25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4864 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

273. mál, málefni loðdýrabænda

Fyrirspyrjandi (Ríkharð Brynjólfsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 572 hef ég ásamt þeim hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Margréti Frímannsdóttur leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um málefni loðdýrabænda. Fsp. er í tveimur liðum og hljóðar svo:

„1. Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar, eða hafa verið ákveðnar, til að styrkja stöðu loðdýraræktar, einkum refaræktar, í kjölfar verðfalls á skinnum undanfarið?

2. Eftir hvaða reglum hefur verið farið við úthlutun leyfa til loðdýraræktar og eru fyrirhugaðar breytingar á þeim í ljósi breyttra aðstæðna?"

Það er óþarfi að fjölyrða um þann vanda sem refabændur eru í vegna verðfalls á skinnum þannig að verð skinnanna nægir engan veginn fyrir framleiðslukostnaði og má raunar fullyrða að þessi sama staða er uppi í öllum helstu framleiðslulöndum refaskinna. Því er spurt til hvaða ráða menn hyggist grípa um málefni þessarar búgreinar.

Í seinni lið fsp. er spurt um reglur um úthlutun leyfa. Í lögum og reglugerð um loðdýrarækt er bundið að leyfi landbrn. þurfi til stofnunar loðdýrabús. Þar er einnig tilgreint hvaða upplýsingar þurfi að fylgja umsókn, en þar eiga að vera ítarlegar áætlanir um byggingu og rekstur búsins og jafnframt upplýsingar um menntun og reynslu þeirra sem sjá eiga um hirðingu dýranna.

Nýlega hafa komið fram opinberlega athugasemdir í þá átt að landfræðileg dreifing loðdýrabúa sé óhagkvæm og ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til fóðuröflunarmöguleika við leyfisveitingar sem leiðir svo aftur til hærra fóðurverðs. Í lögum og reglugerð, sem raunar eru samhljóða um þetta efni, þ.e. hvernig skuli standa að leyfisveitingum, eru engin ákvæði um hvernig beri að meta þær upplýsingar sem fylgja umsókn nema leita skal umsagnar Búnaðarfélags Íslands.

Þær athugasemdir um dreifingu loðdýrabúa sem að framan greinir gefa tilefni til að spyrja hvaða reglur hafi verið notaðar um úthlutun leyfa og hvort sú reynsla sem fengist hefur undanfarin missiri gefi tilefni til þess að endurmeta þær vinnureglur.