04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4339 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessi umræða sem fram hefur farið hér í dag hefur verið um margt athygli verð. Kannski má segja með nokkrum sanni að hún hafi ekki verið rík að innihaldi í samræmi við tímalengd hennar, en vafalaust til þess fallin að menn geti dregið af henni nokkrar ályktanir.

Það liggur fyrir skýrt eftir þessa umræðu að þessi ríkisstjórn sem nú situr greip þegar í stað eftir að hún kom til starfa til aðhaldsaðgerða í efnahagsmálum til þess að koma í veg fyrir verðbólgu. Með miklu átaki hafa verið gerðar ráðstafanir til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, það hafa verið gerðar ráðstafanir til að ná jöfnuði á fjármagnsmarkaði og fylgt hefur verið stöðugleikastefnu í gengismálum.

Nú standa yfir kjarasamningar og þeir valda eðlilega nokkurri óvissu og flestir vænta þess að þeim ljúki á viðunandi hátt innan tíðar. Ýmsir talsmanna stjórnarandstöðunnar hafa látið þau orð falla hér í þessum umræðum að ekki mætti kenna aðilum vinnumarkaðarins um verðbólguna og ekki væri það stórmannlegt af hálfu stjórnarflokkanna að beina orðum sínum einungis til aðila vinnumarkaðarins þegar talað væri um nauðsyn þess að lækka verðbólgu. Undir þetta ætla ég að taka. Til þess að ná jafnvægi í efnahagsmálunum og ná niður verðbólgu þarf mjög víðtækar og alhliða aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum. Þessi ríkisstjórn hefur staðið þannig að verki. Hún lítur á kjarasamninga sem einn þátt í víðtækum aðhaldsaðgerðum, hún hefur höfðað til þeirra sem þar bera ábyrgð að fylgja þeirri stefnu og hún hefur fengið býsna góðar undirtektir í máli þeirra sem forustu hafa fyrir atvinnurekendum og launafólki. En aðgerðir stjórnarinnar hafa komið fram á öðrum sviðum og felast í því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, ná betra jafnvægi á fjármagnsmarkaðnum og árangur af þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið á því sviði er að skila sér. Það hefur verið sýnt hér með tölum í dag og ekki hrakið. Og það er alveg ljóst að gengisstefnan er einn meginþátturinn í því að tryggja hér jafnvægi og viðhalda kaupmætti. Við vitum það alveg nákvæmlega að ef gefið verður eftir á því sviði og farið inn í gamla farveginn að fella gengið þegar kröfurnar koma fram og hagsmunahóparnir heimta, þá lendum við inni í þessum gamla víxlgangi.

Auðvitað er það rétt að kostnaðarhækkanir hafa orðið hér innan lands. En eiga menn við þessar aðstæður að gefa alltaf eftir? Eiga menn sýknt og heilagt að gefa eftir og segja sem svo: Það er sama hvernig hlutirnir þróast hér innan lands, við strikum yfir þá reikninga með gengisfellingu og verðbólgu? Ég er ekki að varpa sök á einn aðila í þjóðfélaginu frekar en annan. Þegar kostnaðarhækkanir verða getur það stafað af því að ríkisstjórn beitir ekki nægu aðhaldi í peningamálum. Það getur stafað af offjárfestingarákvörðunum í atvinnulífinu. Það getur stafað af því að launafólk fer fram á og knýr fram launahækkanir umfram verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Það er ástæðulaust að ásaka einn aðila umfram annan. En að draga úr því aðhaldi sem stöðugleikastefna í gengismálum veitir að þessu leyti væri fullkomið ábyrgðarleysi og að segja sem svo: Það er nákvæmlega sama hvernig hlutirnir gerast, við leiðréttum þetta bara sjálfkrafa eftir á með því að lækka gengið.

Reyndar hef ég nú ekki skilið talsmenn stjórnarandstöðunnar þannig að þeir væru að biðja um þetta. Þeir segja samt: Það þarf að lækka gengið, en við erum á móti því að lækka gengið. Þeir segja: Það þarf aðrar aðgerðir en bara hófsama kjarasamninga. Þeir eru samt á móti því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Þeir eru samt á móti því að það séu gerðar aðgerðir á peningamarkaði til þess að ná jöfnuði. Þannig er nú eiginlega niðurstaðan af þessum umræðum að því er varðar málflutning stjórnarandstöðunnar.

Ríkisstjórnin hefur lýst alveg skýrri stefnu, komið þeim málum fram í framkvæmd og verk og þær ákvarðanir eru farnar að bera árangur. En við stöndum frammi fyrir margs konar vanda. Það er vandi í rekstri höfuðatvinnuveganna vegna þess að kostnaðarhækkanir hafa verið of miklar hér innan lands og vegna þess að viðskiptakjörin hafa verið að versna og kaupmáttur útflutningsteknanna að rýrna. En við leysum þetta ekki með því að slaka á aðhaldsaðgerðunum. Við þurfum að leggja nokkuð á okkur til þess að komast út úr verðbólgunni.

Þess vegna er það alveg ljóst að hér liggur fyrir skýr stefna í efnahagsmálum, aðhaldsstefna á öllum aðalsviðum efnahagslífsins. Það er verið að vinna að ráðstöfunum til þess að treysta stöðu útflutningsatvinnugreinanna og hér hefur verið greint frá ákvörðunum sem teknar hafa verið í þeim efnum og öðru sem er í undirbúningi. Allt eru þetta mikilvægir þættir og skipta sköpum um okkar framtíð. En við getum ekki vænst þess að við þessar aðstæður komist fiskvinnslan, svo dæmi sé tekið, í einu vetfangi samkvæmt meðaltalsútreikningum Þjóðhagsstofnunar, sem hér eru mikið nefndir, upp fyrir núllpunkt. Við getum ekki vænst þess að við eyðum viðskiptahallanum í einu vetfangi. En hann mundi rjúka upp á við ef við færum að stórauka hallareksturinn á ríkissjóði, draga úr aðhaldsaðgerðum á fjármagnsmarkaðnum og láta algjörlega skeika að sköpuðu hvernig kjarasamningar færu.

Tölur sýna að verðbólga mun fara lækkandi ef okkur tekst að halda áfram á sömu braut. Hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi það að verðbólgutölurnar í byrjun janúar væru yfir 50% ef sú tala væri yfirfærð á það sem kallað er ársgrundvöllur á máli hagfræðinga. Ef horfurnar, sem hér hefur verið greint frá varðandi verðbólguna í byrjun febrúar, eru um 1% eða rétt rúmlega 1% þá væri það einhvers staðar í kringum 15% verðbólga á ársgrundvelli og verðbólgufall úr rúmlega 50 niður í 15. Þetta er auðvitað einfalt dæmi og mánaðarútreikningar af þessu tagi segja ekki mikla sögu. En af því að hann notaði slíka viðmiðun ... (Gripið fram í.) Hv. þm. gerði það einnig — þá væri verðbólgan komin niður í 15%, en yrði nokkru meiri u.þ.b. 30% ef við notuðum þriggja mánaða viðmiðun að því er varðar verðbólguna í febrúar. Af þessu sjáum við að við erum að ná árangri, ekki nægjanlega miklum, við náum ekki nógu miklum árangri, en við erum að ná árangri og megum ekki gefa eftir í þessu efni.

Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að ríkisstjórnin hafi framið mikla synd með því að auka útgjöld og vissulega ber að hafa aðhald að útgjöldum. Þeir hinir sömu hafa þó staðið að stórauknum útgjaldatillögum við afgreiðslu fjárlaga. Í hverju er helsta útgjaldaaukningin fólgin sem ákveðin var með fjárlögunum? Er hún ekki fólgin í því að auka niðurgreiðslur á brýnustu lífsnauðsynjum almennings? Er hún ekki fólgin í því að hækka barnabætur, að hækka tryggingabætur, að verja auknu fjármagni til þess að lengja fæðingarorlof? Atti að hætta við þetta allt saman? Ber að skilja orð þeirra sem þessa gagnrýni báru fram á þann veg? (Gripið fram í.) Ég efast um það. Ég hygg hins vegar að þessi orð beri fremur að skilja á þann veg að maður eigi að taka mátulegt mark á þeim. (AG: Það réttlætir ekki skattheimtuna.) Það væri ábyrgðarleysi við þessa stöðu, vaxandi viðskiptahalla, að slaka á í ríkisfjármálunum vegna þess að það er ekki bara einn þáttur efnahagsstarfseminnar sem ber uppi baráttuna við verðbólguna heldur allir þættirnir. Þess vegna væri það ábyrgðarleysi.

Það tæki of langan tíma að víkja að máli allra þeirra sem hér hafa talað í dag. Það var athyglisvert að hv. 18. þm. Reykv. gat þess að útgjöld vísitölufjölskyldunnar hefðu á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hækkað um 5400 kr. að því er varðar matarkostnað og að lágmarkslaunin hefðu hækkað um 2100 kr. Hitt var þó enn athyglisverðara að talsmaður Kvennalistans, þess stjórnmálaflokks sem haft hefur hæst um það að nauðsynlegt væri að sinna meir félagslegum úrbótum, lengja fæðingarorlof og auka barnabætur, gat þess í engu að til viðbótar þessum 2100 kr. er aukning í barnabótum á sama tíma upp á 3600 kr. hjá fjögurra manna fjölskyldu sem hefur lægstu laun. Upp á 3600 kr. Nei, þegar kemur að þessum staðreyndum þá er það einskis metið. Það er litið svo á að það komi barnafjölskyldunum og lágtekjufjölskyldunum ekkert við og skipti hag þeirra engu máli. Þetta sýnir afar vel sýndarmennskuna í málflutningi þessa flokks.

Ég ætla aðeins að varpa ljósi á málflutning stjórnarandstöðunnar með því að vitna hér til ræðu þess þm. stjórnarandstöðunnar sem mér sýndist tala af mestri skynsemi úr því liði og reis hæst í málflutningi sínum úr máli stjórnarandstöðunnar, en það er hv. 7. þm. Reykn. Ég hygg að það sé óumdeilt að ræða hans var af hálfu stjórnarandstöðunnar sú sem bar af og reis hæst. Hann ítrekaði öll fyrri ummæli sín um það hversu hroðalegt það væri að leggja á þennan matarskatt eins og hann kallaði. Ég ætla ekki að fara aftur með öll þau lýsingarorð. Síðan lýsti hann stefnu flokks síns í skattamálum og sagði að það væri stefna sem byggði á því að leggja á matarskatt í tolli. Það mætti leggja matarskatt á alla innflutta matvöru, bara ekki innlenda. Niðurstaðan af þeim aðgerðum sem gerðar hafa verið af hálfu þessarar stjórnar er sú að skatturinn hefur verið greiddur niður af öllum mikilvægustu innlendu matvælunum. En eftir öll stóru orðin þá er það bara höfuðstefna að leggja matarskatt á allar innfluttar vörur, enda hafði formaður viðkomandi flokks tvívegis lagt fram frv. um það sem stjórnarandstaðan kallar matarskatt án þess að gera tillögur um nokkrar hliðarráðstafanir til þess að verja hag þeirra sem lakast eru settir, barnafjölskyldnanna í landinu og það er kannski ástæðan fyrir því að þau frv. náðu ekki fram að ganga á þeim tíma.

Hv. 7. þm. Reykn. sagðist taka undir það með ráðherrunum sem talað hafa að í gengismálum þýddi ekki að halda þannig á málum að við færum aftur inn í þennan víxlhækkunarfarveg á milli gengis og kostnaðarhækkana. Síðan tók hann fram að hann tæki algjörlega undir sjónarmið hv. 10. þm. Reykv. um að nú hefðu kostnaðarhækkanir orðið í útflutningsatvinnuvegunum og þess vegna yrði að lækka gengið og niðurstaðan varð sú að það ætti ekki að lækka gengið, heldur ætti að lækka gengið án þess að kalla það gengislækkun með því að breyta myntkörfunni. Þessi ræða lýsir mjög vel málflutningi stjórnarandstöðunnar hér í dag og er mjög gott dæmi um það en er auðvitað valin hér vegna þess að að mínu mati reis hún hæst af þeim ræðum sem fluttar voru af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Herra forseti. Ég skal ekki fyrir mitt leyti lengja þessar umræður mjög. Það liggur hér fyrir skýr stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar um aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum. Það liggur fyrir að við búum við ákveðinn vanda sem ekki er einfalt að feta sig fram úr bæði að því er varðar rekstur atvinnuvega, og uppgjör á vinnumarkaði, en forsenda þess að við náum árangri á því sviði er að við slökum ekki til í alhliða aðhaldsstefnu við núverandi aðstæður í efnahagsmálum.