22.02.1988
Sameinað þing: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4747 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

279. mál, greiðslusamningar vegna skólamannvirkja

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka flm. þessa tillögu, tillögu sem beinir athygli að því ástandi sem víða ríkir í sveitarfélögunum þar sem ríkissjóður skuldar stórfé a.m.k. miðað við veltu smærri sveitarfélaga. Eins og kemur fram í grg. eiga mörg sveitarfélög í verulegum erfiðleikum með framkvæmdir við skólamannvirki og reyndar ekki einungis þau heldur einnig íþróttahús, sundlaugar, félagsheimili og barnaheimili og dagvistir, þar sem ríkið hefur ekki staðið við sitt.

Fyrri ræðumenn hafa að vísu drepið á eitt og annað af því sem ég ætlaði að segja svo ég ætla ekki að fara út í endurtekningar til að draga ekki umræður á langinn en mig langar að nefna dæmi um hvernig þessi skuldamál ríkisins við sveitarfélögin geta komið út.

Um sl. áramót skuldaði ríkissjóður sveitarfélagi á Norðurlandi vegna skólabyggingar upphæð sem var hærri en allar útsvarstekjur sveitarfélagsins á ný liðnu ári og um þessi áramót lá ekkert fyrir um greiðslusamning né greiðslu nema óveruleg upphæð á fjárlögum. Hvernig eiga sveitarfélög að geta gert fjárhags- og framkvæmdaáætlanir við slíkar aðstæður? Ég held að hver maður sjái að slíkt er mjög erfitt að gera svo nokkuð sé í raun á þeim að byggja. Slíkt ástand hlýtur að orsaka samdrátt í allri uppbyggingu í sveitarfélögum og gera þeim mjög erfitt fyrir.

Flm. gerði mjög góða grein fyrir erfiðleikum sveitarfélaganna vegna óeðlilegrar stöðu þessara mála þar sem ekki hefur verið tekið á þessum málum með markvissum hætti og hvergi sést að slíkt sé fyrirhugað. Það er ekki ljóst nú hver kostnaðarskipti sveitarfélaga og ríkis kunna að verða í framtíðinni en það er ljóst að það verður bæði að gera samninga um þær byggingar sem nú eru í gangi og jafnvel lokið, en einkum verður þó að sjá til þess að ekki verði farið af stað með framkvæmdir í framtíðinni nema bindandi samningar hafi þegar verið gerðir. Því styð ég þessa tillögu og tek undir með hv. flm. um nauðsyn þess að þessum málum sé komið á hreint í eitt skipti fyrir öll.