25.02.1988
Sameinað þing: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4923 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

294. mál, utanríkismál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Menn hljóta ávallt að veita sérstaka athygli skýrslu nýs utanrrh., sjá hvaða mál hann hyggst setja á oddinn í þessum mikilvæga málaflokki og hvaða áherslu hann leggur á hin ýmsu atriði er snerta samskipti okkar Íslendinga við aðrar þjóðir.

Auðvitað mótast sérhver skýrsla af stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem starfar þá hún er gerð. Það er skemmst frá því að segja að skýrsla núv. hæstv. utanrrh. er í hefðbundnum stíl þar sem annars vegar er lögð áhersla á efnahagslegt samstarf vestrænna ríkja og hins vegar á samstöðu þeirra í öryggis- og varnarmálum.

Í þessari skýrslu, sem hér er til umræðu, er boðað að haldið verði áfram þeirri vinnu sem hafin var í tíð síðustu ríkisstjórnar og miðast við eflingu þessarar undirstöðu íslenskrar utanríkisstefnu, en einmitt hæstv. núv. utanrrh. var forsrh. þeirrar ríkisstjórnar og sá sem hér talar utanrrh. að hluta til þess tímabils.

Raunar má segja að þetta starf hafi að nokkru byrjað í ráðherratíð Ólafs Jóhannessonar í utanrrn. þegar endurnýjun hófst á mikilvægum búnaði varnarliðsins, en Geir Hallgrímsson markaði síðan sem utanrrh. þá stefnu um aukið frumkvæði okkar sjálfra í vörnum landsins sem fylgt hefur verið síðan. Í tíð hans var það starf utanríkisþjónustunnar er lýtur að vörnum landsins, varnarviðbúnaði og mat á varnarþörfinni stóreflt og í kjölfarið hafa fylgt áætlanir og síðan framkvæmdir, t.d. hvað varðar ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi, endurnýjun flugskýla og annarra mannvirkja og tækja og svo einnig aukið samstarf við ýmis Evrópuríki í varnarmálum svo að ekki sé minnst á samstarfið við Atlantshafsbandalagið sjálft eins og hæstv. utanrrh. kom inn á í sinni ræðu. Það voru ráðnir innlendir sérfræðingar á þessu sviði til ráðgjafar við mörkun varnarstefnunnar, en fram til þess tíma má segja að við Íslendingar höfðum kosið okkur frekar hlutskipti áhorfandans. Frá þessari stefnu er ekki hvikað, sbr. skýrslu núv. utanrrh., enda hefur sú stefna treyst öryggi okkar gagnvart sívaxandi flotastyrk Sovétmanna á hafsvæðunum norður og austur af landinu.

Þá kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. að áfram verður haldið að efla þann þátt utanríkisstefnunnar og utanríkisþjónustunnar er lýtur að málefnum Evrópubandalagsins. Í fyrri skýrslu minni um utanríkismál 1986 gat ég þess að alþjóðaefnahagsmál hefðu rutt sér til rúms sem mikilvægur þáttur alþjóðamála og sú þróun hefði áhrif á alþjóðleg öryggismál með margvíslegum hætti. Utanríkisviðskipti væru snar þáttur þessarar framvindu og mikilvægur hluti starfs okkar Íslendinga á næstu árum hlyti að mótast nokkuð af þessum nýju viðhorfum. Við sjáum t.d. þá breytingu sem efnahagslegar staðreyndir hafa haft á samskipti austurs og vesturs á allra síðustu árum.

Það var á grundvelli þessara viðhorfa sem ég hafði forgöngu um að starf utanríkisþjónustunnar hvað varðar samskiptin við Evrópubandalagið yrði stóreflt og stofnuð var að mínu frumkvæði sérstök skrifstofa í Brussel til þess að annast þau samskipti, fylgjast með og koma upplýsingum á framfæri við stjórnvöld svo og einnig að koma sjónarmiðum okkar og viðhorfum á framfæri þar hvenær sem þess gerðist þörf. Ég hygg að þetta spor hafi verið skynsamlegt og um það eru held ég allir sammála að það muni skila miklu þegar viðræður um framtíðarstöðu okkar gagnvart Evrópubandalaginu hefjast. Þessi skrifstofa tók til starfa 10. des. 1986. Það er ástæða til að ætla að starfi þessu verði haldið áfram, enda er í skýrslunni tekið undir þessi orð mín frá fyrri skýrslu að stærstu verkefni utanríkisþjónustunnar í náinni framtíð hljóti að vera að efla utanríkisviðskipti og útflutningsmál.

Í þeirri umræðu sem nú fer fram um samskipti við Evrópubandalagið finnst mér nokkuð skorta á nauðsynlega yfirvegun manna og ýmsir hafa verið að mínum dómi heldur glannalegir í yfirlýsingum um það efni. Sumir hafa dregið upp svartar myndir og á máli þeirra er það helst að skilja að okkar bíði dapurleg örlög nýlenduþjóða ef ekki verði gengið til samninga um tollfrelsi þegar í stað. Jafnvel hafa verið hugmyndir um einhvers konar viðskipti með varnaraðstöðu. Við slíkar raddir vil ég segja: Er ekki hyggilegra að vinna okkar sjónarmiðum skilning með yfirvegun en láta slagorðin eiga sig? Staðreyndin er nefnilega sú að við höfum haft hagstæðan samning við Evrópubandalagið og markmiðið hlýtur að vera að útvíkka þann samning á næstu missirum eða þegar Evrópubandalagið er reiðubúið til að ganga til slíkrar samningsgerðar. Ég tek undir þau orð hæstv. utanrrh. í skýrslunni að heldur er ólíklegt að til slíkra samninga dragi fyrir 1992. Það þarf tvo til að semja og Evrópubandalagið hefur marglýst yfir að framkvæmd stefnunnar um innri markað hafi forgöngu nú um stundir í málefnum bandalagsins.

Við eigum á hinn bóginn að nota tímann þangað til viðræður geta hafist og marka okkur sameiginlega stefnu gagnvart þessu starfi Evrópubandalagsins sem tryggir okkar hagsmuni í viðskiptum okkar og stöðu almennt í samfélagi vestrænna ríkja. Mikilvægt er í því sambandi að slá engu frá sér sem óhugsanlegu heldur nálgast viðfangsefnið af raunsæi og fumleysi og gæta vel að því að fullveldi okkar, t.d. hvað varðar auðlindir, verði treyst í Evrópusamstarfi framtíðarinnar. Aðild að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá nú, en framvinda þess máls. er að sjálfsögðu háð sérstöðu okkar varðandi fiskveiðiréttindi.

Ég legg áherslu á að menn varist innantómar yfirlýsingar og hræðsluóp í þessu sambandi, hvort sem það kemur úr röðum stjórnmálamanna eða frá fulltrúum hagsmunahópa. Ég tel að það hafi verið vel ráðið þegar utanrmn. Alþingis sótti heim á sl. ári Evrópubandalagið, en það var einmitt stofnað til þeirrar ferðar í viðræðum formanns .utanrmn., Eyjólfs Konráðs Jónssonar, og utanrrh. Evrópubandalagsins, de Clercq, þegar hann var í opinberri heimsókn hér á Íslandi árið 1986.

Við verðum að nota tímann og fá aðrar þjóðir, ekki síst EFTA-ríkin, til að virða sjónarmið okkar og afstöðu og fá þær til stuðnings við íslenskan málstað. Mikilvægt í því sambandi er, eins og fram kemur í skýrslu utanrrh., að fá fullt viðskiptafrelsi fyrir fisk og fiskafurðir innan EFTA og yfirvinna andstöðu Svía við það mál.

Ég gat þess hér að framan að hin nýju viðhorf í alþjóðamálum ættu sér efnahagslega undirtóna. Það er t.d. deginum ljósara að erfið efnahagsleg kjör eru hreyfiafl þeirrar áherslu Sovétmanna að dregið skuli úr vígbúnaði. Þáttaskilin í vígbúnaðarkapphlaupinu eru staðreynd og hæst ber þar samninginn um útrýmingu meðaldrægu og skammdrægu kjarnaflauganna úr Evrópu. Eins og réttilega kemur fram í skýrslu utanrrh. hefur sá árangur náðst fyrir eindrægni í vörnum Evrópu. Sovétmenn standa frammi fyrir því að ríki Atlantshafsbandalagsins hafa þrek til að vega upp yfirburði þeirra á mikilvægum sviðum og Sovétmenn hafa fundið sig knúna frammi fyrir þeirri staðreynd að draga úr vígbúnaðarkapphlaupinu. Atlantshafsbandalagið hefur nýtt styrk sinn til að auka friðarlíkur og draga úr vígbúnaði. Stefna þessi er að skila árangri. Það er mikilvægt að vestræn ríki haldi áfram að treysta samstöðu sína og við Íslendingar eigum að taka þátt í því að haldið verði áfram að semja um fækkun kjarnaflauga. Vonandi ná leiðtogar risaveldanna samkomulagi á fundi sínum í Moskvu í maí eða júní í vor um fækkun langdrægra kjarnaflauga.

Fyrir Atlantshafsbandalaginu liggur á hinn bóginn það verkefni äð undirbúa viðræður um fækkun hefðbundins vígbúnaðar og efnavopna eins og samþykkt var á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins hér í Reykjavík hinn 12. júní sl. sumar. Nauðsynlegt er fyrir varnir Evrópu að samið verði um niðurskurð þessara vopnategunda áður en t.d. verður rætt um hin svokölluðu vígvallarvopn. Markmiðið er, eins og margoft hefur komið fram í málflutningi Atlantshafsbandalagsins, að tryggja friðinn og árangur næst ekki nema með festu og sveigjanleika í samningum eins og vestrænu ríkin hafa borið gæfu til að gera allt frá stríðslokum.

Ég vil víkja nokkuð að þeirri áherslubreytingu sem orðið hefur í framkvæmd utanrrh. í atkvæðagreiðslum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni kemur fram að breytt hafi verið um atkvæði til tíu tillagna frá því sem atkvæði áður féllu, sennilega rétt níu en breytt afstaða varðandi þá tíundu. Engin tilraun er gerð til að rökstyðja þessa breytingu í skýrslunni nema með afar ónákvæmum og óljósum tilvísunum í þáltill. frá 23. maí 1985, um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Það hefði mátt koma fram nánari skýring af hálfu utanrrh. á því hvernig á því stendur að þeir sem á undan gengu gátu fylgt sömu ályktun en greitt þó atkvæði með öðrum hætti en hann gerir, en ekki er gerð tilraun til slíks rökstuðnings í skýrslunni.

Í einu tilviki var um að ræða tillögu sem oft hefur verið rædd hér á Alþingi og stundum með allmiklum hávaða, en það er hin svokallaða sænsk-mexíkanska frystingartillaga. Afstaða til þeirrar tillögu var raunar mótuð í tíð Ólafs Jóhannessonar, en í skýrslu hans um utanríkismál frá 1983 segir um þessa tillögu að Íslendingar hefðu tekið þátt í þeirri ákvörðun Atlantshafsbandalagsins að koma upp meðaldrægum kjarnaflaugum í Evrópu á árinu 1979 til að vega upp yfirburði Sovétmanna á því sviði. Að greiða atkvæði um frystingu á sama tíma jafngilti því að verið væri að koma í bakið á bandamönnum okkar, sagði Ólafur Jóhannesson. Tillagan var með öðrum orðum sett fram í upphafi þessa áratugar og hafði þann tilgang að frysta yfirburði Sovétmanna. Það hefði a.m.k. verið afleiðingin ef hún hefði náð fram þegar hún var sett fram. Það er á hinn bóginn staðfest í skýrslu utanrrh., eins og ég gat um hér að framan, að það var einurð vestrænna ríkja, það er uppsetning meðaldrægu flauganna sem gerði þann árangur mögulegan að samið var um útrýmingu þessara flauga með samningnum sem undirritaður var í Washington hinn 8. des. sl. Afstaða til þessarar tillögu mótaðist ekki aðeins af þessum sjónarmiðum, heldur komu og fram í tillögunni fullyrðingar um jöfnuð í vígbúnaði og var þannig horft fram hjá yfirburðum Sovétmanna á sviði hefðbundins vígbúnaðar. Þá var það afstaða mín að í tillögunni fælist að semja ætti um frystingu á sama tíma og samningar stæðu yfir um hreinan niðurskurð kjarnavopna. Ekkert hefur komið fram sem gefur tilefni til stefnubreytingar að þessu leyti af hálfu okkar Íslendinga, en segja má að tillagan hafi verið orðin úrelt og tímaskekkja þegar hún er flutt á allsherjarþinginu sl. haust.

Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja menn til þess að gæta rökhyggju varðandi afstöðu til tillagna á þingi Sameinuðu þjóðanna sem oftar en ekki, því miður, eru settar fram í áróðursskyni. Það er til að mynda afar undarlegt að samþykkja tillögu til ályktunar, sem flutt var af Úkraínu og Tékkóslóvakíu og ýmis þróunarríki stóðu einnig að, um samræmda framkvæmd ályktana allsherjarþings á sviði afvopnunar. Íslendingar voru eina vestræna þjóðin sem greiddi þessari tillögu atkvæði. Þessi afstaða var afar vafasöm þó ekki væri nema vegna þess að við höfum ýmist setið hjá eða verið á móti samþykktum margra áróðurstillagna um þennan málaflokk, t.d. frystingartillögunnar margnefndu sem þó hafa verið samþykktar af allsherjarþinginu. (SvG: Hefur þú ekkert rætt þetta í ríkisstjórninni?) Í þessari afstöðu felst mótsögn og ég vil leggja áherslu á að í samþykkt Alþingis um afvopnunarmál frá 1985, þar sem segir að fagna beri hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins, felast ekki fyrirmæli um að samþykkja hverja þá áróðurstillögu gagnrýnislaust sem fram kemur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um þennan málaflokk. Mál þessi eru flóknari og mikilvægari samstöðu vestrænna ríkja en svo að þar megi lítt grunduð ákvörðun ráða ferðinni.

Ég mun ekki víkja að málefnum Norðurlandaráðs hér og nú. Eins og fram kom hjá hv. 13. þm. Reykv. mun sérstöku þskj. verða dreift um störf Norðurlandaráðsdeildar og þar gerð grein fyrir norrænu samstarfi og þá gefst tækifæri til þess að ræða það.

Af þessari skýrslu, sem hér liggur fyrir, er ljóst að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar mun fylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. Á þeim grundvelli munu Íslendingar styðja alla raunhæfa viðleitni sem beinist að gagnkvæmri fækkun kjarnavopna undir öruggu eftirliti gegn vígbúnaðarkapphlaupi og vinsamlegum samskiptum þjóða.

Af skýrslunni er ljóst að ríkisstjórnin ítrekar þá grundvallarstefnu í utanríkismálum að taka virkan þátt í norrænu samstarfi, í samstarfi Evrópuþjóða, í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og vestrænu varnarsamstarfi á grundvelli aðildar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningsins og að Íslendingar taki virkan þátt í starfsemi bandalagsins.

Af þessari skýrslu er ljóst að ríkisstjórnin leggur áherslu á aukna samvinnu við Efnahagsbandalagið á sviði viðskiptamála og vísindaþróunar og að með breytingum verði vel fylgst.