25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4878 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

259. mál, fiskvinnsluskólar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Þar sem ég var einn flm. að tillögu þeirri sem hér var samþykkt á sínum tíma um fiskvinnsluskóla á Siglufirði með fullum stuðningi alls fjórðungsráðs Norðlendinga á þeim tíma og allir þm. Norðlendinga fluttu þá till. sem samþykkt var, þá finnst mér rétt að benda á að auðvitað eigi að snúa sér að því að framkvæma þá tillögu fremur en hefja aðgerðir á öðrum stöðum þó ég sé ekki að öfundast út af því að vel sé að verki staðið annars staðar. Ég tek þess vegna undir með flm. fsp. að það sé mjög brýnt að aðilar snúi sér að því að koma upp braut, má það heita mín vegna, eða skóla í Siglufirði því að þar eru aðstæður þannig að þar eru síldarverksmiðjur, þar er niðurlagning, þar er fullkomið frystihús, mikil útgerð, bæði togara, báta og trillubáta, og þess vegna eðlilegt að þar sé slík braut.

Ég vil geta þess að þegar þetta mál var til umræðu fór þáv. menntmrh. til Siglufjarðar til að skoða aðstæður. Það var boðið upp á Hótel Hvanneyri, sem þar er, sem heimavist og aðstöðu og þar var hægt að fá húsnæði og alla aðstöðu með mjög góðum kjörum og er enn hægt.