02.03.1988
Neðri deild: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5388 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Það er alveg merkileg árátta hjá þessum hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að hann getur aldrei látið vera að snúa út úr fyrir mönnum og mér þykir satt að segja skörin vera farin að færast upp í bekkinn þegar ég er ásakaður um að hafa vegið að forseta þessarar deildar og það af hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Þetta er náttúrlega alveg í samræmi við ruglið sem hefur verið á honum í þessari umræðu allri, alveg í fullkomnu samræmi, þannig að ég á kannski ekkert að vera hissa.

Ég sagði það í ræðu minni áðan að mér þætti sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Sverrir Hermannsson hefðu með málflutningi sínum orðið Alþingi og sjálfum sér til vanvirðu og við það stend ég.