11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4486 í B-deild Alþingistíðinda. (3115)

242. mál, innflutningur loðdýra til kynbóta

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað þakka fyrir að þetta mál er komið inn á þing með þessum hætti þannig að um það verða sjálfsagt nokkrar umræður eins og þegar hefur komið í ljós og virðist ekki vera lát á því.

Þetta mál stendur þannig að það er ástæða til að huga til allra átta í því. Ég tek undir það sem hv. næstsíðasti ræðumaður sagði, að það er erfitt að meta gæði skinnanna eftir þessum útflutningi vegna þess hve mikill hluti af dýrunum verða lífdýr. Það eru auðvitað bestu skinnin, ekki einungis skinn læðanna heldur verður líka mikið hærra hlutfall högnanna að lifa á móti þeirri aukningu sem verður hvert ár.

Eftir því sem maður heyrir er brotalöm í þessu dálítl. Maður heyrir t.d. að á sumum búum sé hátt hlutfall af hvolpunum látið lifa og ekki nægilegt eftirlit með því. Á sumum stórum búum, að manni er tjáð, séu sérstakir menn til að flokka, ekki ráðunautar, enda sé selt langtum hærra hlutfall sem lífdýr en annars staðar. Þetta þýðir að það er hætt við því að þessum stofni okkar hnigni, ekki síst ef í mörg ár er haldið þannig á málum. Að þessu máli þarf líka að huga.

Það er enginn vafi á að umhirðan á þessum dýrum og á skinnunum er stórt atriði, hvernig verðmæti fást fyrir þau. Af því hef ég óbeint nokkra reynslu.

En þetta mál allt saman er þannig að það er ástæða til að huga að öllum þáttum þess. Stofnlánadeildin er búin að lána nokkuð mikið í þessa búgrein. Af þeim fjármunum sem eru útistandandi nú frá stofnlánadeild eru 39% í loðdýrarækt, þ.e. hjá bændum og í fóðurstöðvum loðdýra, og þetta skiptist nokkuð jafnt. Í minkunum eru tæplega 300 millj., en 336 millj. vegna refabúa.

Þetta segir okkur að þetta hefur farið mjög ört vaxandi á undanförnum árum. Eru refabændur nú, að ég hygg, upp undir 20 sem hafa gefist upp ef ég man þetta rétt. Það væri mikið áfall ef fleiri gæfust upp vegna þess hvernig málin standa. Mér er a.m.k. tjáð að þetta sé að hluta til vegna þess að sá stofn sem keyptur var í fyrstunni hafi ekki reynst á þann veg sem menn gerðu sér vonir um. Ég efast ekkert um að þetta er rétt. Þess vegna þarf að fá lífdýr inn og það er nauðsynlegt ef menn á annað borð ætla að halda þessu áfram sem ég sé ekki annað en að sé óumflýjanlegt eins og ástatt er.

Það er mikils virði samt að farið sé með gát að þessum innflutningi og að gerðar séu allar þær ráðstafanir sem tiltækar eru til þess að verði ekki ný slys í sambandi við að flytja sjúkdóma inn. En það þýðir ekki að það verði ekki að hefjast strax handa í því efni. Það er rétt að flytja ekki inn mjög mikið í einu. Það er meiri áhætta vegna þess að hætt er við því að það verði ekki eins mikil einangrun með því móti og ef það eru tvö til þrjú bú sem eiga að hafa með að gera þessi innfluttu dýr.

Ég fagna þessari till., en ég held að það sé fleira hægt að gera. Ég held að það verði að taka upp strangara eftirlit en mér er sagt að sé með lífdýratökunni. Spurning er líka hvort það sé ekki leið að reyna að fá bestu dýrin saman á bú af innlendum stofni til að fá þar upp líka góð dýr.

Ég tek ekki fullkomlega mark á því sem er í grg. þegar samanburður er gerður á gæðum dýranna — það er sagt að gæðameðaltalið á dönsku minkaskinnunum sé 100 en 76 hjá okkur — af þeim ástæðum sem við höfum komið hér inn á. Það er ekki marktækur mælikvarði þó það séu ábendingar fyrr en það er tekið svipað magn af okkar stofni sem lífdýr og er t.d. í Danmörku því það eru bestu skinnin sem eru heima fyrir.