03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5404 í B-deild Alþingistíðinda. (3605)

307. mál, kosningarréttur Íslendinga erlendis

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í tilefni af þessari fsp. til dómsmrh. um kosningarrétt Íslendinga erlendis benda á að 24. mars sl. var Borgarafl. stofnaður, það er ekki ár liðið enn þá, og tilkynnti þar með nýtt framboð, hæstv. dómsmrh. Þá var utankjörstaðakosning svo að segja afstaðin. Mér bárust margar kvartanir, bæði frá þeim sem eru búsettir erlendis og eru nemendur aðallega og eins frá þeim sem höfðu í millitíðinni farið í ferðalög og kosið áður en þeir fóru til útlanda, en framboðsfrestur var ekki útrunninn. Kosningar höfðu hafist án þess að framboðsfresturinn liði. Ég ætla að benda hæstv. dómsmrh. á að það er mjög stór galli á framkvæmd á kosningum sem við í Borgarafl. gerðum ekki athugasemdir við á sínum tíma þó svo að hluti af þeim sem höfðu kosið aðra flokka tilkynntu eftir á að þeir hefðu gjarnan viljað taka þátt í kosningunum eins og þær endanlega urðu eftir að framboðsfresti lauk. Þetta er stórt mál.