29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5090 í B-deild Alþingistíðinda. (3440)

108. mál, opinber ferðamálastefna

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það gleður mig að margir hv. alþm. hafa mikinn áhuga á ferðamálum og þar á meðal hv. síðasti ræðumaður. Það vantar í sjálfu sér ekki að hér á hv. Alþingi séu fluttar ýmsar tillögur í þessum efnum og þessum málum alloft hreyft. Hitt er rétt að undanfarin ár hefur tekjustofn til ferðamála verið skertur verulega ár eftir ár. Það er svo sem ekki til fyrirmyndar, en sú regla hefur tíðkast í mörgum fleiri málaflokkum.

Það er hverju orði sannara að það er brýnt að búa vel að þessum málum og veita til þeirra nægu fé. Af því að hv. síðasti ræðumaður vék sérstaklega að skýrslu sem samgrn. gaf út á síðasta ári, þá má geta þess að það mun hafa verið í mars 1987 sem ráðuneytið gaf út skýrslu um ferðamál undir heitinu Úttekt á íslenskum ferðamálum. Sú skýrsla er ítarleg og fylgdi í kjölfar þál. sem samþykkt var á Alþingi vorið 1986. Í þeirri þál. segir að á grundvelli slíkrar úttektar skuli gerð áætlun um úrbætur. Og það var einmitt hlutverk þeirrar nefndar sem ég talaði um í fyrri ræðu minni. En jafnframt var okkur falið að vinna að tillögum um ferðamálastefnu.

Þessi nefnd sem ég tók að mér formennsku í var skipuð af samgrn. 23. júní 1987. Með mér í nefndinni eru Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri, Sigríður Ingvarsdóttir deildarstjóri, Óli Þór Ólafsson ferðamálafulltrúi og Reynir Adolfsson ferðamálafulltrúi, þannig að ég vænti þess að þarna megi tala um hóp af ágætu fólki sem á að vinna að þessum málum. Meira skal ég ekki segja um störf nefndarinnar en ég áðan sagði að öðru leyti en því að ég tel það að sjálfsögðu skyldu nefndarinnar að vinna í takt við hæstv. núv. ríkisstjórn og ráðamenn enda þótt hlutverk hennar sé öðrum þræði að vinna að nýrri ferðamálastefnu.