01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5191 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið með því að fara mörgum orðum um efnisatriði frv. sem hér er til umræðu eða einstaka þætti þess. Það hafa aðrir hæstv. ráðherrar gert í umræðunum á undan og farið ítarlega yfir málið og einmitt þeir ráðherrar sem mest unnu að undirbúningi þessa frv. og þeirra ráðstafana sem nú er verið að grípa til.

Hins vegar var beint til mín nokkrum fsp. sem sjálfsagt er og eðlilegt að verða við að svara hér. Það var hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson sem beindi til mín fsp. um hvernig heilbrmrn. hugsaði sér að standa að þeim breytingum sem gert er ráð fyrir varðandi útgjöld hvers ráðuneytis og fram koma í skýringum við einstakar greinar frv., þ.e. þar sem fjallað er um 1. gr. og gert er ráð fyrir samdrætti í ríkisútgjöldum. Þegar tekist er á við aðgerðir eins og hér er verið að gera, þegar verið er að glíma við ráðstafanir í ríkisfjármálum og þarf bæði að leita leiða til að draga úr útgjöldum og til þess einnig að finna nýja tekjustofna til að mæta öðrum útgjöldum sem hér er lagt til að verða við þurfa allir að leggja nokkuð á sig og eðlilegt að leitað sé leiða til að finna þá þætti einhverja þar sem hugsanlegt sé að spara. Ég verð að segja að ég tel það nokkuð vel sloppið fyrir heilbr.- og trmrn., sem fer með 40% af ríkisútgjöldunum, 25 milljarða kr., að vera ættað það verkefni að draga úr útgjöldum um 50 millj. Auðvitað vildi ég gjarnan vera laus við það. Ég tel hins vegar að það sé ekki óeðlilegt að við tökumst á við þetta verkefni einnig. Það sem hér liggur fyrir er annars vegar að lækka framlög til K-byggingarinnar um 20 millj. kr. og lækka framlög vegna lyfjakostnaðar og sérfræðiþjónustu um 30 millj.

Ég mun reyna að gera nokkra grein fyrir því hvernig þetta er hugsað þó svo að það hafi ekki verið rætt eða útfært í smáatriðum því að það er skammt síðan þetta kom á borð hjá mér og við höfum ekki fjallað um það til loka hvernig að málinu verði staðið. En það sjá allir og vita að fjárveitingar til fjárfestinga í heilbrigðismálum eru ekki stórar upphæðir.

Ef tínt er til það sem rennur til ríkisspítala, til einstakra sjúkrahúsa, til bygginga sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og til Framkvæmdasjóðs aldraðra er hér samtals um 660 millj. kr. að ræða. Þetta eru ekki stórupphæðir borið saman við sumar aðrar fjárfestingartölur sem maður hefur heyrt talað um í þjóðfélaginu að undanförnu. Stærsta einstaka falan er framlag til K-byggingarinnar upp á 171,2 millj. Þegar farið var yfir þennan lista varð ljóst að það væri erfitt að glíma við að lækka aðrar tölur. Auðvitað er erfitt að lækka þessa tölu líka. Ef ég tek sem dæmi liðinn Bygging sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, þar sem í heildina var varið 214,8 millj. kr., er stærsta einstaka fjárveitingin í þeim lið til fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði 26,9 millj. Eins og málum hefur háttað þar að undanförnu sjá allir og vita að það er ekki hægt að skerða þann lið og ekki aðra sem eru smærri, allt niður í nokkur hundruð þús. kr. Ég lít einnig svo á að það sé fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu sem við þurfum að takast á við þenslu og útgjöld ríkisins til fjárfestinga og þess vegna hafi ekki verið óeðlilegt að horfa fyrst og fremst til þessa stærsta einstaka liðar sem ég nefndi áðan þó að það sé ljóst að það er líka mjög brýnt að koma þeim framkvæmdum áfram.

Varðandi K-bygginguna, þá eru þrjú útboðsverk þar í gangi. Hið fyrsta er frá fyrra ári og er upp á tæpar 80 millj. kr. Annað er rúmar 30 millj. og er verið að semja við verktaka um þessar mundir. Það þriðja upp á 7 millj. kr. er enn ósamið um, en búið er að opna tilboðin. Þessi þrjú útboðsverk eru þá samtals upp á 117 millj. Önnur verkefni sem tengjast þessum framkvæmdum eru í grófum dráttum þannig að um er að ræða breytingar innan húss, sem tengjast framkvæmdunum við nýbygginguna, upp á 5 millj., lóðaframkvæmdir upp á 5 millj., utanhússframkvæmd, smáupphæð, upp á 2 millj., kaup á húsbúnaði og vegna símstöðvar 11 millj., kaup á tækjum 20 millj. og eftirstöðvar eða lokagreiðsla vegna línuhraðals upp á 11 millj. Þetta sýnist mér vera um það bil 55 millj. eða samtals nánast sú upphæð sem gert er ráð fyrir í fjárlögum að renni til K-byggingar. Þarna má líka öllum vera Ijóst að það er ekki hægt um vik að skerða þessar upphæðir mikið. Þó er það mín hugmynd að það megi fresta framkvæmdum við innanhússbreytingarnar og fresta framkvæmdum við lóðina og draga eitthvað úr tækjakaupum og húsbúnaði og ná þannig samtals þeim 20 millj. sem hér er gert ráð fyrir.

Varðandi hinn liðinn sem spurt er um, sem er framlag vegna lyfjakostnaðar og sérfræðiþjónustu upp á 30 millj. kr., langar mig að nefna fyrst að þetta eru þeir tveir útgjaldaliðir í heilbrigðisþjónustunni sem hækkað hafa mest á undanförnum árum hlutfallslega. Þeir hafa hækkað langt umfram aðra útgjaldaliði heilbrigðisþjónustu. Þess vegna er það svo að við höfum verið með í gangi sérstaka athugun á báðum þessum þáttum og hvernig megi glíma við það að draga úr kostnaði.

Varðandi lyfin hefur verið sérstök nefnd að störfum sem hefur haft viðamikið verkefni að glíma við, að fara yfir verðmyndunina og ekki bara verðmyndunina heldur einnig neysluvenjur, ávísanavenjur lækna og alla aðra þá þætti sem tengjast lyfjaneyslunni. Um helgina síðustu, er þessi mál voru til umræðu, átti ég tal við formann nefndarinnar og við ræddum hvaða hugmyndir væru þar á borðinu og hvenær líklegt væru að tillögur kæmu frá nefndinni. Hún átti reyndar að hafa lokið störfum um sl. áramót, en því miður tókst það ekki, en það mun vera mjög á næstunni sem nefndin skilar sínu nefndaráliti og nefndarmenn fullyrða að þar muni verða tillögur sem leitt geti til lækkunar á lyfjakostnaði. Þar er auðvitað um það að ræða m.a. að átta sig á því hvernig lyfjaverðið er upp byggt og þá auðvitað að framkvæma breytingar á því. Það þýðir lítið að fá nefndarálit og stinga þeim niður í skúffu ef menn ekki þora að takast á við þær tillögur sem þar eru settar fram. Eitt sem sérstaklega kom upp í þessum umræðum og mér hefur verið bent á er að lyf með hliðstæðar eða sömu verkanir eru mjög misdýr. Læknar hafa haft afar erfiðar aðstæður og ógreiðan aðgang að upplýsingum um þetta. Hugmyndir eru uppi um að koma á svokallaðri samheitalyfjaskrá sem auðveldi þeim sem skrifa lyfseðlana að ávísa fremur á hin ódýrari lyf en hin dýrari. Auðvitað væri hægt að hugsa sér, þó að ég sé ekki á þessu stigi uppi með tillögur um slíkt, að greiðslurnar væru miðaðar við ódýru lyfin eða eitthvert meðaltal en ekki hin dýrustu. Þetta gæti verið ein leiðin, en þetta set ég fram sem hugmynd en ítreka það að auðvitað er eftir að skoða ítarlega hvernig að þessu verði staðið.

Varðandi sérfræðiþjónustuna kom það fram hjá hæstv. sjútvrh. áðan að sérfræðiþjónustan hefur á undanförnum árum hækkað verulega og langt umfram aðra liði heilbrigðisþjónustunnar og laun sérfræðinga eru í mörgum tilfellum úr öllu samræmi og úr takt við launagreiðslur aðrar í þjóðfélaginu. á þessu varð nokkur breyting fyrir líklega þremur eða fjórum árum að aðgangur var gerður frjálsari, ef það má orða það þannig, að sérfræðiþjónustunni og það þurfti ekki lengur tilvísanir frá heimilislæknum eða heilsugæslulæknum til að fara til sérfræðings. Þetta form þarf að taka til skoðunar aftur. Þetta var gert til reynslu til að byrja með. Reyndar er það svo að þetta brýtur í bága við lög þannig að það verður að taka á þessu máli sérstaklega. Ég hef hugsað mér að það kunni að verða einn liðurinn í þeim aðgerðum sem þarf að grípa til. Þetta varðar að sjálfsögðu samninga Tryggingastofnunarinnar við sérfræðingana og er óhjákvæmilegt að taka á þeim málum.

Hv. 7. þm. Reykv. spurði sérstaklega um og nefndi væntanlegar hækkanir á kostnaði einstaklinga, sjúklinga og þeirra sem þurfa að nota lyf, kostnaði sem þeir þurfa sjálfir að bera við þessa þjónustu, bæði við lyfin og eins í sambandi við heimsóknir til sérfræðinga og eða heimilislækna. Það hafa ekki verið uppi hugmyndir um að hækka þær greiðslur. Ég vil hins vegar benda á að heimsókn til heimilis- eða heilsugæslulæknis kostar nú um 150 kr., en til sérfræðings kostar það 500 kr. Hér er verulegur munur á. Auðvitað eiga menn tök á því í mörgum tilfellum að leita til heimilislæknis, þó alls ekki öllum, enda væri þá lítið að gera með sérfræðinga ef það dygði ávallt að leita aðeins til heimilislæknanna. En í mörgum tilfellum hygg ég að það sé nóg og heimilislæknar eða heilsugæslulæknar geti leyst vanda margra sjúklinga sem fara í dag til sérfræðinga. Það mætti einnig hugsa sér mun á greiðslum til sérfræðinga eftir því hvort viðkomandi fer í slíka heimsókn með tilvísun frá heimilis- eða heilsugæslulækni eða ekki.

Fyrir lyf greiða menn í dag 400 kr. aðrir en aldraðir og öryrkjar sem greiða 130 kr. Vegna þess að hv. þm. nefndi það hér að lyf og þessar greiðslur hefðu hækkað um áramótin um 100% vil ég taka fram að hér er leikið sér nokkuð frjálslega að tölum. Það er hægt að finna fyrir því dæmi að þessi kostnaður hafi hækkað um 100%. Það er þegar innlend sérlyf hækkuðu úr 200 kr. í 400 kr. Hluti af þessu er þannig til kominn að það var ákveðið að breyta greiðslum fyrir lyf og hafa aðeins eitt gjald í staðinn fyrir tvö sem voru áður og það var mismunun á því hvort væri um að ræða innlend lyf eða erlend lyf. Ég ætla ekki að eyða tíma í að rekja hér ástæður þess eða fjalla um það sérstaklega, enda er það ekki mergurinn málsins heldur það að hér var tekið upp eitt gjald. Hækkunin á erlendu lyfjunum var aðeins úr 350 kr. í 400 kr. eða um 14,3%. Notkun innlendu lyfjanna er sáralítið hlutfall, líklega um 15% af heildarlyfjanotkuninni þannig að það eru líka sárafáir sem þurfa að búa við þessa 100% hækkun. En ef við lítum aðeins á hækkunina hjá öldruðum og öryrkjum hækkuðu innlendu lyfin úr 80 kr. í 130 eða 62%, en erlendu lyfin, sem er auðvitað það sem menn nota eingöngu eða kannski 85% af allri lyfjanotkuninni, úr 120 kr. í 130 eða 8,3%. Þessu sleppti hv. þm. þó hann vissi það reyndar vel því hann skrifaði „ágæta“ grein um þessi mál á dögunum í DV og greindi þar ítarlega frá þessu öllu. Hluti af hækkuninni var aðeins 8,3% þó finna megi dæmi um 100% hækkun. En ég ítreka að það hafa ekki verið uppi hugmyndir um að hækka þessi þjónustugjöld.

Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi hér svarað þeim fsp. sem til mín var beint. Ég ítreka að auðvitað á eftir að vinna nánar í því hvernig þetta verður útfært. Það liggur nokkurn veginn fyrir hvernig þessum 20 millj. til K-byggingarinnar verður náð, en ég geri mér vonir um að um það náist bærilegt samkomulag. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að það kostar auðvitað átök að ná þessu fram í lyfjakostnaði og sérfræðiþjónustu, en ég vænti þess að við getum jafnvel náð meiri sparnaði en hér er þó lagt til og tel að það væri æskilegt og reyndar nauðsynlegt. Ég vona að í því efni njóti ég góðrar aðstoðar þeirra fulltrúa og hv. þm. sem sæti eiga í stjórnarnefnd ríkisspítalanna því að auðvitað heyrir hluti af þessu máli þar undir, svo sem eins og vinna sérfræðinga innan sjúkrahúss og utan, og er það sérmál sem við eigum ábyggilega eftir að ræða um síðar, en ég ætla ekki að eyða tíma í að gera frekar hér að þessu sinni.