29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Aðeins út af því sem hv. 7. þm. Reykn. sagði um að færðar hafi verið til línur, þá er það rangt hjá honum og ósmekklegt af honum að vera með slíkar dylgjur hér. Ég vil einnig upplýsa hann um það að togarinn Ingólfur hefur ekki verið seldur til Hornafjarðar heldur mun hann hafa verið seldur til Vestfjarða og mér hafa borist spurnir af því að hann muni vera til sölu. Það var annar togari seldur til Hornafjarðar og hann hét Erlingur.

Ég vil minna á að einnig hefur verið seldur togari innan þessa svæðis frá Suðurnesjum og fyrir hátt verð. Hitt er svo annað mál að auðvitað er hér um vanda að ræða en ég fullyrði það að jafnvel þó að sá togari sem hér á í hlut hafi haft meiri fiskveiðiheimildir í þorski, þá hefur það ekki leyst hans mál. Það er aðalatriðið í þessu og það á ekki að vera að reyna að blanda óskyldum atriðum saman.

Ég vil einnig upplýsa hv. 6. þm. Suðurl. um að það eru alveg sömu reglur um báta á Suðurlandi og Norðurlandi, þar er enginn munur á. Það er enginn munur á þessu í bátaflotanum. Það sem hefur hins vegar gerst er það að mikil rækjuveiði hefur verið fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum og það hefur stuðlað að flutningi skipa. Í þessu sambandi vil ég minna á að ég hef legið undir miklu ámæli frá Vestfirðingum og Norðlendingum að ég skyldi leyfa mér það að heimila nokkrum aðilum á Suðurnesjum að vinna rækju af sínum bátum. Það hefur e.t.v. ekki farið fram hjá aðilum, sú gagnrýni sem þar hefur komið fram. Sannleikurinn í þessu máli er sá að hér er um viðkvæmt mál að ræða og hætta á verulegum deilum milli landshluta. Mér finnst þessi umræða sem hér hefur komið fram benda til þess að það sé jafnvel enn meiri hætta á ferðum. Í þessu sambandi verður að minna á að það eru nú þrátt fyrir allt þau landsvæði, Vestfirðir, Norðurland, Austurland og hluti af Vesturlandi sem eru langháðust fiskveiðum. Meginhluti þjónustunnar í landinu er rekinn hér á höfuðborgarsvæðinu. Og það er ekki óeðlilegt með tilliti til þess hversu mikil aukning hefur orðið á þjónustustarfsemi í landinu að þarna hafi orðið nokkur röskun. Ég held að það sé ekki heppilegt ef menn ætla að fara að festa þetta alveg í ákveðnar viðjar. Með því er ég á engan hátt að gera lítið úr miklum vandamálum byggðarlaga á Suðurnesjum, en mörg þessara byggðarlaga eru mjög svipuð öðrum sambærilegum byggðarlögum annars staðar í landinu.

Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, hún hefur verið nokkuð fróðleg, en ég vara við því að fara að ala á einhverjum landshlutaríg í þessu máli.