29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5093 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Frsm. atvmn. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá atvmn. um till. til þál. um að setja upp lýsingu á Suðurlandsvegi um Hellisheiði.

Nefndin hefur rætt till. á fundum sínum. Umsagnir um málið bárust frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Vegagerð ríkisins.

Nefndin leggur til að till. verði samþykkt.

Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Geir Gunnarsson og Ólafur Þ. Þórðarson.

Undir nál. rita Valgerður Sverrisdóttir, formaður, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, fundaskrifari, Eggert Haukdal, frsm., Guðmundur H. Garðarsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.

Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera könnun á kostnaði við að lýsa upp Suðurlandsveg frá Reykjavík um Hellisheiði að Hveragerði. Jafnframt verði leitað leiða til framkvæmda við verkið.“

Í umsögn Vegagerðar ríkisins segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Umferð um Hellisheiði er mikil á íslenskan mælikvarða. Árið 1986 var meðalumferð á dag 2850 bílar yfir allt árið. Er þessi vegur því með allra fjölförnustu þjóðvegum á landinu.“

Enn fremur segir í umsögninni:

„Lýsing vegarins mundi án efa draga úr vanda vetrarumferðar og hjálpa henni til að komast leiðar sinnar.“