29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

23. mál, einnota umbúðir

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni er hér hreyft ákaflega mikilvægu máli sem hlýtur að snerta okkur öll. Ég þakka flm., og hv. 1. flm. sem var framsögumaður fyrir þessari till., fyrir þeirra ábendingar sem hér koma fram.

Hitt verð ég að segja að ég er ofurlítið undrandi á því að drög að reglugerð um þessi mál, sem enn þá er í vinnslu hjá Hollustuvernd ríkisins og hefur ekki enn verið sýnd eða kynnt í heilbrrn., skuli vera notuð hér í umræðum og einnig að hluta til í grg., upplýsingar úr þessum hugmyndum sem enn þá hafa ekki, eins og ég segi, verið lagðar fram til neinnar umfjöllunar. Ég er ekki með því að gera neitt lítið úr þessu máli, síður en svo. Þetta sem er til umræðu í þessari þáltill., að undirbúa frv. til laga um framleiðslu, innflutning og notkun á einnota umbúðum, er afar mikilvægt.

Snemma á þessu ári hóf Hollustuvernd ríkisins athugun á notkun einnota umbúða hér á landi og beinist þessi athugun sérstaklega að umbúðum fyrir ýmsar drykkjarvörur sem þegar eru orðnar lýti á umhverfinu eins og við sjáum öll og hefur þegar komið fram í umræðum hér.

Stofnunin aflaði sér upplýsinga um magn umbúða ásamt því að fá gögn frá nágrannaþjóðum og lög og reglugerðir á þessu sviði. Það hefur orðið veruleg aukning á notkun einnota umbúða á síðustu árum og ekki síst á yfirstandandi ári. Á vegum Hollustuverndarinnar var vakin athygli á málinu í fréttatilkynningu á sl. sumri og almenningi bent á að betri umgengni væri nauðsynleg til þess að forðast umhverfisspjöll.

Jafnframt hóf stofnunin samstarf um málið við Náttúruverndarráð og Landvernd eins og einnig hefur verið bent á og menn auðvitað vita sem þar eiga sæti og hafa um fjallað.

Frá þessum aðilum kom síðan 1. september greinargerð og tillögur sem teknar voru fyrir í stjórn Hollustuverndar ríkisins í september sl. Fól stjórn Hollustuverndarinnar mengunarvarnadeild stofnunarinnar að undirbúa drög að reglugerð um einnota umbúðir fyrir öl, gos og svaladrykki. Það voru einmitt þessi reglugerðardrög sem ég var að ræða um áðan. Þau voru lögð fram á síðasta fundi stjórnar stofnunarinnar og verða rædd þar á næsta fundi sem fyrirhugaður er í lok þessa mánaðar og þaðan síðan afgreidd til ráðuneytisins til umfjöllunar og þá auðvitað athugunar á því hvort ekki þarf jafnframt því að setja slíka reglugerð að breyta lögum.

Helstu atriði í þessum drögum eru m.a. framleiðslu- og markaðsleyfi, merking á umbúðum, þessi gjaldtaka sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, þ.e. bæði hugsanlega gjald vegna endurnotkunar og eins framleiðslugjald vegna einnota umbúða, og svo einnig hvort heimilt væri að nota þessi gjöld til umhverfismála sem sjálfsagt væri líka brýnt eða nauðsynlegt ef menn eru á annað borð sammála um að marka þannig tekjustofna til einstakra verkefna. Þó getur verið álitamál hvort rétt er að standa þannig að málum.

Eftir því sem ég best veit skortir í raun lagaheimildir til að krefjast þessara gjalda, þ.e. endurnotkunargjalds og framleiðslugjalds, á þessar umbúðir. Það eru a.m.k. ekki fyrirmæli um slíkt í lögum nr. 109 frá 1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en í 3. gr. þeirra laga er einmitt að finna grundvallarákvæði íslenskra laga um mengunarvarnir. Í flestum nágrannalöndum okkar hafa verið settar reglur um notkun einnota umbúða og endurnýtingu þeirra og hvaða efni megi nota í slíkar umbúðir. Áldósir eru t.d. alfarið bannaðar í Danmörku sem öl- og gosdrykkjaumbúðir. Hér á landi eru engar reglur um framleiðslu né notkun einnota umbúða fyrir umrædda vöruflokka.

En það er, eins og fram kom reyndar, a.m.k. hjá hv. síðasta ræðumanni og sjálfsagt þeim öðrum sem hér hafa tekið til máls, fleira en þessar einnota umbúðir sem nú valda okkur nokkrum áhyggjum og kannski hugarangri varðandi verndun umhverfisins. Það eru einmitt bílhræin sem nú safnast upp, ekki síst í kjölfar stóraukinnar bílaeignar landsmanna. Söfnun og úrvinnsla þessa brotajárns er áhyggjuefni vegna þess að endurvinnsluverðmætið er of lágt til þess að geta staðið undir söfnuninni og endurnýtingu. Það hafa því einnig verið uppi umræður um það í heilbrrn. hvernig best yrði að þessu máli staðið og hvernig við getum tekið á því eða komið á skipulegri söfnun þessa brotajárns.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar skipað nefnd til að fjalla um umhverfismál og hvort og hvernig megi koma þeim fyrir í okkar stjórnkerfi, hvort þau verði falin einhverju einstöku ráðuneyti sem deild eða hvernig best verði að því staðið. Ég teldi að þeim ákvæðum eða tilmælum sem við þurfum á að halda í lagasetningu varðandi bæði einnota umbúðirnar og annað það sem ég hef rætt væri best fyrir komið í lögum um yfirstjórn umhverfismála sem unnið er að á vegum þessarar stjórnskipuðu nefndar og henni hefur verið falið að gera tillögur um fyrir næstu áramót. Ég tel að þessi till. til þál., sem hér er lögð fram, sé einmitt gott innlegg í umræðuna og verkefni fyrir þá nefnd sem nú fjallar um yfirstjórn umhverfismála.