25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4888 í B-deild Alþingistíðinda. (3402)

270. mál, leigukjör Stöðvar 2

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svör hans. Það kemur í ljós, eftir því sem ég best fæ séð, að leigukjörin eru vægast sagt mjög hagstæð Stöð 2. Það er eins og að leigja nokkuð stóra íbúð í Reykjavík, sú mánaðargreiðsla sem Stöð 2 þarf að greiða fyrir þann kostnað sem landsmenn allir hafa tekið þátt í að byggja upp.

Ég fagna því ef aðrar stöðvar eiga að fá sömu kjör, en mér fannst ráðherra aðeins draga úr þegar hann segir: ef til staðar væru ... Ég er nefnilega ekki alveg viss um að það sé svo einfalt að bæta við nýrri stöð, eins og hv. þingflokksformaður Borgarafl. kom inn á hér áðan, og væri fróðlegt ef ráðherra vildi kannski svara þeirri spurningu sem hann lagði hér fram.

Sé það hins vegar hægt má benda á að þeir afruglarar sem notendur Stöðvar 2 nú eiga, þeir eiga þá sjálfir, geta tekið við nýrri stöð og jafnvel fleiri en einni þannig að þar mundi sparast strax sá stofnkostnaður sem liggur í að kaupa afruglara. Einnig tel ég að Stöð 2 hefði virkilega gott af því að fá samkeppni inn á hinn frjálsa markað þó ekki væri nema til þess að fækka þá endursýningum sem eru í dag þrjár á hverri mynd sem gerir að hver bíómynd á Stöð 2 er sýnd fjórum sinnum.