11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4465 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

249. mál, húsnæðismál á landsbyggðinni

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi nefndi að það væri ýmislegt óljóst að því er varðar kaupleigufrv. og þátttöku sveitarfélaganna í því efni. Ég ætla mér það ekki í stuttum fyrirspurnatíma að ræða kaupleigufrv. sem ekki er komið inn í þingið, en ég tel óhjákvæmilegt að nefna það að á vinnslustigi, þegar frv. þetta var í undirbúningi í félmrn., var það tvívegis kynnt fyrir Sambandi ísi. sveitarfélaga sem tók efni frv. mjög vel. Það var einmitt tekið tillit til ýmissa mikilvægra ábendinga sem fram komu hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga og við höfum skilið það svo að í megindráttum væri Samband ísl. sveitarfélaga sátt við frv. sem hefur verið í undirbúningi um kaupleiguíbúðir.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi að í byggðanefnd sem starfar á vegum Húsnæðisstofnunar ættu einungis sæti embættismenn. Mér er ekki nákvæmlega fullkunnugt um hvernig þessi nefnd er skipuð, en ég held að ég fari rétt með að í þessari nefnd, það eru fleiri nefndir starfandi á vegum Húsnæðisstofnunar, séu einmitt fulltrúar þeir sem eiga sæti í húsnæðismálastjórn og sem kosnir eru af hv. Alþingi. Ég vænti þess að með þeim tilmælum sem ég hef beint til byggðanefndarinnar muni hún skoða þær tillögur sem hafðar hafa verið uppi um þessi efni, m.a. þær tillögur sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, og ég tel ekki ástæðu til að tjá mig um þær sérstaklega á þessu stigi málsins fyrr en fyrir liggur álit byggðanefndarinnar sem hefur verið falið það verkefni að fjalla um þetta mál.