22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4733 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

16. mál, kostnaður við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríksson

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. Félagar mínir og aðrir þeir sem hér hafa talað hafa sagt flest af því sem ég vildi sagt hafa um þetta mál. Ég vil einungis benda hv. þingheimi á þá till. til þál. sem liggur hér fyrir þinginu á þskj. 231 frá þm. Alþb., um rannsókn á ábyrgð á umframkostnaði við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Ég fæ ekki betur séð en allir flokkar aðrir en Sjálfstfl. séu sammála um það hér að þetta mál sé langt utan við og ofan við allt sem áður hefur þekkst í meðferð fjármála hér í landi. Sjálfstfl. hefur hins vegar svarað eins og honum sýnist og ég vil vekja athygli hv. þingheims á því að einungis einn fyrrv. ráðherra Sjálfstfl. fékk umboð til að starfa áfram í þessari ríkisstjórn, allir hinir voru reknir en hv. fyrrv. utanrrh. var látinn halda áfram og það hlýtur að vera vegna umsjónar hans á byggingu flugstöðvar í Keflavík.

Ég held, herra forseti, að ástand mála hér í okkar landi sé á þann veg nú að við þolum ekki fleiri ævintýri á borð við þetta. Þess vegna vil ég taka undir með öllum þeim sem krafist hafa þess að í eitt skipti fyrir öll verði girt fyrir að svona lagað geti átt sér stað. Vitaskuld þarf rannsóknarnefnd að verða sett á laggirnar til að fara ofan í þetta mál alveg niður í grunn. Það þarf líka að kanna hverjir höfðu hagsmuna að gæta við byggingu þessa húss, hverjir fluttu inn það sem til þess var keypt, hver voru tengsl þeirra aðila við aðra þá sem höfðu með byggingu þessa húss að gera o.s.frv. Ég held að þetta mál sé af þeirri stærðargráðu að hér þurfi að fara ofan í saumana á flíkinni allri. Þess vegna vil ég mælast til að þingið verði við því að rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar til að kanna þetta mál algjörlega til hlítar.