16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4612 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé nú engin spurning um að þessi aðgerð er nauðsynleg og óhjákvæmileg, að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt sem frestað var með bráðabirgðalögum. Spurningin er hins vegar hvort með þessu sé nóg að gert og ég held að flestir hljóti að telja að svo sé ekki.

Það er vissulega umhugsunarvert hversu fljótt veður skipast í lofti í undirstöðuatvinnuvegi okkar eins og hér hefur svo rækilega sannast. Flestar greinar sjávarútvegsins virtust standa með miklum blóma á fyrri hluta síðasta árs og það var því e.t.v. engin furða þótt menn sæju þar matarholu sem var hinn uppsafnaði söluskattur í sjávarútvegi. Sú leið kom vissulega til greina og umræðu að fella endurgreiðsluna alveg niður, þ.e. það sem eftir var þá á því ári. En niðurstaðan varð sú að fresta þessum greiðslum og það er nú komið í ljós að ekki veitti af þeim varnagla.

Við höfum því enn einu sinni verið minnt rækilega á það hversu sveiflukennd afkoman er í hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins og þess verðum við alltaf að minnast. Það er í rauninni undrunarefni hversu sein stjórnvöld hafa verið til skilnings í þessu efni núna. Í því sambandi hlýt ég að minna á nýsett lög um launaskatt á sjávarútveginn. Við kvennalistakonur og ýmsir fleiri, ég held öll stjórnarandstaðan varaði mjög við því að leggja þennan skatt á sem var gert illu heilli fyrir örfáum vikum og verður ekki til að bæta stöðu þessara greina. Við töldum hreint ekki ástæðu né efni til að leggja þennan skatt á sjávarútveginn með tilliti til erfiðrar stöðu í mörgum ef ekki flestum greinum fiskvinnslunnar og er nú ekki að vita nema stjórnvöld neyðist til þess að taka þá ráðstöfun sína aftur eins og hér er nú verið að leggja til með uppsöfnun söluskattsins.

Ég vildi minna á þetta áður en hæstv. ráðherra kemur hér upp og svarar þeim spurningum sem hv. síðasti ræðumaður bar fram og ég leyfi mér hér að taka undir.