26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5045 í B-deild Alþingistíðinda. (3421)

294. mál, utanríkismál

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð við þessa umræðu um utanríkismál og fjalla almennt um stöðu Íslands í alþjóðlegu umhverfi sem og stefnu þjóðarinnar í utanríkismálum.

Ég er sammála hæstv. fjmrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni þegar hann segir, að sjaldan hafi verið jafnmikilvægt og nú fyrir Íslendinga að gera sér grein fyrir því hvar við værum á vegi staddir í utanríkismálum og samskiptum okkar við aðrar þjóðir, en jafnframt vil ég undirstrika að við þá umfjöllun er mikilvægt að menn hafi í huga að breytingar frá þeirri meginstefnu í utanríkismálum Íslands sem mótuð var á fyrstu áratugum lýðveldisins krefst mikillar og ítarlegrar umræðu innan þings sem utan.

Tímabundnir viðskiptahagsmunir eða óeðlileg pólitísk sambönd við alþjóðaflokka eiga ekki að ráða stefnumörkun Íslendinga í utanríkismálum. Það sem á fyrst og fremst að ráða er auðvitað afstaða til þjóðlegra verðmæta, vernd eignarhalds Íslendinga á landinu sjálfu, vernd íslenskrar tungu og menningar. Þá er mikilvægt og þýðingarmikið að Íslendingar geri sér grein fyrir hverjir eru efnahagsog viðskiptalegir hagsmunir í tengslum við þessi mál. Og síðast en ekki síst þarf að tryggja að Íslendingar fái að lifa og starfa í landi sínu í friði fyrir ásælni annarra þjóða sem ýmist með hernaði eða viðskipta- og efnahagsþvingunum brjóta undir sig hvert smáríkið á fætur öðru.

Smáríki tryggja best stöðu sína að mínu mati með sjálfstæðum samningum í öryggis- og varnarmálum við lýðræðisríki sem virða frelsi og sjálfstæði smáþjóða. Íslendingar hafa slíkan samning við Bandaríki Norður-Ameríku í öryggis- og varnarmálum. Sá samningur er góður. Þess vegna er að mínu mati óþarft að ræða um slík mál í tengslum við stöðu Íslands gagnvart Efnahagsbandalaginu.

Þess vegna er einnig óþarft að ræða við Efnahagsbandalagið um öryggis- og varnarmál í tengslum við hugsanlega frekari samninga við Efnahagsbandalagið. En ég vil minna hv. þm. á að við höfum nú þegar mjög góða samninga við Efnahagsbandalagið í sambandi við veigamikil atriði á viðskipta- og tollasviði og það er spursmál hvort það borgi sig fyrir Íslendinga að opna þessa samninga með nýjum viðræðum að svo stöddu. Alla vega mundi ég leggja til að það verði skoðað mjög gaumgæfilega áður en óskað væri slíkra viðræðna.

Hæstv. fjmrh., sem hefur verið mjög í umræðunni um Ísland og Efnahagsbandalagið undanfarna daga vegna ræðu sinnar á sameiginlegum fundi forustumanna alþýðuflokka Norðurlandanna, sagði áðan í ræðu að hann teldi að hv. þm. þyrftu að taka afstöðu og það sem fyrst og nefndi hann tímasetningu sérstaklega í því sambandi sem er árið 1992, en það er það ár sem Efnahagsbandalagið stefnir að að Vestur-Evrópa verði orðin ein markaðsheild. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra í því að það er mjög þarft, tímabært og nauðsynlegt að hv. þm. taki afstöðu í þessu máli og dragi það ekki, en legg áherslu á að það verði gert að vel íhuguðu og athuguðu máli.

En það er ekki alveg rétt að lita þannig á, þegar verið er að ræða um samskipti Íslands og Vestur-Evrópu þannig, eins og mér fannst stundum örla á hjá hæstv. ráðherra, eins og þessi umræða hafi ekki farið fram neitt áður. Allar götur frá stofnun Efnahagsbandalagsins, ef ég man rétt var það stofnað með Rómar-samningnum svonefnda árið 1957, hafa farið fram mjög ítarlegar umræður um þetta mál hér á Íslandi en þó með nokkru hléi. Ég minnist þess að um og eftir 1960 fór fram hér mjög ítarleg umræða um hvort Ísland ætti að ganga í eða óska eftir aðild að Efnahagsbandalaginu eða ekki. Var m.a. efnt til ráðstefnu þar sem aðilar helstu útflutningssamtaka og hagsmunasamtaka mættu og fjölluðu um það. Einnig fjölluðu ýmsir af frammámönnum íslensku þjóðarinnar og þáverandi ráðherrar mikið um þessi mál. Niðurstaðan af þeirri umræðu varð sú að Ísland nálgast ekki Evrópu þrátt fyrir að menn mætu það á þeim tíma ekki ósvipað og nú að Íslandi væri það lífsnauðsyn að nálgast og vera nálægt þeirri þróun sem var að hefjast í Evrópu í kringum 1960.

Þess í stað mótuðu Íslendingar stefnu sem fól í sér að ríkari áhersla var lögð á samskiptin við Atlantshafsbandalagsríkin í heild og einnig var lögð meiri áhersla á viðskiptin við Bandaríki Norður-Ameríku, bæði í sambandi við vöruviðskipti sem og á sviði þjónustuviðskipta. Þessi stefna, sem þá var mörkuð, reyndist Íslendingum vel og hefur reynst Íslendingum vel til þessa. Þar með er ég ekki að segja að það þurfi ekki að endurmeta þessi mál og gera það með þeim hætti að menn geri sér grein fyrir því að Ísland verður að fara mjög varlega þegar það nálgast viðræður við ríkjasambönd hvort sem þau eru í austri eða vestri.

Það var eitt atriði í ræðu hæstv. fjmrh. sem ég vil víkja að nokkrum orðum. Það er mikilvægt atriði í íslenskum utanríkismálum sem skiptir máli að hafa í huga þó nokkuð sé um liðið síðan það var efst á baugi. Hæstv. ráðherra minntist á þorskastríðið og gat þar nokkurra Evrópuþjóða.

Það er nú einu sinni þannig að reynslan kennir mönnum. Þorskastríðið er mjög mikilvægt atriði í sögu Íslands. Það er mjög þýðingarmikið að Íslendingar dragi réttar ályktanir af því sem gerðist í því máli og hvers vegna Íslendingar náðu þeim árangri sem raun bar vitni. Þess vegna vil ég varpa fram þeirri spurningu og svara henni sjálfur: Hverjir reyndust Íslendingum vel í þeim stríðum? Það er ekki aðeins þorskastríðið um og eftir 1970 til 1976 sem við verðum að hafa í huga heldur einnig,fyrri þorskastríð. Voru það Bretar, voru það Þjóðverjar eða voru það Evrópuþjóðirnar yfirleitt? Ég leyfi mér að svara því neitandi. Staðreyndin er sú að í þessu stríði okkar fyrir þeim lífsgrundvelli sem við lifum á, sem er sjávaraflinn, voru Evrópuþjóðirnar þær þjóðir sem höfðu mjög takmarkaðan og svo til engan skilning á stöðu íslensku þjóðarinnar í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Þetta eru sögulegar staðreyndir. Stjórnmálamenn í Evrópu voru 1slendingum mjög erfiðir og mjög skilningslausir. Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn voru þrátt fyrir allt sá aðili sem reyndist Íslendingum vel í þeirri baráttu, bæði í sambandi við pólitísk jákvæð afskipti af málinu sem og líka vegna þeirrar afstöðu sem Íslendingar höfðu í sambandi við markaðs- og sölumál á helstu sjávarafurðum. Rússar sáu sér auðvitað leik á borði þegar ágreiningur kom upp á milli NATO-ríkjanna og spiluðu með og sögðust vera bestu vinir Íslendinga þá í sambandi við þetta hagsmunamál. En það var ekki velvild Vestur-Evrópuríkjanna sem tryggði okkur sigur í landhelgismálunum. Mun ég víkja síðar að því hvernig ég met það og hvers vegna.

Það sem réði úrslitum var í fyrsta lagi þrautseigja og samstaða Íslendinga sjálfra í baráttunni fyrir rétti sínum. Þetta er grundvallaratriði. Þarna vorum við einangraðir eyjabúar í baráttu fyrir lífshagsmunamáli í stríði við stórþjóðir og að vissu leyti í óþökk og óvild annarra þjóða sem ekki áttu eins ríkra hagsmuna að gæta og t.d. Bretar töldu sig eiga á Íslandsmiðum.

Í öðru lagi réði það einnig úrslitum hve frammistaða þáverandi forustumanna Íslendinga reyndist þjóðinni vel í því að sameina hana og á ég þá sérstaklega við forsrh. Geir Hallgrímsson, Einar Ágústsson utanrrh., Matthías Bjarnason sjútvrh. og Ólaf Jóhannesson dómsmrh. Þessir pólitísku forustumenn Íslendinga á þeim tíma sameinuðu þjóðina og þeir sýndu hinum erlendu aðilum, sem Íslendingar áttu við að etja, að þeir ætluðu, þ.e. Íslendingar, að hafa sigur í málinu, enda var verið að berjast um lífshagsmuni og framtíðarvelferð þjóðarinnar. Það hafði mikil áhrif hve framganga og forusta þessara manna var farsæl og góð í þeirri miklu og hörðu baráttu og gegndu þeir hver sínu hlutverki eftir því sem við átti í þeirri baráttu.

Þá er það þriðja atriðið. Það er: Hvaða þjóð erlend studdi okkur í reynd best? Ég var í samninganefndinni á þessum tíma, þ.e. 1974–1976, og kynntist því vel á ferðum mínum, bæði fyrir utanrrh. og á vegum míns þingflokks, hvernig forráðamenn vissra þjóða brugðust við þegar leitað var eftir því að þær beittu sér til stuðnings málstað Íslendinga. Bandaríkjamenn studdu Íslendinga leynt og ljóst. (AG: Alveg passífir.) Það er söguleg staðreynd sem hv. þm. Albert Guðmundsson getur ekki hrakið. - Ja, ég skil ekki almennilega þetta frammíkall hv. þm. Hv. þm. Albert Guðmundsson kom hvergi nálægt þessum samningamálum umfram það að hann greiddi þeim atkvæði sem stuðningsmaður þáverandi ríkisstjórnar þannig að hann getur ekki fullyrt þetta og mun ég rökstyðja það nú.

Bandaríkjamenn beittu sínum áhrifum á Breta og Vestur-Þjóðverja. M.a. var einn af fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherrum Bandaríkjamanna, Eugene Rostow, í þessu máli og vann sérstaklega að viðræðum við forráðamenn Bretlands og Vestur-Þýskalands á bak við tjöldin, jafnframt því sem hann átti viðræður við forseta Bandaríkjanna á lokastigi þessarar deilu. Þetta hafði auðvitað sín áhrif eins og gefur að skilja. Þetta hafði líka áhrif innan Atlantshafsbandalagsins eins og margoft kom fram á þeim tíma.

Þá áttu Íslendingar í fjórða lagi mjög góða bandamenn meðal áhrifamanna í verkalýðshreyfingu Vestur-Evrópu. Þar voru m.a. flokksbræður hæstv. ráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það voru háttsettir forustumenn í verkalýðshreyfingu Vestur-Evrópu, sérstaklega Bretlands, menn eins og Vic Feather, þáv. framkvstj. TUC, og Jack Jones, áhrifamikill verkalýðsforingi á Bretlandi og vinur Harolds Wilsons. Í Vestur-Þýskalandi var það forseti þýska alþýðusambandsins, DGB, Heinz-Oskar Vetter, áhrifamaður í þýska alþýðuflokknum SPD. Þessir alþýðuflokksmenn og forustumenn í verkalýðshreyfingu Vestur-Evrópu voru Íslendingum mjög hliðhollir og töluðu við ríkisstjórnir og forráðamenn viðkomandi landa. Þetta er söguleg staðreynd sem ég vil gjarnan að komi fram á þessu stigi.

Hins vegar verður það að segjast eins og er að evrópskir stjórnmálmenn, hvort sem það voru kratar eða íhaldsmenn, voru Íslendingum yfirleitt mjög erfiðir í þessari deilu. Þeir eru yfirleitt erfiðir. Stjórnmálamenn í Evrópu eru erfiðir viðureignar þegar kemur að þjóðlegum hagsmunum þeirra sjálfra. Þeir meta hagsmuni út frá allt öðrum forsendum en Íslendingar eru vanir. Hið sama verður ekki sagt um t.d. verkalýðsforingja Evrópu sem dugðu Íslendingum vel. En ég mun víkja nánar að þessum atriðum sem þjóðríkin snerta síðar í ræðu minni.

Hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson varpaði fram þeirri spurningu hvort Íslendingar gætu tryggt hagsmuni sína í gegnum EFTA eða hvort við gætum gert það með nánara samstarfi við Norðmenn en verið hefur til þessa. Átti hann þar sérstaklega við, ef ég skildi hann rétt, að tryggja sölu- og viðskiptahagsmuni okkar fyrir sjávarafurðir.

Ég hef setið í ráðgjafarnefnd EFTA síðan 1971 og verð að,segja að þótt ýmislegt gott hafi komið út úr því að Íslendingar tækju þátt í EFTA hefur EFTA ekki að mínu mati þá burði sem mundu duga okkur úr því sem komið er til að tryggja okkur þá hagsmuni sem hæstv. ráðherra var að vísa til. Hins vegar er sjálfsagt að láta enn frekar á það reyna hvort t.d. Svíar hindri áfram að við getum fengið viðeigandi leiðréttingar í sambandi við okkar hagsmuni í útflutningi og sölu sjávarafurða og gera það þá auðvitað innan EFTA.

Hvað Norðmenn áhrærir verð ég að segja að því miður hef ég takmarkaða trú á því að það mundi skila okkur miklum árangri. Samstarf við Norðmenn á viðskiptasviði hefur yfirleitt ekki reynst Íslendingum vel. Þó eru auðvitað til undantekningar. Norðmenn eru miklir eiginhagsmunamenn þegar kemur að fjármálum og viðskiptamálum. Það hefur verið reynt samstarf, svokallað frjálst samstarf, við Norðmenn í sambandi við sölu ákveðinna tegunda sjávarafurða. Það áttu að vera samráðsfundir og samstarf, en því miður varð það oftar að Norðmenn hlupu út undan sér og komu aftan að okkur í þeim viðskiptum sér í hag.

Þess vegna má eiginlega segja að mín niðurstaða sé sú, að eins og á stendur sé best fyrir Íslendinga að reyna sjálfir. Ég hef ekki trú á að Norðurlöndin muni styðja þannig við bakið á okkur að það skili þeim árangri sem viðunandi er.

Ráðherra ræddi nokkuð um sölu á ákveðnum sjávarafurðum, talaði m.a. um saltfisk. Skal ég ekkert draga úr mikilvægi þess að fá tollaleiðréttingar í sambandi við útflutning á saltfiski, sérstaklega eftir að Spánn og Portúgal gerast aðilar að Efnahagsbandalaginu. En það sem mér finnst skipta máli þegar verið er að ræða þetta er að menn geri sér grein fyrir vægi einstakra afurðategunda og einnig hvert er verðmæti þeirra.

Ef við lítum yfir helstu útflutningsafurðir Íslendinga, sem er ekki flókið mál, þá er það ferskur fiskur, saltfiskur, frystur fiskur, lýsi og mjöl og einnig álvörur. Aðrar vörur, t.d. iðnaðarvörur almennt, hafa ekki aukist mikið í útflutningi Íslendinga á liðnum árum, því miður, þrátt fyrir mikla og góða viðleitni manna í þeim efnum. Við erum háðir Vestur-Evrópu sérstaklega í sambandi við sölu á ferskum fiski og saltfiski og einnig lýsi og mjöli. Lýsi og mjöl er ekkert annað en hráefni. Það er hráefni sem Vestur-Evrópumenn kaupa af okkur og hagnýta sér síðan til að framleiða úr því fullunnar vörur. Þótt lýsi og mjöl sé út af fyrir sig mjög mikilvæg afurð í útflutningi er það ekki mjög eftirsótt framleiðsla því það er alger hráefnisframleiðsla. Ég er sammála ráherranum í því að við viljum ekki gera Ísland að landi sem framleiðir hráefni fyrir aðrar þjóðir.

Það eru mjög miklar sveiflur í verðlagi og sölumagni af ferskum fiski á mörkuðum Vestur-Evrópu. Skjótt geta veður skipast í lofti. Það þyrfti ekki annað að gerast í þeim efnum en Norðursjórinn næði sér á ný eða að Norðmenn ykju verulega úthafsveiðar sínar sem þeir eru að gera nú með frystitogurum. Það er áætlað að þeir verði komnir með áttatíu frystitogara í lok þessa árs. Ef það gerist að fiskgengd eykst í Norðursjónum og í kringum Bretlandseyjar á sama tíma sem Norðmenn auka sitt framboð á frystum fiski, t.d. í Englandi og Vestur-Þýskalandi, má búast við að verðlag á ferskum fiski lækki verulega, þó ég segi ekki að það hrapi niður. Það hefur strax áhrif á viðskiptakjör okkar í Evrópu og þá verður ekki eins eftirsóknarvert að selja ferskan fisk þar og nú er.

Saltfiskurinn er aftur á móti vörutegund sem getur orðið vandamál fyrir okkur að afsetja í Vestur-Evrópu nema við fáum tollaívilnanir og lækkanir. Það skal ég viðurkenna. En það sem kemur á móti í sambandi við saltfiskinn er að þarfir Spánverja og Portúgala eru mjög miklar fyrir saltfisk. Ég sé ekki fyrir mér að aðrar þjóðir geti útvegað þeim það magn af saltfiski sem gæti komið í veg fyrir þann íslenska sem nokkru nemur. Það þýðir aftur á móti að Spánverjar og Portúgalar verða að gæta sinna eigin hagsmuna innan Efnahagsbandalagsins þannig að þeir fái góð viðskiptakjör við Ísland.

Um frysta fiskinn get ég verið stuttorður. Hann hefur verið í aukningu í Vestur-Evrópu, en alls ekki fyrr en e.t.v. á síðustu árum í þeim mæli sem við hefðum vænst í Evrópu þrátt fyrir að mikið hafi verið reynt á síðustu áratugum.

Ég er þeirrar skoðunar að þó að Vestur-Evrópubúar séu út af fyrir sig ágætir kaupendur á okkar sjávarafurðum muni þeir ekki ráða úrslitum fyrir Íslendinga í sambandi við útflutning sjávarafurða í framtíðinni heldur verði markaðirnir jafngóðir og hugsanlega betri annars staðar. Á ég þar sérstaklega við Bandaríkin, þó þar sé niðursveifla í dag, og Japan.

En utanríkismál snúast um fleira en fisk og útflutning og viðskipti. Það er líka mikið atriði, þegar verið er að fjalla um samskipti við aðrar þjóðir og gera sér grein fyrir stöðu þjóðarinnar í tengslum við þær, á hvað menn vilja leggja áherslur. Það eru fleiri og jafnmikilvæg atriði, sem skipta sköpum fyrir sjálfstæði lands og þjóðar, sem menn verða að hafa í huga.

Á síðustu áratugum hafa samskipti þjóða á flestöllum sviðum gjörbreyst. Tækniþróun á sviði fjarskipta og samgangna hefur þurrkað út fjarlægðir milli þjóða í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Kjarnorka til friðsamlegra nota hefur gjörbreytt atvinnu- og efnahagslífi hinna háþróuðu ríkja. Kjarnorkan, vetnissprengjur, eldflaugarnar og önnur nútíma háþróuð ógnarvopn hafa sett stórveldunum nýjar og áður óþekktar samskiptareglur. Þetta og ótalmargt fleira í þróun vísinda og tækni hefur gert að verkum að engir, hvorki þjóðir né einstaklingar, búa við einangrun. Þetta er sú staðreynd sem við Íslendingar búum við sem aðrir.

Ákvarðanir teknar í Hvíta húsinu eða Kreml geta haft og hafa áhrif um gjörvalla heimsbyggð. Fyrir rúmri hálfri öld eða aðeins einum mannsaldri var þessu öðruvísi varið. Viðhorf og gildismat hafa breyst að sama skapi. Ef litið er til stöðu ríkja og sjálfstæðis þjóða hefur þróunin verið frá hinu sjálfstæða, óháða ríki yfir í stærri heildir, ríkjasambönd eða bandalög. Það á einkum við í atvinnu-, viðskipta- og efnahagsmálum sem og í öryggis- og hermálum. Í sumum tilvikum er erfitt að draga mörk um innbyrðis tengsl þessara þátta í sameiningu eða nánu bandalagi margra ólíkra þjóða. En eftir sem áður blasir nú við sú staðreynd að þjóðir, sem telja sig eiga ríkra hagsmuna að gæta, hafa á síðustu árum tengst nánari böndum og í ýmsum ákveðnum tilvikum sameinast eins og á þjóðlegum grundvelli væri í útfærslu veigamikilla þátta á sviði atvinnu- og efnahagsmála.

Efnahagsbandalagið er dæmigert fyrir þessa þróun. Flest helstu iðnríki Vestur-Evrópu mynda EB. Innan þess hafa ríkin tengst mjög sterkum böndum og má nánast segja að þau hafi afsalað sér þjóðlegu sjálfræði í ákveðnum málum. Sjálfstæð, einangruð, opinber meiri háttar ákvarðanataka í peninga-, atvinnumarkaðs,- landbúnaðar- og viðskiptamálum er óhugsandi innan EB. Sáttmáli þessara þjóða um mjög náið og víðtækt samstarf innan EB brýtur gjörsamlega í bága við fyrri hugmyndir manna um sjálfstæði ríkja.

Fyrir þá eða þær þjóðir sem vilja undirgangast slíkt afsal um sjálfsforræði í hefðbundinni merkingu þess orðs vegna markmiða um nýjar og árangursríkar leiðir til aukinnar almennrar velmegunar er allt gott að segja ef menn, ég endurtek, ef menn vilja greiða það gjald sem um ræðir. Það er engum vafa bundið að hinir frjálsu og ótakmörkuðu flutningar fjármagns og vinnuafls innan EB flýta fyrir samruna Efnahagsbandalagsins í eitt bandalagsríki. Eðli málsins samkvæmt hljóta stærstu og fjölmennustu ríkin að ráða lögum og lofum innan þessarar ríkjasamsteypu. Reynsla liðinna ára hefur staðfest þetta. Hin stóra spurning, sem snýr að Íslendingum, er: Hver er staða okkar sem smáríkis á hjara veraldar í þessari þróun? Er unnt að viðhalda og efla sjálfstæði þjóðarinnar í hinni hefðbundnu merkingu eða verðum við að endurmeta það gildismat sem felst þar að baki?

Íslendingar hafa verið virkir þátttakendur í víðtæku alþjóðasamstarfi frá stofnun lýðveldisins árið 1944. Ísland er aðill að Norðurlandaráði, Atlantshafsbandalaginu, Sameinuðu,þjóðunum, fríverslunarsvæðinu o.s.frv. Þá taka Íslendingar þátt í fjölbreytilegu alþjóðlegu samstarfi á sviði félags-, menningar-, heilbrigðis-, fjarskipta- og vísindamála svo nokkuð sé nefnt. Það er því óhætt að fullyrða að þjóðin hefur verið mjög opin í samskiptum við aðrar þjóðir án þess að framselja nokkurn hluta af sjálfsákvörðunarrétti sínum sem sjálfstæð þjóð.

Umhverfið hefur hins vegar tekið nokkrum breytingum. Norrænu þjóðirnar hafa færst nær hver annarri. Vestur-Evrópuríkin stefna í sameiningu, ríkjabandalag, og starfa sem ein ríkjaheild á ákveðnum mikilvægum sviðum. Í austri og vestri eru stórveldin, Bandaríki Norður-Ameríku og Sovétríkin, sem eru eðli málsins samkvæmt ríkjasambönd. Við þetta bætist starfsemi fjölþjóðafyrirtækja sem teygja anga sína út um allan heim. Tækniþróunin og þjónusta ýmissa þessara fyrirtækja eru þess eðlis að þau öðlast sjálfkrafa ákveðna einkaréttaraðstöðu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Nægir í því sambandi að minna á ákveðin tölvufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki o.s.frv.

Íslendingar hafa eins og flestar aðrar þjóðir orðið að beygja sig undir þessa þróun og undirgangast þá skilmála sem um ræðir. Í því felst ekki afsal stjórnarfarslegs sjálfstæðis, en hins vegar ákveðin erlend áhrif um framkvæmd eða útfærslu tiltekinna mála á mjög takmörkuðu sviði. Aðild Íslands að EB mundi hafa í för með sér afsal á einhliða ákvarðanatöku í veigamiklum málum og skapa jafnframt ákveðinn og jafnan rétt þegna aðildarríkja EB á Íslandi. Þegnar Efnahagsbandalagsins hafa rétt til að stofna fyrirtæki í hvaða landi sem er innan bandalagsins. Ef Ísland gerðist aðili að EB mundu þeir hafa fullan aðgang að sameiginlegum auðlindum, sbr. fiskimiðunum á Íslandi. Fjármagnsflutningar eru frjálsir, sömuleiðis atvinnuréttindi innan svæðisins og skattar eru samræmdir. Markmið EB er að tryggja hagkvæma verkaskiptingu og bæta lífskjör. Efnahagslegur ávinningur er meginmarkmið. Önnur atriði, eins og hin þjóðernislegu og menningarlegu, eru víkjandi.

Viðskiptalega skiptir það auðvitað miklu máli fyrir Ísland hvernig þróunin er í EB. Hið sama má segja um Bandaríkin. Norðurlöndin skipta hins vegar minna máli viðskiptalega en hins vegar þeim mun meira máli félags- og menningarlega. Segja má að til þessa hafi Íslendingar notið þess besta í samskiptum sínum við þessa aðila án þess að gangast þeim á hönd. Staðreynd er að þegar Ísland hefur verið viðskiptalega háð Norðurlöndunum hefur þjóðinni vegnað illa afkomulega. Þetta er söguleg staðreynd. Þessar þjóðir kaupa ekki helstu afurðir landsmanna sem nokkru nemur né greiða þær sambærilegt verð og aðrar þjóðir.

Þegar Íslendingar tóku hins vegar sjálfir upp bein viðskipti við engilsaxa, sérstaklega Breta, og síðar þegar þeir tóku upp náin viðskipti við Bandaríkjamenn, fór þeim að vegna mun betur. Þess vegna skipta viðskiptaleg tengsl Íslendinga við þessar þjóðir miklu máli. En hvort enn nánari tengsl við þær, svo sem í gegnum eignaraðild þegna þessara ríkja í landi og fyrirtækjum, skili landsmönnum meira efnalega í aðra hönd er matsatriði. Ég tel að það eigi að fara mjög varlega í að heimila erlendum aðilum þátttöku í íslenskum fyrirtækjum. Að vísu er það nauðsynlegt á vissum sviðum og ber þá að gera það, en með varúð.

Verðmætasta eign landsmanna er landið sjálft, gögn þess og gæði. Íslensk menning hvílir á fornri arfleifð, tungu og listum sem eru mjög sérstæðar. Í gegnum aldirnar hefur þróast mjög sterkur þjóðlegur stofn á Íslandi sem í einangrun og harðbýli hefur tileinkað sér sterka sjálfsbjargarviðleitni en er, eins og eyjabúum er tamt, tortrygginn gagnvart utanaðkomandi áhrifum. Þrátt fyrir það hefur þjóðin mikla aðlögunarhæfileika í því sem skiptir máli um aðlögun að tæknilegum framförum sem hafa þýðingu fyrir betri efnahagslega afkomu.

Margir erlendir aðilar, sem hafa átt náin samskipti við Íslendinga, dást að dugnaði þeirra, þessara 240–250 þúsunda manns, við að byggja upp nútímalegt samfélag í þessu stóra landi. á vissum sviðum, svo sem í sjávarútvegi og fiskiðnaði, hótel- og veitingahúsarekstri, svo nokkuð sé nefnt, eru Íslendingar meðal fremstu þjóða. Þá er þjóðin óvenjulega vel upplýst og menntuð miðað við ýmsar hinar fjölmennari þjóðir, svo sem iðnríkin, þótt Íslendingar vegna smæðar sinnar geti aldrei keppt við þau á mörgum sviðum af skiljanlegum ástæðum.

Erfitt er að sjálfsögðu að segja nákvæmlega til um hvar draga skuli strikið milli Íslands annars vegar og náinna samskipta við önnur ríki hins vegar. Það er enn erfiðara í dag en var fyrir 30–40 árum og mun væntanlega verða enn erfiðara í framtíðinni. Fólksfjölgunin í heiminum og gjöreyðingarvopnin krefjast endurmats á fyrri gildum. Meginmarkmið mannkynsins hefur verið og mun ætíð verða að tryggja friðinn. Einstaklingurinn vill fá tækifæri til að þroskast og takast á við lífið í samræmi við getu og hæfileika. Hann vill fá að starfa í friði að jákvæðri uppbyggingu í eigin umhverfi og innan þeirrar heildar sem hann lifir í.

Friður og framfarir verða ekki í hinum fjölmenna heimi framtíðarinnar - en spár eru um að íbúatala jarðarinnar verði farin að nálgast 7000 milljónir árið 2000 - nema þjóðir heims vinni saman, færist nær hver annarri. Nauðsynlegar framfarir í tækni og vísindum til að mæta fæðuþörf þessara milljarða verða ekki nema þjóðirnar starfi enn nánar saman. Menntun og fræðsla krefst samræmingar ef þjóðum heims eiga að nýtast hinar miklu framfarir. Friður byggist á gagnkvæmum samskiptum, skoðanaskiptum og nánari umgengni einstaklinga ólíkra þjóða. Þannig er unnt að fjalla um flestöll svið mannlegra samskipta með tilliti til framtíðarinnar.

Einangrun eða takmarkalaus sérhyggja og þjóðernishroki falla ekki inn í framtíðarsýn mannkynsins. En það þýðir ekki að sérhver einstaklingur sem þjóðir verði ekki að skoða eigin stöðu í þrengri merkingu þess orðs og gera sér sem besta grein fyrir stöðu sinni og möguleikum við breyttar aðstæður.

Þótt Ísland sé gjöfult og gott land á ákveðnum sviðum býður það ekki upp á ótakmarkaða möguleika. Engir nema landsmenn sjálfir skynja þetta. Í heimi nútímans er rányrkja mikill vágestur. Óvandaðir menn fara víða eins og eldur í sinu og eyða náttúruauðlindum með skjótum hætti. Þegar allt er nýtt og landið er orðið eins og sviðin jörð hverfa þeir af vettvangi, en eftir situr hnípin þjóð á öskuhaugum nútímans, bílhræjum, plasthúsgögnum, gervimunaði og þess háttar, rúið lífsgrundvellinum.

Ég sagði áðan að Ísland væri gjöfult land en mjög viðkvæmt. Það krefst því góðrar umgengni. Hið sama má segja um auðlindir landsins. Með nútímatækni er unnt að tæma þær á örfáum árum. Gott dæmi þessa er sjávaraflinn. Íslendingar einir vita best hvernig nýta ber landið, gögn þess og gæði þannig að jafnvægi ríki. Með því nýtist landið betur þeim takmarkaða fjölda sem getur byggt landið á grundvelli mannsæmandi lífskjara. Að mínu mati væri það því óráð að opna landið erlendum aðilum með aðild að EB eða öðrum ríkjasamsteypum.

Undir niðri eru EB-ríkin einnig mjög ósamstæð. Í stjórnmálum geta Evrópumenn verið mjög hverflyndir svo sem sagan sannar. Það hentar ekki íslensku eðli eða íslensku lundarfari að eiga hagsmuni sína undir slíku stjórnarfari. Íslendingar vilja stöðugleika samfara miklu frelsi til athafna. Skipulagshyggja gömlu nýlenduveldanna er Íslendingum ekki að skapi. Aðild Íslands að EB mundi í reynd þýða það að landið yrði hjálenda þessara gömlu ríkja sem bera takmarkaða virðingu fyrir smáríkjum.

Miklar pólitískar sviptingar vinstri og hægri flokkanna í Evrópu setja leiðtogum þeirra takmörk í auðsýnd umburðarlyndis gagnvart hinum smáu. Þetta er staðreynd. Ísland getur því aldrei sameinast slíkri ríkjaheild. Hugsanlegur efnahagslegur ávinningur er smáræði borið saman við þau þjóðarverðmæti sem fórnað yrði með aðild að Efnahagsbandalaginu.

Vil ég þá víkja nokkrum orðum að Norðurlöndunum. Norðurlöndin eru ágæt að vissu marki, þ.e. þar til kemur að efnahagslegum atriðum. Í almennum menningar- og félagslegum atriðum er gott að eiga samleið með Norðurlandabúum. Í þeim efnum eru Norðurlöndin tillitssöm, enda kostar það tiltölulega lítið. Öðru máli gegnir í viðskipta- og fjármálum. Þar er ekkert til skiptanna. Norðmenn og Svíar eru þekktir fyrir allt annað en gefa eitthvað eftir í viðskiptum. Danir hafa hins vegar oft sýnt og sannað að þeir hafa skilning á högum annarra og eru reiðubúnir að láta samstarfsaðila njóta ávaxtanna að fullu. Þrátt fyrir allt hafa Danir reynst Íslendingum vel. En í samræmi við ríkjandi aðstæður og hugarfar reyndu þeir auðvitað að hagnast á aðstöðu sinni á meðan þeir réðu ríkjum á Íslandi. Of náið efnahagslegt samstarf eða samruni Íslands við Norðurlöndin mun því að mínu mati ekki styrkja stöðu þjóðarinnar.

Ísland hefur átt ágætt samstarf við Bandaríki Norður-Ameríku á ýmsum sviðum, sérstaklega í öryggis-, varnar- og viðskiptamálum. Bandaríkjamenn hafa sýnt vilja til að tryggja Íslendingum hagstæða samninga á mikilvægum sviðum án nokkurra óaðgengilegra skilyrða. á viðskiptasviðinu eru miklir ónýttir möguleikar í Bandaríkjunum. Ísland og Bandaríkin eiga gangkvæmra hagsmuna að gæta á mjög mikilvægu sviði sem tengir þessar þjóðir þeim böndum að óþarft er að gangast öðrum þjóðum á hönd með þeim hætti sem EB eða Bandaríkin mundu krefjast ef Ísland óskaði aðildar að þessum ríkjasamsteypum. Það er því mitt mat að Ísland eigi að rækta vel tengsl sín við Norðurlöndin, Vestur-Evrópu og Bandaríkin með svipuðum hætti og gert hefur verið á liðnum áratugum. Eftir því sem kringumstæður krefjast verður að leita sérsamninga eða taka upp nánara samstarf við þessi ríki eftir því sem aðstæður leyfa.

Að lokum: Ákvarðanir í utanríkismálum mega ekki tengjast stundarhagsmunum eða tilfinningasemi. Í þessum efnum verður yfirvegun og köld raunhyggja að ráða. Gerðir samningar við önnur ríki verða ekki ógiltir eins og hendi sé veifað. Þess vegna veltur á miklu að Íslendingar geri sér góða grein fyrir stöðu sinni í framtíðinni með sérstöku tilliti til hinnar miklu samsteypuþróunar ríkja í fáar en stórar heildir. Fyrir Íslendinga gildir í þessum efnum hið forna spakmæli: Flýttu þér hægt.