29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5120 í B-deild Alþingistíðinda. (3468)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Tilgangurinn með þessum aðgerð um og nýgerðum kjarasamningum er sá að bæta starfskjör fólks og fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum okkar Íslendinga eða, eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsrh. kynnti þingheimi hér áðan, markmiðið er það að bæta starfsskilyrði útflutningsgreina, hamla gegn viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Eins og fram hefur komið ítrekað af hálfu ríkisstjórnarinnar var að því stefnt að stefna þessum ákvörðunum öllum saman í einn punkt, að taka þessar ákvarðanir samtímis, aðgerðir til að styrkja hag útflutningsgreinanna og þar með landsbyggðarinnar og jafnframt kjarasamninga.

Að því er varðar hlut þessara aðgerða í því dæmi er það gert með því að bæta afkomu sérstaklega fiskvinnslu. Við metum það svo að afkomugrundvöllur hennar hafi með þessum aðgerðum verið bættur sem svarar 3–31/2 milljarði kr. Stærstu þættirnir í því eru að sjálfsögðu endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts, skuldbreytingar í sjávarútvegi og vegna fyrirtækja í útflutningsiðnaði, niðurfelling launaskatts frá miðju ári sem og lækkun kostnaðar fyrirtækjanna vegna afurðalána. Þessar ráðstafanir færa til fyrirtækjanna um 1250 millj. kr., en verðbreytingu í tengslum við gengislækkun á erlendum gjaldeyri má meta upp á tæpa 2 milljarða kr. Auk þess er um að ræða ýmsar aðrar óbeinar ráðstafanir sem koma atvinnulífi í þessum greinum að gagni eins og reyndar atvinnulífi yfirleitt, svo sem eins og felst í lækkun dráttarvaxta, boðaðri vaxtalækkun og fleiri þáttum. Auk þess eru gerðar ráðstafanir til þess í framhaldi af kjarasamningunum að koma upp og verja nokkru fé til þess, 35 millj. kr., að standa undir kostnaði vegna starfsmenntunar verkafólks og enn fremur að framlengja lög og reglugerðir um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fastráðins fiskvinnslufólks, þ.e. kauptrygging þessa fólks verði greidd þegar það tekur þátt í námskeiðum á vegum útflutningsgreinanna.

Að því er varðar útfærslu þessara aðgerða í heild sinni nánar mun ég spara mér að fara um það mörgum orðum vegna þess að ég vænti þess að frv. ríkisstjórnarinnar um þessar aðgerðir í heild sinni komi til umræðu á hinu háa Alþingi þegar á morgun. Á það ber hins vegar að leggja áherslu að þessar aðgerðir byggja eftir sem áður á þeirri grundvallarstefnu í ríkisfjármálum að tryggja jöfnuð í ríkisfjármálum. Þeim vanda sem ríkissjóður stóð þess vegna frammi fyrir er mætt annars vegar með lækkun útgjalda, bæði að því er varðar útgjöld á fjárlögum og lánsfjáröflun til opinberra aðila og fjárfestingarlánasjóða á lánsfjárlögum, og með nýrri tekjuöflun. Tekjuöflunin leggst annars vegar á þá aðila sem leita eftir erlendum lántökum til langs tíma og svo í annan stað á hagnað fyrirtækja, en sú breyting er ráðgerð frá þeim lögum sem samþykkt voru fyrir áramót að skatthlutfall er hækkað úr 45 í 48%.

Ég dreg ekki dul á að mér er að því eftirsjá að það er fallið frá frv. um fyrri áfanga verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Það er hins vegar staðreynd að frv. mætti mikilli andstöðu á Alþingi og margir þm. hafa beitt sér gegn veigamiklum þáttum þess. Að vísu er það rétt að forsvarsmenn sveitarfélaga, formaður og stjórn Sambands ísi. sveitarfélaga, hafa margítrekað lýst stuðningi sínum við þetta mái. Hins vegar hafa borist allmargar umsagnir frá einstökum sveitarfélögum sem eru neikvæðar. En rökrétt niðurstaða af þeirri staðreynd að þetta frv. á ekki brautargengi að fagna hér á þingi er einfaldlega sú niðurstaða að draga það til baka að sinni og freista þess á ný að taka málið upp og þá hugsanlega í einum áfanga, þ.e. í heild sinni.

Herra forseti. Ég vil fyrst nota tækifærið og víkja nokkrum orðum að kjarasamningunum og þeim almennu efnahagsáhrifum sem þessar aðgerðir í heild sinni hafa. Það er ljóst að þegar gengið var til samningaviðræðna Verkamannasambandsins og atvinnurekenda, sem nú er lokið, voru menn á einu máli um að höfuðverkefni kjarasamninga væri að leiðrétta misgengi sem orðið hefði í launaþróun. Almenn kaupmáttaraukning á seinasta ári var meiri en dæmi eru um. Hlutur launa í þjóðartekjum hefur ekki verið jafnhár fyrr. Vandinn var hins vegar sá að einstakir hópar launafólks, ekki síst í fiskvinnslu, höfðu ekki fengið þann hlut sem þeim bar. Þetta setur mark sitt á þessa nýju kjarasamninga.

Samningarnir markast einnig af því að afkoma útflutningsgreinanna var ákaflega veik. Þessar sérstöku aðstæður, þar sem saman fór almenn viðurkenning á því að rétta þyrfti sérstaklega hlut fiskvinnslufólks og slök afkoma frystingarinnar, hlaut að gera samningana afar erfiða. Það er því sérstakt fagnaðarefni að það skuli hafa tekist niðurstaða um samningagerð án ófriðar á vinnumarkaði. Við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum er ljóst að hörð átök hefðu getað orðið og hefðu getað leitt til hrapallegrar niðurstöðu. Þetta var þess vegna vandaverk og ég læt einfaldlega í ljós þá ósk að niðurstaðan af umfjöllun um þessa kjarasamninga verði hleypidómalaus og að menn sjái að þessir samningar við þessar erfiðu aðstæður eru þeir skynsamlegustu sem unnt var að gera í stöðunni.

Menn hafa farið hér nokkrum orðum um einstaka þætti að því er varðar t.d. lækkun framlaga á fjárlögum til framkvæmda svo sem eins og til vegamála eða húsnæðismála. Ég vil sérstaklega nefna það að því er varðar húsnæðismál að innan skamms tíma er að vænta tillagna frá nefnd sem hæstv. félmrh. hefur skipað og fengið hefur það verkefni að taka til skoðunar grundvallarþætti húsnæðislánakerfisins. Það er orðin nokkuð breið samstaða um að þetta kerfi fái ekki staðist til frambúðar. Í ljósi þessa er þess að vænta að það kerfi verði tekið til heildarendurskoðunar ekki seinna en á næsta hausti þannig að það komi aftur í hlut Alþingis að setja um það viðamikla löggjöf fyrir upphaf næsta árs.

Að því er varðar lánsfjárlög er þess að geta að sú lækkun á lánsfjáröflun opinberra aðila og fjárfestingarlánasjóða er nær því lánsfjárlagafrv. sem sett var fram af hálfu ríkisstjórnarinnar í upphafi þings. M.ö.o.: það má segja að að nokkru leyti hafi verið eytt þeim slaka sem kom í það mál samkvæmt niðurstöðum umfjöllunar Alþingis og meiri hluta þess.

Menn hafa að sönnu miklar áhyggjur af viðskiptahallanum sem spáð var að gæti farið vel yfir 10 milljarða kr. Það er ástæða til að vekja athygli á því að með í þessum tölum um viðskiptahalla erum við að ræða um óhagstæðan vaxtajöfnuð upp á 6,3 milljarða kr. og sérstakan innflutning, þá fyrst og fremst skip og flugvélar, sem er um rúmlega 31/2 milljarður kr. Með þessum aðgerðum er þess að vænta að viðskiptahallinn fari úr 4–6% af vergri landsframleiðslu niður í 3,3% af vergri landsframleiðslu, þ.e. verði í svipuðu horfi og á síðasta ári. Fjarri sé mér að ætla að sá árangur sé viðunandi, en engu að síður er það rétt að með þessum aðgerðum er innan hins þrönga svigrúms hamlað gegn viðskiptahallanum sem samkvæmt mati fjmrn. gæti lækkað niður í 8,2 milljarða kr.

Að því er varðar verðlag gerir verðlagsspá ráð fyrir að verðhækkun frá upphafi til loka þessa árs verið rétt tæplega 16% á mælikvarða framfærsluvísitölu samanborið við 26% hækkun á síðasta ári. Jafnframt dregur verulega úr hraða verðbreytinga þegar komið er fram yfir mitt ár og áhrif gengisbreytingar og upphafshækkunar launa í kjarasamningum eru komin fram. Ef ekkert óvænt kemur upp á má reikna með að verðbólguhraðinn verði kominn niður undir 10% á síðasta ársfjórðungi samanborið við um og yfir 30% um áramót.

Í þeim kjarasamningum sem þegar hafa verið gerðir felst að því er virðist óbreyttur kaupmáttur dagvinnulauna verkafólks frá upphafi til loka þessa árs. Kaupmáttur lægstu launa gæti jafnvel heldur aukist. Hins vegar verður kaupmáttur launa að meðaltali nokkru lægri á þessu ári en í fyrra, e.t.v. um 3% á mann. Hér þarf hins vegar að hafa í huga að árið 1987 var um margt afar sérstakt. Þar fóru saman hagstæðar ytri aðstæður og mikil mannekla. Hvort tveggja kynti undir mikilli þenslu og kröftugri hækkun launa. Jafnframt hefur „skattlausa árið“ vafalaust stuðlað að aukinni ásókn í aukavinnu. Allt þetta lagðist á sömu sveif og leiddi til mikillar hækkunar launa og einnar mestu kaupmáttaraukningar á einu ári sem orðið hefur.

Þegar menn spyrjast fyrir um hvaða áhrif þessar aðgerðir hafi á afkomu í sjávarútvegi er rétt að rifja upp að frystingin var talin vera rekin með um 7–8% halla og söltun og útgerð hafi rétt hangið fyrir ofan núllpunkt. Með þessum aðgerðum, sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið, batnar afkoma fiskvinnslunnar verulega. Lauslega áætlað gæti frystingin verið komin upp undir núllpunktinn, söltun að sama skapi í nokkurn hagnað. Hins vegar hefur afkoma útgerðar heldur versnað og má reikna með því að þar verði nokkur halli þegar afleiðingar af þessum aðgerðum í heild sinni eru fram komnar.

Herra forseti. Að lokum vil ég leggja á það áherslu, sem kemur fram í stefnuyfirlýsingunni, að ríkisstjórnin muni beina þeim tilmælum til sveitarstjórna og annarra framkvæmdaaðila að þessir aðilar leggist á eitt um að draga úr framkvæmdum meðan verið er að ná árangri í að keyra niður þensluna. Ég tel að með þessum aðgerðum hafi ríkisstjórnin gert sitt til þess, bæði með því að lækka bein útgjöld, draga úr lánsfjárnotkun sinni og geti því með auknum rétti beint þeim tilmælum til annarra, sem látið hafa sinn hlut eftir liggja, þ.e. sveitarfélaga og ýmissa aðila í atvinnulífinu, að þeir leggist á eitt með aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórn um að ná fram meginmarkmiðinu sem er að verulega dragi úr verðbólgu þegar líða tekur á árið.