16.02.1988
Efri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4605 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

276. mál, lögreglusamþykktir

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um lögreglusamþykktir sem er prentað á þskj. 575. Þetta frv. er samið af nefnd sem ég skipaði með bréfi 16. okt. sl. til að endurskoða gildandi lög um lögreglusamþykktir, en í þessari nefnd sátu þeir Ólafur Walther Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmrn., William Möller, héraðsdómslögmaður og fyrrv. fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, og Gunnar Eydal, skrifstofustjóri borgarstjórnar Reykjavíkur.

Um lögreglusamþykktirnar gilda nú þrenn lög. Eru það í fyrsta lagi lög um lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina frá 1890, lög um lögreglusamþykktir í löggiltum verslunarstöðum frá 1924 og loks lög um lögreglusamþykktir utan kaupstaðanna frá árinu 1985. Nú eru í gildi lögreglusamþykktir settar skv. lögum þessum er gilda fyrir alla kaupstaði og sýslur.

Meginástæðan fyrir því að nú er talið brýnt að endurskoða lögin um lögreglusamþykktirnar er sú að eins og vel er kunnugt voru gerðar verulegar breytingar á málefnum sveitarfélaganna með sveitarstjórnarlögunum sem samþykkt voru árið 1986. Nú er málum þannig komið að réttarstaða kaupstaða og hreppa er nánast hin sama. Sýslunefndirnar sem eiga að semja frv. til lögreglusamþykktar fyrir sýslur eins og nú er háttað löggjöfinni verða lagðar niður frá og með næstu áramótum. Þá verður ekki lengur til staðar stjórnvald til að semja lögreglusamþykktir fyrir sýslur og lögin gera eins og nú háttar ekki ráð fyrir lögreglusamþykkt í einstökum hreppum ef undan eru skildir löggiltir verslunarstaðir, en þá aðeins að því er varðar mjög takmörkuð viðfangsefni. Hin fjölmörgu lög um löggildingu verslunarstaða eru auk þess löngu úrelt orðin og hef ég reyndar flutt í hv. Nd. frv. til l. um að fella þau öll úr gildi.

Í grg. frv. er þetta frv. skýrt nánar. Ég vildi þó benda á hv. þm. til athugunar að í athugasemdum við einstakar greinar hefur því miður orðið prentvilla þegar vísað er til greina frv. þannig að tvíprentuð er tilvísun í 1. gr. þannig að það þarf að færa til raðtölu allra greina eftir 1. gr. og hækka um einn staf þannig að rétt sé tilvísað.

Með þessu frv. er, eins og ég sagði, gert ráð fyrir því að lögreglusamþykkt megi setja fyrir hvert sveitarfélag í landinu og þá er ekki gerður greinarmunur á hvort sveitarfélagið telst hreppur eða kaupstaður eða hversu fjölmennt það er. Af því leiðir að ekki er þörf á fleiri en einum lögum um lögreglusamþykktir og úr gildi falla hin eldri lög.

Um efnið, sem kveða á um í lögreglusamþykktum, er fjallað í meginatriðum í gömlu lögunum frá 1890 með ýmsum síðari tíma breytingum. Um mörg þessara atriða er nú fjallað í yngri sérlögum ýmiss konar og eru sum ákvæði gildandi laga því óþörf orðin. Í lögreglusamþykktum þarf að kveða á um ýmis atriði sem varða allsherjarreglu. Í frv. eru þau reyndar talin upp í 3. gr. og eru þau flest í gildandi lögum.

Í ljósi breytinga á löggjöfinni frá því eldri lög um lögreglusamþykktir voru sett má nú fella ýmis ákvæði brott. Hafa sérlög og ítarlegar reglugerðir um t.d. umferð, barnavernd, hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, byggingarmálefni, brunavarnir og lögreglumálefni nú leyst af hólmi ákvæði sem staðið hafa í lögreglusamþykktunum um langt bil ára. Eftir sem áður kann þó að vera æskilegt að hafa áfram ákvæði um sum þessara mála í lögreglusamþykktunum, t.d. um umferðarmálin, þótt þau þurfi ekki að vera eins ítarleg og í sérlögunum.

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að eitt atriði er nú tekið inn í frv. sem efnislega hefur til þessa ekki verið kveðið á um í lögreglusamþykktum heldur í sérstökum reglum. Þetta eru reglur um slit á skemmtunum. Með frv. er lagt til að efnisákvæði um þetta verði yfirleitt felld inn í lögreglusamþykktir, enda eiga reglurnar um þetta efni að mínum dómi þar vel heima með ákvæðunum um almenna reglu og skemmtanahald, þar á meðal reglum um opnunar- og lokunartíma veitingastaða.

Eins og kunnugt er varða ákvæði lögreglusamþykktanna fyrst og fremst reglu á almannafæri. Með almannafæri er þá átt við það svæði sem almenningur fer um og ætlað er til almenningsnota. Þetta er ekki skilgreint í þessum lögum, en hins vegar gert ráð fyrir því að í lögreglusamþykktunum verði slík skilgreining.

Í 2. gr. frv. er líka það nýmæli að þar er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um lögreglusamþykktir og hún verði fyrirmynd að lögreglusamþykktum sveitarfélaganna. Ákvæði í lögreglusamþykktum eru mörg hver samhljóða efnislega, en ýmis tilbrigði um framsetningu, ekki síst eftir aldri samþykktanna, eða upprunalegum aldri þeirra. Það er æskilegt að samræmi sé varðandi efni slíkra samþykkta þannig að sömu eða svipaðar reglur gildi í sömu atriðum um allt land. Til að stuðla að þessu er gert ráð fyrir því að samin verði slík reglugerð sem verði þá sveitarfélögunum til leiðbeiningar að því er varðar samningu sérstakra lögreglusamþykkta fyrir hvert þeirra.

Þá er í frv. gert ráð fyrir því að slík reglugerð verði látin gilda sem lögreglusamþykkt fyrir þau sveitarfélög sem ekki setja sér sjálf slíka samþykkt. Er í frv. gert ráð fyrir því að dómsmrn. semji slíka reglugerð sem fyrst eftir að frv. þetta er orðið að lögum.

Með því að í gildandi lögreglusamþykktum eru margvísleg ákvæði sem vegna nýrrar löggjafar eiga þar ekki lengur heima þykir rétt að leggja til að hinar eldri lögreglusamþykktir falli allar úr gildi einu ári eftir að slík reglugerð hefur verið birt. Þar með yrðu ákvæði lögreglusamþykktar samræmd og úrelt ákvæði úr gildi felld hvernig sem á stendur með samningu sérstakra lögreglusamþykkta í hverju sveitarfélagi. Eins og segir í 8. gr. frv. skal samræmd reglugerð ekki taka gildi fyrr en sex mánuðum eftir að hún er birt og hinar eldri lögreglusamþykktir falla svo, eins og ég sagði áðan, úr gildi sex mánuðum þar á eftir þannig að sveitarstjórnirnar eiga að hafa góðan tíma til að meta hvort þörf sé á að setja sveitarfélaginu eigin lögreglusamþykkt eða hvort hægt sé að láta reglugerð dómsmrn. duga.

Herra forseti. Ég hef gert nokkra grein fyrir frv. til. l. um lögreglusamþykktir. Meginástæða þess að frv. er fram komið eru þær breytingar sem leiðir af gildistöku nýju sveitarstjórnarlaganna og varða fyrst og fremst brottfall sýslunefndanna úr stjórnkerfinu. Jafnframt hefur svo tækifærið verið notað til að endurskoða ákvæði sem í megindráttum hafa staðið óbreytt í tæpa öld. Taka þarf tillit til breyttra þjóðlífshátta og breyttrar löggjafar á öðrum sviðum. Með ákvæðinu um reglugerð dómsmrn. um lögreglusamþykktir er stefnt að því að samræma efni þessara samþykkta, en þó án þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarstjórnanna til að setja sérstakar lögreglusamþykktir í samræmi við aðstæður á hverjum stað. Loks er á það að benda að frv. hefur í sér nokkra lagahreinsun þar sem úr gildi eru felld nokkur eldri lög, en ein og einföld lög koma í þeirra stað.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.