26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4966 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

Undirritun kjarasamninga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að það sé sjálfsagt og eðlilegt að ræða ítarlega um skýrslu hæstv. utanrrh. í dag í framhaldi af umræðunni í gær. Þar kom margt mjög merkilegt fram. Ég vil hins vegar láta það koma fram að auðvitað hefði að mörgu leyti verið eðlilegt á þessum degi, þegar nýlega er búið að undirrita kjarasamninga, að fjalla um forsendur þeirra og að ræða við ríkisstjórnina hvernig hún hyggst búa að þeim kjarasamningum sem nýlega hafa verið undirritaðir. Afstaða okkar er hins vegar sú að það þýði ekki vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki skoðun í efnahagsmálum samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust af fundi framsóknarmanna í Kópavogi í gærkvöld. Ráðherrarnir segja eitt hér og annað þar og þess vegna hef ég ekki þreytt forseta með því að biðja um umræðu utan dagskrár. (Forseti: Já, en þetta er ekki um þingsköp.) Þetta er um þingsköp, þ.e. um umræðu utan þingskapa. Ég vil þess vegna lýsa því hér yfir að ég tel ekki ástæðu til á þessu stigi, þó að kjarasamningar hafa verið undirritaðir, að eiga orðastað við ríkisstjórnina vegna þess að hún veit ekkert hvað hún ætlar að gera. Hins vegar verða gerðar ráðstafanir til að kalla eftir áliti hennar á málum eftir helgina ef svo kynni að fara að þessir þrír flokkar, sem í ríkisstjórn eru, hefðu hist á fundi til að koma sér að niðurstöðu.