23.02.1988
Neðri deild: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4788 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Mér finnst endilega að menn þurfi að rifja upp hvers vegna við fluttum deildarfundi til í þinginu. Við vorum með þá á þeim dögum sem þingflokksfundir voru jafnframt þannig að við höfðum ekki tíma fyrir deildarfundi nema á milli klukkan tvö og fjögur á mánudögum og miðvikudögum. Þeir voru fluttir til til þess að við hefðum meiri tíma fyrir deildirnar og þyrftum ekki að ljúka deildarfundum klukkan fjögur. Ég kannast ekkert við það að tímamarkið hafi verið sett við klukkan fimm og hef heldur ekki heyrt hæstv. forseta gefa neitt loforð um að fundi skuli ljúka klukkan fimm í dag. Ég kannast ekki við það.

Ég skil ekki í hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að vera að ásaka menn hér um valdníðslu ef það á að halda þessari umræðu áfram. Hann verður að færa betri rök fyrir sínu máli ef hann ætlar að kalla það valdníðslu ef á að halda áfram stundarkorn enn og hann einn á mælendaskrá. Ég veit hins vegar um einn þm. sem ekki gat setið hér nema til klukkan hálffjögur í dag og hann fór fram á það við hæstv. forseta að hann frestaði umræðunni. Ég veit vel hvað sá hv. þm. ætlaði að gera upp í ræðustól og jafnframt að hann getur vel geymt það til 2. umr. þannig að þess vegna þarf ekki að fresta umræðunni. Og ég hefði mótmælt því ef hæstv. forseti hefði orðið við þeirri beiðni. Mér þykja þetta sem sagt heldur leiðinleg vinnubrögð af hálfu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar.

Ég gat þess í upphafi minnar ræðu, þegar ég var að gera grein fyrir hvers vegna nýtt frv. væri flutt, að við vildum gefa þm. allan kost á því að ræða þetta nýja frv. frá grunni og þess vegna væri ný 1. umr. í raun og veru um sama mál. Þetta var þó þeim mun meiri óþarfi, það skal ég viðurkenna, þar sem ekki einn einasti ræðumaður, sem kvaddi sér hljóðs í 1. umr. um 42. mál hér fyrir jólin, ekki einn einasti ræðumaður talaði um orðalag frv., ekki einn. Það var eingöngu talað um hvort það ætti að leyfa innflutning á áfengum bjór eða ekki og framleiðslu á honum hér heima en ekki með hvaða hætti það yrði gert í lögum. Þess vegna má alveg segja að 1. umr. um þetta mál sé löngu lokið.

Ég á ekki von á því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson eða einhverjir aðrir andstæðingar bjórsins ætli að fara að ræða hér um orðalag greina frv. sem ég mælti fyrir í dag. Af þeirri ástæðu sé ég ekki nokkra ástæðu til að fresta umræðunni.

Menn hafa auðvitað tækifæri til þess eins og venja er við 2. umr. málsins að ræða hvernig nefndin hefur afgreitt það. Þá liggja fyrir nál. Þau liggja af eðlilegum ástæðum ekki fyrir núna vegna þess hvaða leið meiri hl. nefndarinnar valdi - og raunar ekki meiri hl. heldur voru allir nefndarmenn sammála um þessa málsmeðferð, þ.e. að leggja til hliðar 42. mál.

Ég hvet hæstv. forseta til að halda þessum fundi áfram. Það er hreint ekkert sem kallar á að umræðunni verði frestað núna, ekki einu sinni það að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson kann að þurfa að bregða sér frá.