16.02.1988
Neðri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4619 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

243. mál, aðgerðir í sjávarútvegi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Þessar blessaðar efnahagsráðstafanir sem margir þm. hafa spurt um voru afgreiddar fyrir jól og uppsafnaður söluskattur til sjávarútvegsins var hluti af efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og þó nokkuð dæmi í ríkissjóðsvandanum. En allt var lagt í sölurnar til þess að ná ríkissjóði hallalausum á einu ári.

Nú hefur hæstv. sjútvrh. hugsað sitt mál eftir að fjárlögin voru afgreidd og efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar höfðu hlotið samþykki og ákveðið það að málflutningur stjórnarandstöðunnar á réttum tíma við afgreiðslu þessara mála var og er holl ráð því hæstv. sjútvrh. hefur ákveðið að taka upp tillögur stjórnarandstöðunnar og endurgreiða uppsafnaðan söluskatt í staðinn fyrir að frysta hann.

Ég vil benda á að hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir spurði hæstv. sjútvrh. í sinni ræðu hér áðan um launaskattinn en fékk ekkert svar. Ég vona að hæstv. ráðherra svari hv. 10. þm. Reykn. Það eru fleiri þm. hér inni sem bíða eftir svari við þeirri spurningu.

En ég vil spyrja: Miðað við það að búið er að samþykkja efnahagsráðstafanir, búið að ganga frá fjárlögum, er þá virkilega hægt svona skömmu eftir að fjárlögin eru samþykkt að breyta þeim um fleiri hundruð millj. með því nú allt í einu að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt án þess að skera eitthvað niður á móti? Eru tekjurnar, eru skatttekjurnar, er 25% matarskatturinn svo veigamikil tekjulind að það sé hægt að skera niður fleiri hundruð millj. og endurgreiða án þess að nokkuð komi á móti í niðurskurði á tekjum?

Ég vil taka það fram að ég er með því að endurgreiða söluskatt til sjávarútvegsins. Ég eins og aðrir í stjórnarandstöðu talaði á móti því að frysta söluskattinn, við töluðum á móti launaskattinum og fögnum því að ráðherra skuli nú skyndilega skilja að við vorum ekki með neinn fjandskap í garð ríkisstjórnarinnar þegar við ráðlögðum henni að taka ekki þennan skatt eða frysta ekki uppsafnaðan söluskatt í ríkissjóði. Auðvitað styðjum við það að skatturinn verði endurgreiddur eins og til stóð í fyrri lögum. En það sem er að velkjast fyrir mér er sú staðfesting sem stjórnarandstaðan fær nú frá hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. sjútvrh. að tekjuhliðin, skattarnir, allar þessar hækkanir eru óþarfar. Það er undirstrikun á því að þessi skattpíning á fólkið er óþarfi ef það er staðreynd að nú sé hægt að endurgreiða fleiri hundruð millj. án þess að skera niður útgjöld á móti. Ég held að það sjái hver einn og einasti maður að það gengur.

Í a-lið 1. gr. er talað um fjárveitingu ársins 1987. Það þýðir að það hlýtur að eiga að frysta söluskattinn 1988, ég skil að þetta nær ekki til 1988, að frystingin á söluskatti til sjávarútvegsins er í gildi og sjávarútvegurinn fær ekki endurgreiðslu söluskatts 1988 svo ég bið hv. þm. um að hafa það í huga. Við erum bara að tala um hluta af árinu 1987. En a-liður 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjárveitingu ársins 1987 vegna endurgreiðslu söluskatts í sjávarútvegi skal varið sem hér segir: a. Til fiskvinnslufyrirtækja skulu renna 455 millj. kr. í hlutfalli við áætlaða uppsöfnun söluskatts í hverri vinnslugrein og í hlutfalli við fob-verðmæti útfluttra sjávarafurða hvers fyrirtækis eftir reglum sem sjútvrh. setur.“

Af hverju kemur það ekki fram hér hvernig á að áætla? Ætlar sjútvrh. bara að setjast niður þegar þetta frv. hefur verið samþykkt og búa til einhverja reglu sem hann ekki þekkir í dag? Þessi regla á að vera komin hér í plaggið sem liggur fyrir. (Sjútvrh.: Hún er þar.) Ja, ég sé hana nú ekki hérna. (Sjútvrh.: Í grg.) Já, grg. er ekki með þessu. Það getur vel verið að ég hafi hlaupið yfir það og þá skal ég draga það til baka. En það á að vera náttúrlega í frv. sjálfu hvernig skiptingin á að fara fram. Það á ekki að vera neitt óákveðið í sjálfum lögunum því að grg. fylgir ekki lögunum þannig séð áleiðarenda.

Síðan kemur b-liðurinn. Þar er talað um að helmingur þeirra 220 millj. kr. sem renna til Fiskveiðasjóðs Íslands árið 1987 skuli lagður inn á sérstakan bundinn reikning í vörslu Fiskveiðasjóðs. Og það heldur áfram: „Ráðherra getur að fengnum tillögum sjóðstjórnar sett reglur“ - hann þarf ekki að gera það - „um ráðstöfun fjár af þessum reikningi til niðurgreiðslu vaxta vegna stofnlána fiskiskipa.“ Ráðherra þarf ekkert að setja neinar reglur. Hann getur úthlutað úr þessum sjóði eftir því sem honum líst vegna stofnlána fiskiskipa. Og hvar eru flestöll fiskiskip byggð? Það er verið að beina söluskattspeningunum, sem á að endurgreiða þarna, inn í þennan farveg, til greiðslu vaxta eða stofnkostnaðar lána erlendra skipasmíðastöðva. Þar eru flest skipin byggð. Hérna hefði ég viljað taka það fram að það mætti bara alls ekki nota sjóðinn nema til innanlandsþarfa. Ég vil fyrirbyggja það að við séum að halda uppi með söluskattsendurgreiðslum vinnumarkaðnum einhvers staðar í útlöndum, venjulega í Noregi. Sjóðirnir, Fiskveiðasjóður o.fl., fara flestir til útlanda. Ég fékk engan hljómgrunn þegar ég vildi takmarka það að íslenskir peningar færu til erlendra skipasmíðastöðva. Ég fékk bara enga áheyrn á þeim tíma og ég vil gera það að ósk minni hér, því að það þýðir ekkert að koma með brtt. við þessi frv., en ég vil gera það að ósk minni hér að sú nefnd sem fær frv. til athugunar - ef það er þá ekki of seint, þetta er 1. umr., frv. á eftir að fara í nefnd - að sú nefnd skoði frv. mjög vel, að komið verði í veg fyrir að þessi endurgreiðsla á söluskatti verði notuð til þess að viðhalda vinnumarkaði erlendis og sniðganga íslenskar skipasmíðastöðvar í þessu tilfelli.

Síðan kemur c-liðurinn sem ég er líka á móti, ég geri athugasemdir við hann, um að Útflutningsráð Íslands skuli á árinu 1987 fá 25 millj. kr. af endurgreiddum söluskatti til sjávarútvegsins. Þetta er fjárlagadæmi. Ef við erum að tala um að endurgreiða söluskatt til sjávarútvegsins þá förum við ekki að ráðstafa hluta af endurgreiðslunni eins og við séum með fjárlagadæmið. Það er fjvn. sem ákveður hvað hver sjóður á að fá. Það er ekki endurgreiðsla söluskattsins sem á að viðhalda starfsemi Útflutningsráðs Íslands. Það er langt frá því. Hér er verið að fara aftan að hlutunum.

2. gr. og frv. út fjallar svo um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins sem á ekkert heima í þessu frv. Það á ekkert að tengja það við frv. um endurgreiðslu á söluskattinum. Endurgreiðsla á söluskattinum er samþykkjanleg af öllum og hinum verðjöfnunarsjóðnum er stillt upp sem skottinu á skepnunni til þess að fá það samþykkt um leið. Það á ekki að vera að beita brögðum eða sniðugheitum til þess að fá mál samþykkt. Þetta er alveg sérfrv. Það er hægt að setja fyrirsögnina við 2. gr. og hafa það bara sérfrv. og ræða það sérstaklega.

Ég vil vara Alþingi við svona vinnubrögðum. Þetta eru engin vinnubrögð. Þetta eru tvö frv. sem eru fjarskyld og eiga alls ekki að vera í eins konar bandormi þó að þau séu bara tvö. Ég vara við þessu á sama hátt og ég vil endurtaka að það er fróðlegt að fá upplýsingar um það a.m.k., ég vil endurtaka að ég skil ekki, og þá hugsa ég sem fyrrv. fjmrh., hvernig hægt er að taka frá í tekjum ríkissjóðs fleiri hundruð millj. kr. án þess að skera eitthvað niður á móti nema það sé komið í ljós að allar þær hækkanir og nýir skattar sem ríkisstjórnin hefur fengið samþykkt gefi svona miklar tekjur umfram það sem áætlað var.