22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4746 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

279. mál, greiðslusamningar vegna skólamannvirkja

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa stuðningi við þáltill. sem hér er til umræðu, flutta af hv. 4. þm. Suðurl. Ég geri það fyrir minn hlut. En ég geri það einnig í umboði annarra vegna þess að svo háttar til að í fræðsluráði Suðurlands höfðu menn spurnir af þáltill. fyrir fáeinum dögum. Þar var fundur á föstudaginn var og þar var samþykkt tillaga um það að lýsa fylgi við þá stefnumörkun sem felst í þáltill. Mig langar að koma því á framfæri hér við hv. Alþingi að þessi till. var þarna samþykkt.

Ástæðan fyrir því er vafalaust augljós. Í þessu fræðsluumdæmi, eins og víðar um landið, hefur sagan verið sú sama, að ríkið hefur dregist mjög aftur úr í viðskiptum sínum við sveitarfélögin að þessu leyti.

Þó er því ekki svo varið að lagasetninguna skorti í þessu efni. Allt frá 1967 hafa verið í gildi lög sem ættu að duga í þessu efni. Og mig langar, með leyfi hæstv. forseta, til að vitna í þessa löggjöf, svona mönnum til glöggvunar, 14. gr. laga nr. 49/1967. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárveitingar ríkisins til skólamannvirkja, aðrar en til undirbúnings framkvæmdum, skiptast á 2–4 ár vegna hverrar framkvæmdar. Heildarframlag ríkissjóðs til hverrar framkvæmdar skal vera til reiðu innan fjögurra ára frá því að fyrsta fjárveiting er veitt, önnur en fjárveiting til undirbúnings, sbr. þó 8. gr. [þetta mun þó vera breyting frá löggjöfinni frá 1973] og greiðist með sex greiðslum eftir því sem verkinu þokar áfram, þannig: 20% þegar ráðuneytið hefur samþykkt að verk megi hefja, 10% þegar botnplata er steypt, 20% þegar bygging er fokheld, 25% þegar múrverki er lokið og bygging er tilbúin undir tréverk, 20% þegar úttekt af hálfu ráðuneytisins hefur farið fram og 5% þegar skóli er fullbúinn til notkunar, hús og búnaður.“

Málið er sem sagt þannig að löggjöfina skortir ekki. En af ýmsum ástæðum hefur þessi löggjöf ekki verið framkvæmd. Í því fræðsluumdæmi þar sem ég þekki best til, á Suðurlandi, var málum þannig komið fyrir tveimur árum þegar fræðsluráð Suðurlands kannaði þessi mál sérstaklega ofan í kjölinn að á milli 25 og 30 verk voru í gangi í þessu umdæmi án þess að frá samningum væri á fullan hátt gengið. Ég býst við að málum sé svipað komið víða um land. Þess vegna var það sérstaklega í tíð hæstv. fyrrv. menntmrh., Sverris Hermannssonar, að hann tók upp að gera svonefnda fasta greiðslusamninga og þeir munu aðeins vera átta á landinu, sex á grunnskólastigi og tveir á framhaldsskólastigi. Mig langar að það komi hér fram við umræðuna hvar þessir samningar eru.

Það er í fyrsta lagi í Kópavogi. Þar er fastur greiðslusamningur, grunnskólasamningur varðandi þrjá skóla, uppgjörssamningur vegna grunnskólanna í Kópavogi. Það er vegna Snælandsskóla, Digranesskóla og Hjallaskóla.

Í annan stað er það greiðslusamningur vegna grunnskóla Bessastaðahrepps.

Í þriðja lagi vegna grunnskólanna á Akranesi. Þar er um að ræða tvo skóla: Grundaskóla og Brekkubæjarskóla.

Í fjórða lagi er um að ræða íþróttahús í Stykkishólmi.

Í fimmta lagi íþróttahús á Ísafirði.

Og í sjötta lagi uppgjörssamningur vegna skólanna á Akureyri, Síðuskóla og Lundarskóla.

Síðan er um að ræða tvo skóla á framhaldsskólastigi. Í Neskaupstað vegna heimavistar Verkmenntaskóla Austurlands og á Selfossi vegna Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Þessir samningar sem fyrrv. menntmrh. hafði forustu um að láta gera eru í rauninni sá vegvísir út úr þeim vanda sem hér er um að ræða. Og þegar fjárlög voru í undirbúningi nú seinast hér á hinu háa Alþingi, þá leit málið þannig út í stórum dráttum: Samkvæmt upplýsingum deildarstjóra byggingardeildar menntmrn. voru óuppgerðir samningar ríkis og sveitarfélaga að þessu leyti að upphæð 1 milljarður 400 millj. kr. Þá lagði deildarstjóri ráðuneytisins til að þetta mál yrði tekið þeim tökum að á fjárlögum þessa árs yrði gert ráð fyrir 506 millj. kr. til þess að þurrka þennan halla út á u.þ.b. þremur árum með því í leiðinni að fást við þann vanda sem myndaðist á þeim þremur árum. Niðurstaðan varð sú að Alþingi ákvað 336 millj. kr. af þessum óskuðu 506 millj. Þarna vantaði þess vegna töluvert upp á að að væri staðið eins og þurft hefði í þessu efni.

En ég vil ekki lengja þessa umræðu, hæstv. forseti, aðeins ítreka fylgi mitt við þáltill. hv. flm. og jafnframt það að þetta mál er í sjálfu sér ekki stórt til úrlausnar fyrir hv. Alþingi, a.m.k. ekki miðað við milljarðinn þann sem mest hefur verið ræddur hér fyrr í dag.