29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5088 í B-deild Alþingistíðinda. (3439)

108. mál, opinber ferðamálastefna

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þarf nú raunar ekki að koma í ræðustól til þess að lýsa stuðningi mínum við þá afgreiðslu sem hefur orðið í þessari nefnd því eins og sjá má er nafn mitt meðal flm. þessarar till. sem nú er verið að afgreiða hérna.

Reyndar verður að segjast eins og er að þegar hv. 1. flm. hafði samband við mig, bar undir mig þessa till. og bauð mér að gerast meðflytjandi, þá fannst mér í fyrstu að þetta mundi vera óþörf till. því hér væri í raun og veru aðeins verið að þrýsta á um framkvæmd samþykktar Alþingis frá því vorið 1986 sem minnst er á í grg. Við nánari athugun fannst mér þó sem mætti segja að þessi till., sem nú er hér til afgreiðslu og síðari umr., taki til víðara sviðs en till. frá 1986, auk þess sem sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

Ég hlýt því að fagna afgreiðslu þessarar till. ef hún fer sem lagt er til. Ég hef nú reynt að sinna ofurlítið ferðamálum á ýmsa vegu í starfi mínu hér á Alþingi og er áhugi minn á ferðaþjónustu m.a. tilkominn vegna þess að ferðaþjónusta býður upp á margvísleg störf sem henta konum einkar vel. Við kvennalistakonur höfum hins vegar haft af því miklar áhyggjur hvað hið opinbera hér á landi vanrækir ferðaþjónustu sem atvinnugrein svo mikilvæg sem hún þó er í þjóðarbúskapnum, en ekki síður með tilliti til þeirra spjalla sem verða á dýrmætri náttúru lands okkar ef ekki er sinnt fyrirbyggjandi ráðstöfunum.

Þessi vanræksla hefur að okkar mati birst í ýmsum myndum. T.d. hefur Ferðamálaráð ár eftir ár verið svipt stórum hluta af lögboðnum tekjum sínum og þar með möguleikunum til þess að gegna því hlutverki sem því er falið með lögum og í fjárlögum og lánsfjárlögum þessa árs er sú stefna því miður undirstrikuð. Og ekki þarf að minna á flugvallarskattinn sem er hærri hér en víðast hvar í heiminum.

Þeir sem vilja læra til ferðaþjónustu koma nánast að tómum kofunum í íslenska menntakerfinu. Hótel- og veitingaskólinn er fjársveltur og fáir aðrir kostir í boði. Það hefur reyndar lengi staðið til að bjóða nám í ferðaþjónustu og matvælaiðju í Kópavogi og teikningar að húsnæði liggja þar á borðinu. En það hefur lítið gengið og raunar ekkert að hrinda þeim framkvæmdum af stað. Þó mun nú vera hafin eða í þann veginn að hefjast og væntanlega að aukast kennsla í greinum sem tengjast ferðaþjónustu. Það hafa verið stofnuð ferðamálasamtök úti um landið, en þau hafa ákaflega lítinn stuðning hlotið. Þau fengu að vísu stuðning í meðförum fjvn. árið 1987. Sá liður var reyndar skorinn niður í frv. til fjárlaga fyrir þetta ár, en þau munu eiga að fá einhverja mæru af öðrum lið, sem ég man nú ekki að nafngreina, sem er í fjárlögum fyrir þetta ár.

Þrátt fyrir allt hefur þó vöxtur eða viðgangur ferðaþjónustu farið langt fram úr bjartsýnustu spám og fært okkur fjölda starfa og dýrmætar gjaldeyristekjur. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur ferðaþjónustan tvöfaldað hlutdeild sína í atvinnulífi landsmanna síðasta aldarfjórðung og þetta hlutverk fer nú stöðugt vaxandi eftir nokkurra ára stöðnun. Til þess að fá samanburð við aðrar atvinnugreinar má t.d. nefna að vægi ferðaþjónustu á vinnumarkaðnum er álíka mikið og vægi málm- og skipasmíðaiðnaðar og nokkru meira en allrar bankastarfsemi í landinu. Það gegnir því vissulega furðu hversu tómlát stjórnvöld hafa verið um uppbyggingu þessarar atvinnugreinar og væri jafnvel nær að tala um niðurrif, sbr. flugvallarskattinn illræmda og harkalegan niðurskurð lögboðins framlags til ferðamála.

Kvennalistinn hefur haft tvívegis frumkvæði að flutningi tillagna á Alþingi til að reyna að ná fram aðgerðum og úrbótum í ferðaþjónustu. Sú fyrri hafði fyrst og fremst þann tilgang að efla Ferðamálasjóð og fékkst ekki samþykkt. Sú síðari var flutt árið 1986 og voru flm. einnig úr öðrum flokkum, þ.e. úr öðrum flokkum stjórnarandstöðu. Sú till. var svo samþykkt 22. apríl 1986, þ.e. fyrir bráðum tveimur árum, en samkvæmt henni var samgrh. falið að láta gera úttekt á aðstöðu til ferðaþjónustu á helstu ferðamannastöðum í einstökum landshlutum. Úttektin skyldi m.a. ná til gistiaðstöðu, veitingaþjónustu, samgangna, leiðsögu og leiðamerkingar, eftirlits, aðgangs að áhugaverðum stöðum, upplýsingaþjónustu og hreinlætisaðstöðu. Verk þetta skyldi unnið í samráði við ferðamálasamtök landshlutanna og áætlun um úrbætur gerð á grundvelli þeirrar athugunar. Þannig vildum við reyna að treysta grunninn undir þessari atvinnugrein og koma til móts við þann áhuga sem er mikill víða um land á uppbyggingu ferðaþjónustu. En það sem okkur hefur fyrst og fremst þótt skorta fyrir utan nauðsynlegt lánsfjármagn eru upplýsingar og ráðgjöf um hvað helst vantar og hvernig á að standa að framkvæmdum. Úr því skyldi bætt með þeirri könnun og áætlanagerð sem fólst í tillögu okkar sem var samþykkt á Alþingi fyrir tæpum tveimur árum.

Þessi till. hefur nú verið framkvæmd að hluta til og er árangur þess verks að finna í skýrslu samgrn. sem kom út í mars á sl. ári og ber heitið Úttekt á íslenskum ferðamálum. Vonandi hafa einhverjir hv. þm. þegar kynnt sér þessa skýrslu og alveg áreiðanlega hv. síðasti ræðumaður. Vissulega er þar ýmsan fróðleik að finna, en eins og segir í inngangi skýrslunnar gefur hún ekki svör við öllum þeim atriðum sem ályktunin fól í sér. Þar segir einnig að ráðuneytið vonist til þess að skýrslan veki umræður um stöðu ferðamála á Íslandi nú og framtíð þeirra og á grundvelli hennar verði hægt að vinna að frekari stefnumótun í þessari atvinnugrein. Loks segir í niðurlagsorðum inngangsins að ráðuneytið sé reiðubúið að leggja sitt af mörkum við þetta starf og leggi í því tilliti sérstaka áherslu á áframhaldandi samvinnu við ferðamálasamtök landshlutanna.

Sú nefnd, sem minnst er á í tillgr. sem er á þskj. 112 og er nú hér til umfjöllunar og afgreiðslu, mun hafa verið skipuð að mér virðist til þess að móta tillögur á grundvelli þessarar skýrslu, en reyndar hafði verið svo hljótt um hana að ég vissi ekki um tilvist hennar fyrr en þegar undirbúningur þessarar þáltill. var í gangi. En nú hefur hv. síðasti ræðumaður upplýst okkur um störf þeirrar nefndar. Ég hafði ætlað mér að spyrja hæstv. samgrh. um störf þessarar nefndar, hvað þeim líði og hvenær hann ætlaðist til að hún lyki störfum og legði fram sínar tillögur og ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með þær upplýsingar sem komu fram í máli hv. síðasta ræðumanns og um leið hlýt ég að láta í ljósi von um að Eyjólfur hressist og það verði gert eitthvað í því að ljúka þessu máli með sæmd.