á erfiðu vandamáli sem er ótryggt rafmagn á þessu svæði. Ég legg á það áherslu að hér er verið að flytja till. um víðtæka úttekt á möguleikum til úrbóta í raforkumálum sýslunnar. Og þó að menn horfi þar talsvert til þess möguleika að virkjun Sandár í Þistilfirði gæti þar orðið liður í, þá legg ég eindregið til og beini þeim tilmælum til hæstv. iðnrh. að verði þessi till. samþykkt og vinna sett í gang þá verði allir kostir skoðaðir sem þarna koma til greina.

Ég get auðvitað ekki leynt því að ég er mjög spenntur fyrir þeim möguleika að sú gamla hugmynd að virkja Sandá nái fram að ganga. Ég held að það hafi alla tíð legið fyrir að þar væri um mjög hagkvæman kost að ræða, einfalda beina rennslisvirkjun í vatnsfalli sem hefur tryggt rennsli og jafnt. Hér er líka um virkjun af þeirri stærðargráðu að ræða að hún ætti að verða viðráðanleg bæði í uppbyggingu og rekstri og hvorki valda röskun né erfiðleikum sem ekki væru viðráðanlegir í því byggðarlagi sem um ræðir.

Það er einnig af ýmsum öðrum ástæðum hagkvæmt að fá virkjun á þessu svæði. Ég nefni það að lína frá Laxárvirkjun, háspennt lína frá Laxárvirkjun og norður á Bakkafjörð er auðvitað geysilöng leið og liggur yfir marga erfiða fjallvegi. Bara frá Kópaskeri og yfir á Bakkafjörð er um að ræða tvær heiðar, Öxarfjarðarheiði og Brekknaheiði sem hét til forna Helkunduheiði, en er nú daglega kölluð Brekknaheiði. Veður eru allrysjótt á þessum slóðum og ísingarhætta e.t.v. meiri en víðast hvar annars staðar eins og nýleg dæmi sanna. Þar er t.d. veðurfyrirbærið frostrigning algengari eða erfiðari viðfangs en víðast hvar annars staðar þegar tiltekin veðurskilyrði ríkja á þessum norðlægu slóðum og veldur allt erfiðleikum hversu traustar sem raflínur kynnu að verða í framtíðinni.

Ég skal reyna að útskýra hvers vegna það getur haft mjög hagnýtt gildi fyrir rekstraraðila á þessu svæði að hafa þarna virkjun þó svo að menn geti velt því fyrir sér frá sjónarhóli Landsvirkjunar eða frá þjóðhagslegu sjónarmiði hvort það sé æskilegt. Ástæðan er ofur einföld. Hún er sú að á meðan umframorka er til hjá framleiðendum er freistandi að koma henni í verð, selja hana og í því liggja hagsmunir Landsvirkjunar. En dreifiaðilinn situr við það að kaupa orkuna, við stöðvarvegg Laxárvirkjunar hygg ég að það sé núna, og annast dreifingu hennar eftir þessari löngu línu. Kaupandinn, dreifiaðilinn, í þessu tilfelli Rafmagnsveitur ríkisins, situr því uppi með orkutapið sem er umtalsvert í svona langri línu og kaupir það í raun og veru. Þannig að komi virkjun inn á miðja línuna sem keyri upp spennuna og dragi þar með úr orkutapinu þá skeður tvennt: Í fyrsta lagi er framleidd þar orka og ef það er gert með hagkvæmum hætti þá kemur það aðilanum til góða. En í öðru lagi minnka kaup dreifiaðilans á raforku sem tapast í langri línu. Þetta ætti að vera skiljanlegt ef menn hugleiða þetta augnablik. Þar af leiðir að hagsmunir annars vegar Rafmagnsveitna ríkisins og hins vegar Landsvirkjunar kunna að vera nokkuð mismunandi í þessu tilfelli eins og reyndar víðar.

Ég nefni annað dæmi sem mönnum er e.t.v. kunnugt. Það er sú góða og þarfa virkjun Krafla sem kemur mjög vel út í hringtengingu orkukerfisins, vegna þess að innkeyrsla 30 mw. í hringtenginguna á þeim stað sem Krafla er heldur auðvitað uppi spennu og minnkar orkutap og gerir rekstur heildarkerfisins hagkvæmari en ella væri. Það sama mundi eiga við kæmi inn virkjun af stærð Sandárvirkjunar á þessari löngu dreifilínu frá Laxárvirkjun og austur á Bakkafjörð.

Þetta er því önnur ástæða fyrir utan auðvitað öryggissjónarmiðið, að hafa þarna virkjun ef þess er kostur. Þetta hafa Rafmagnsveitur ríkisins að sjálfsögðu skoðað og gert sér grein fyrir. Og mér er kunnugt um það að á þeirra vegum hafa jarðfræðingar frá Orkustofnun kannað vatnsföll á þessu svæði og möguleikana á því að koma þar upp virkjun. Hvað Sandá varðar er þar um að ræða mjög einfalt mannvirki, beina rennslisvirkjun og það eina sem e.t.v. vantar ofurlítið á upplýsingar er um betri rennslismælingar sem eru ófullkomnar á þessu svæði.

Ég hygg að það sé þarft að taka þetta mál upp á þingi og sýna því áhuga hér. Þar breytir engu um þó ýmsir aðrir aðilar hafi haft á því áhuga og verið að vinna að því. Þess þá heldur. Enn betra að Alþingi leggist þar einnig á árar. Ég hygg að það eina sem þurfi að gæta að, og e.t.v. betur en gert hefur verið hingað til, sé að allir þeir aðilar sem hér eiga hagsmuna að gæta verði hafðir með í ráðum og að samstarf þeirra í millum verði sem best. Ég á hér við ráðuneytið, Rafmagnsveitur ríkisins, viðkomandi sveitarfélög og svo alla þá aðra aðila sem hagsmuna eiga að gæta.