08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4370 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið dálítið undarleg. Ég held að það sé samt ljóst að eitt eru menn

þó sammála um: Samkvæmt lögum gat hæstv. landbrh. í raun og veru ekkert annað gert en að gefa út reglugerð. Það liggur á borðinu. Þegar verið var að fjalla um frv. að þessum lögum var þetta sett inn auðvitað að yfirlögðu ráði vegna þess að reynslan hefur sýnt okkur að þetta frjálsræði með framleiðslu í þessum búgreinum gengur aldrei upp. Annaðhvort stórvantar vöruna eða þá að það er allt of mikil framleiðsla. Það er því ekki verið að hugsa um neytendurna þegar t.d. fást ekki nema eldgömul egg í búðunum. Þá er ekki verið að hugsa um neytendurna.

Ég var alveg sérstaklega undrandi á ræðu vinar míns, hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, því að ég ætlaðist til meira af honum en ýmsum öðrum sem hafa talað í þessu máli. En hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir skilur þetta mál til hlítar. Hafa menn ekki athugað það eða skilja menn það ekki, skilja hv. þm. það ekki hvernig komið er í Evrópu í sambandi við mengun á matvöru? Það var upplýst í útvarpinu í Bretlandi af fyrrv. orkumálaráðherra Bretlands að það hefðu orðið tugir kjarnorkuslysa á undanförnum 30 árum. Og svo vilja menn gera ráðstafanir til þess að fara að flytja inn matvæli frá þessum löndum, vitandi að það er ekkert heilbrigðiseftirlit að þessu leyti í landinu. Þannig standa menn að málum.