29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

28. mál, könnun á jarðvarma og ferskvatni á Vesturlandi

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 28, um könnun á jarðvarma og ferskvatni á Vesturlandi. Till. er þess efnis að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta fram fara samræmda könnun á jarðvarma og fersku vatni á Vesturlandi í samvinnu við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Markmið slíkrar könnunar verði að safna upplýsingum um vatnsforða af heitu og köldu vatni er hagnýta megi m.a. í þágu fiskeldis, til eflingar byggðar og búsetu á Vesturlandi.

Till. þessi var flutt á síðasta þingi. Þá voru flm. auk mín alþm. Valdimar Indriðason og Sturla Böðvarsson. Tími vannst ekki til að fjalla um málið á því þingi. Því er till. endurflutt nú. Henni fylgdi grg. sem henni fylgir einnig nú, og vil ég leyfa mér að drepa á örfá atriði úr þeirri grg. og um málið almennt.

Það er alkunna að mikil byggðaröskun hefur orðið á landi hér á undanförnum árum og að þungur fólksstraumur hefur legið utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur og Suðurnesja. Um þessar mundir er sérstök ástæða til að athuga þessi mál þar sem kvótareglur sníða mönnum þröngan stakk til sjávar og sveita svo að mörgum þykir hart við að búa. Því eru ríkar ástæður til þess að kanna ný viðhorf til úrbóta. Oft er rætt um nauðsyn þess að gera atvinnulífið fjölbreyttara í þeim tilgangi að tryggja atvinnu og búsetu í byggðum landsins og efla hag þjóðarbúsins. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að þekkja landið sem best, náttúru þess, verðmæti og möguleika til landnýtingar. Margt er lítt kannað í þessum efnum og víða skortir frumrannsóknir. Það er mjög brýnt að slíkum rannsóknum verði flýtt eftir föngum svo að ljósara megi verða hverra kosta er völ.

Ýmislegt í þessari grg. er að sjálfsögðu byggt á heimildum m.a. frá Orkustofnun og upplýsingum sem komu fram á fundi sem haldinn var á vegum Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi í september 1986. Sá fundur var haldinn í Borgarnesi. Þar voru mættir sveitarstjórnarmenn af Vesturlandi, sérfræðingar frá Orkustofnun, fiskræktarmenn og ýmsir áhugamenn um fiskeldi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að til fiskeldis þarf vatn sem er hreint og ómengað. Ferskvatn og jarðhiti eru því náttúrlegar forsendur fiskeldis. Það er ekki alltaf einfalt mál að afla ferskvatns né jarðhita og því er í mörg horn að líta.

Orkustofnun kemst m.a. svo að orði í einu af ritum sínum um þessi efni að „miklu máli skipti að traustra upplýsinga um náttúruskilyrði sé aflað áður en lagt er út í stórfelldar fjárfestingar í fiskeldisstöðvum“. Þetta má öllum ljóst vera.

Að því er varðar jarðhita á Vesturlandi má segja að ýmislegt er vitað um hann frá fornu fari. Í Borgarfjarðardölum er eitt öflugasta lághitasvæði landsins. Þar hafa allmiklar rannsóknir verið gerðar og um það efni fjalla ýmis rit sem jarðhitadeild Orkustofnunar hefur látið frá sér fara. Annars staðar, svo sem í Dölum og á Snæfellsnesi, hafa litlar rannsóknir á jarðvarma farið fram þó að nokkrir jarðhitastaðir séu þekktir á því svæði. En þar eru margir áhugamenn um þessi mál, m.a. bændur, sem á eigin kostnað hafa lagt út í dýrar rannsóknir af þessu tagi á jörðum sínum, svo og aðrir atorkumenn, sem árum saman hafa unnið að fiskræktarmálum í stórum stíl, klaki, hafbeit og sjókvíaeldi, og eru nú reynslunni ríkari. Um skipulagðar rannsóknir á köldu vatni á Vesturlandi er fátt að segja. En allt eru þetta mjög áhugaverð efni og hagnýt. Þess má geta í þessu sambandi að í Bændaskólanum á Hvanneyri hefur fiskeldi og fiskrækt verið kennd í 30 ár. Þar hafa menn nú hug á að koma upp matfiskaeldi.

Það má margt segja um þessi mál og margt er að gerast í þeim efnum, sem betur fer. Til frekari útlistunar læt ég fylgja þessari till. grg. um sérverkefni Orkustofnunar tengd fiskeldi á Vesturlandi, sem fylgdu þessari till. í fyrra. En ég vil taka skýrt fram að þetta mál er jafntímabært og aðkallandi nú sem nokkru sinni áður þó að vitneskja fari að sjálfsögðu vaxandi ár frá ári. Þá má geta þess t.d. að sl. sumar var óvenjuþurrt og minnkaði þá eða þraut kalt vatn þar sem áður var talinn nægur vatnsforði. Og að því er varðar jarðhitaleit get ég ekki stillt mig um að benda á það að árangur nýlegra borana á Hvalfjarðarströnd er skýrast dæmi um gagnsemi jarðhitarannsókna. Þar er enginn jarðhiti á yfirborði. Með fremur einfaldri leitartækni tókst Orkustofnun á sl. sumri að finna og kortleggja líkleg jarðhitasvæði, annað kringum Miðsand, hitt innan við Ferstiklu. Boranir báru þann árangur að nú fást yfir 101/sek. af rúmlega 130°C heitu vatni úr borholu Hvals hf., og 281/sek. af 83°C heitu vatni úr borholu á vestara svæðinu í landi Hrafnabjarga.

Á fylgiskjali má svo lesa nánar um helstu markmið með þessari könnun og hverju verkefnin skila í aðra hönd. Á undanförnum árum hefur farið fram víðtæk og ört vaxandi starfsemi að fiskræktarmálum á Vesturlandi, bæði í sjó með ströndum fram, allt frá Hvalfirði til Gilsfjarðar og á fjölmörgum stöðum við ár og vötn inn til landsins, allt til jökla. Þar hafa margir áhugasamir brautryðjendur verið að verki og enn fleiri bíða færis þar sem góð skilyrði eru fyrir hendi og aukin reynsla og rannsóknir geta vísað veginn.

Ég vek athygli á því að hér er gripið á stóru og mjög margþættu máli sem ekki verður rætt hér til neinnar hlítar. En allar þær grunnrannsóknir, sem ég hef minnst á af þessu tagi, eru fjárfrekar. Þann þátt málsins verður því að athuga sérstaklega. Eðlilegt er að hið opinbera leggi fram fé til frumrannsókna á auðlindum lands og sjávar, þar á meðal á vatnsforða landsins og nýtingu hans.

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þetta í lengra máli en geri það að tillögu minni að máli þessu verði að lokinni fyrri umræðu vísað til síðari umr. og hv. atvmn.