29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

28. mál, könnun á jarðvarma og ferskvatni á Vesturlandi

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Hér hefur verið flutt till. sem ég vil leyfa mér að fagna. Ég held að ekki þurfi að endurtaka það sem hér var gerð mjög góð grein fyrir. Fyrir liggur mjög góð grg. um þessa till. og ég vil því lýsa yfir stuðningi mínum við hana. Þetta er mikil spurning um atvinnu- og byggðamál fyrir Vesturland. Það þarf að tryggja hlutdeild Vesturlands í þeirri miklu uppbyggingu sem nú fer fram t.d. í fiskeldi. Þetta er reyndar sú atvinnugrein sem við bindum miklar vonir við núna, ekki síst fyrir hinar dreifðari byggðir landsins. Þær litlu rannsóknir sem gerðar hafa verið á Vesturlandi hafa leitt í ljós niðurstöðu sem menn höfðu ekki gert sér í hugarlund og þess vegna tel ég að þetta mál sé mjög þarft.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.