01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5264 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er alveg ótrúleg málafylgja hæstv. félmrh. Mér þykir hæstv. ráðherra vera í meira lagi hörundsár. Hún kemur hér upp kvartandi og kveinandi og hefur þó varla lent í nokkrum andbyr enn þá. Ekki lét hæstv. fyrrv. félmrh. svona þó að sett væri fram einhver gagnrýni á verk hans. Það er hart við það að búa að ekki megi fjalla um verk ráðherrans án þess að ráðherrann umturnist. Hæstv. ráðherra verður bókstaflega að hafa þolinmæði til þess að hlusta á samstarfsmenn sína.

Ef Alþfl. væri í hreinum meiri hluta hér í þinginu ætti hún bara við flokksbræður sína um framgang áhugamála sinna. En eins og sakir standa, og guði sé lof hefur Alþfl. ekki meiri hluta, kemst hæstv. félmrh. ekki hjá því að leita samkomulags um ágreiningsmál. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra væri að hóta afsögn þar sem hún var að tala um að henni væri að verða óbærilegt að sitja þarna í ráðuneytinu. Þetta finnst mér að hún ætti að ræða við flokksbræður sína en það eigi ekki erindi við okkur samstarfsmenn. Alþfl. fer með félmrn. meðan á þessu samstarfi stendur að óbreyttum málefnasamningi.

Við framsóknarmenn viljum gjarnan hafa gott samstarf við hæstv. ráðherra um hennar mikilvæga málaflokk. Samstarf viljum við og við höfum lagt okkar af mörkum til þess. Við sýndum henni mikið umburðarlyndi núna um daginn þegar við heimiluðum eftir á framlagningu frv., þ.e. hvorki heimtuðum að hún drægi frv. til baka, úr því að hún var búin að leggja það fram, né heldur sendum henni skriflega ofanígjöf. En hún kemst bara ekki hjá því, hún verður að temja sér þolinmæði og hlusta á viðhorf okkar og bíða með framlagningu frv. sinna í framtíðinni þangað til formleg heimild frá þingflokki framsóknarmanna liggur fyrir. Ef hún ekki gerir það getur hún búist við og má reikna með einhverjum viðbrögðum af okkar hálfu og þetta er sagt, vona ég, áreitnislaust og í fyllstu vinsemd. Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra fái tækifæri til þess að njóta sín í sínu mikilvæga ráðherraembætti. Ég veit að hún hefur ýmsa burði til þess að gera þar vel og ég veit að hún vill gera vel, en til þess að ná árangri þarf hún að temja sér meira umburðarlyndi og lagni í samstarfi við okkur. (ÁrnG: Það þyrftu nú fleiri að gera það, hv. þm.)