08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4372 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Þessar umræður hafa orðið skrautlegar eins og búast mátti við. Kjarninn í mínum málflutningi var sá að ég er andvígur því að settur sé kvóti á þessar framleiðslugreinar. Ég tel að þessi aðgerð verði til þess að hækka verð á þessum afurðum, binda þær í viðjar sem komi til með að verða mjög óhagstæðar þegar frá líður og er reyndar orðið nú.

Ég bendi líka á það að hæstv. síðasta ríkisstjórn gaf verkalýðshreyfingunni fyrirheit um að þetta yrði ekki gjört. Þess vegna hefði ég haldið að þetta hefði átt að bera upp í ríkisstjórn til samþykktar eða synjunar. Svo mun ekki hafa verið gert. Ég efast hins vegar ekki um að búvörulögin, sem við alþýðuflokksmenn reyndar greiddum atkvæði gegn, kveða á um að þetta sé heimilt.

Málið snýst aldeilis ekki um það hvort flytja eigi inn egg eða ekki. Málið snýst um það hvort binda eigi þessar framleiðslugreinar í kvóta, taka upp verðstýringu sem mun innan tíðar verða til þess að þessar afurðir verða dýrari en nokkru sinni fyrr.

Ég tel það mjög miður að svona skuli vera farið að. Þetta eru brigður við verkalýðshreyfinguna og þetta er árás á neytendur í landinu eins og Neytendasamtökin hafa reyndar látið í ljós. Ég vænti þess að menn skoði hug sinn og afturkalli þessa reglugerð svo frekara slysi verði forðað.