17.02.1988
Neðri deild: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4685 í B-deild Alþingistíðinda. (3233)

256. mál, almannatryggingar

Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka stuðningsorð sem fallið hafa um umrætt frv. Hv. 13. þm. Reykv. vil ég segja það að ég fékk mínar upplýsingar hjá Tryggingastofnun og mér var ekki tjáð að það væri annað greitt en þetta sem tilgreint er í grg. svo að þess vegna er það ekki fyllra þar. Upplýsingarnar voru frá Tryggingastofnuninni.

Við höfum áður heyrt um endurskoðun á tryggingalögum. Hún er víst búin að vera nokkuð lengi í gangi og þó að verið sé að flýta því máli eins og sagt hefur verið þá getur nú liðið ár og dagur þangað til þær endurbætur sjá dagsins ljós svo að ég held að bæði þessi leiðrétting og hagsbót fyrir þá hópa sem um er að ræða og eins fleiri sem hafa komið fram í tillögum hér, ég held að það sé ekkert á móti því að þær nái fram að ganga á þessu þingi. Það er hægt að fella þær inn í endurskoðunina þegar hún er það langt komin að farið verður að leggja fram frv. til nýrra tryggingalaga, en ég held að ýmsum þessum hópum sem rætt hefur verið um liggi töluvert á því að fá sinn hag réttan svo það er full ástæða til að þau mál gangi fram sem hafa verið lögð fram í því skyni.

Ég hef held ég ekki fleiru við þetta að bæta öðru en því að ég þakka þeim sem hafa látið falla orð um að þeir styðji þetta frv. og ég vona að það fái góðan framgang.